Ástþór Magnússon Wium

íslenskur viðskiptamaður og forsetaframbjóðandi
(Endurbeint frá Nýjar raddir)

Ástþór Magnússon Wium (f. í Reykjavík 4. ágúst 1953) er íslenskur viðskiptamaður og stofnandi Friðar 2000. Hann hefur boðið sig fram til forseta Íslands sex sinnum.

Ástþór Magnússon Wium
Fæddur
Ástþór Magnússon Wium

4. ágúst 1953 (1953-08-04) (71 árs)
Reykjavík, Ísland
StofnunFriður 2000
MakiNatalia Wium (g. 2004)[1]
Vefsíðaforsetakosningar.is

Menntun

breyta

Eftir landspróf hóf Ástþór nám í Verslunarskóla Íslands en fór síðan til Bretlands í nám við Medway College of Art and Design og lauk prófi í auglýsingaljósmyndun og markaðsfræðum. Hann sótti síðan fjölda námskeiða bæði heima og erlendis í stjórnun og rekstri fyrirtækja.[2]

Starfsferill

breyta

Ástþór var upphafsmaður að stofnun Eurocard á Íslandi árið 1979 en það var fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins.[3] Ástþór stofnaði einnig og rak um árabil myndiðjuna Ástþór og póstverslunarfyrirtæki með útibúum í Færeyjum og Danmörku. Árið 1983 flutti Ástþór til Danmerkur og síðan til Bretlands þar sem hann gerðist frumkvöðull í þróun tölvutækni fyrir gagnvirk upplýsinga- og verslunarkerfi. Hann kom einnig að flugrekstri um árabil og er með yfir 2000 flugtíma mest við stjórn á litlum einkaþotum.[heimild vantar]

Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 1994 með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995.[heimild vantar]

Nýjar raddir voru samtök mótmælenda sem Ástþór Magnússon stóð fyrir í kringum Búsáhaldabyltinguna, til höfuðs samtökunum Röddum fólksins. Nýjar raddir efndu til samkomu við Austurvöll þann 17. janúar 2009 klukkan 15:15. Þar áttu umræður að hefjast með stuttu ávarpi og þá átti orðið að vera laust. Raddir fólksins höfðu einnig skipulagt fund á Austurvelli á sama tíma, nánar tiltekið klukkan 15:00. Lögreglan mætti á staðinn og fjarlægði sendiferðabíl og annan búnað Nýrra radda. Í framhaldinu kærðu Nýjar raddir framgöngu lögreglustjórans í Reykjavík.[4][5]

Málaferli fyrir dómi

breyta

Árið 2003 var Ástþór kærður af ríkislögreglustjóra til héraðsdóms Reykjavíkur fyrir að senda tilhæfulausar viðvaranir um yfirvofandi sprengjutilræði til íslenskra flugfélaga. Ástþór hafði þá sent út yfirlýsingu merkta Friði 2000 þar sem hann sagðist hafa „rökstuddan grun“ um að ráðist yrði gegn íslenskri flugvél Icelandair eða Atlanta með flugráni eða sprengjutilræði vegna stuðnings Íslands við Íraksstríðið. Í yfirlýsingunni var almenningur varaður við því að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum og vikum. Héraðsdómur sýknaði Ástþór af kærunni þann 4. júlí 2003. Vísað var til þess að Ástþór hefði talið staðhæfingu sína rétta og að ekki yrði sakfellt fyrir lagaákvæðið sem um ræddi nema um vís­vit­andi rang­ar upp­lýs­ing­ar eða vís­vit­andi rang­ar til­kynn­ing­ar hefði verið að ræða.[6]

Forsetaframboð

breyta

Ástþór hefur boðið sig fram í embætti forseta Íslands sex sinnum, fyrst árið 1996. Ástþór kynnti hugmyndafræði sína í forsetaframboði 1996 og í bókinni Virkjum Bessastaði sem dreift var á öll heimili landsmanna. Forsetaframboð hans árið 2000 var dæmt ógilt, vegna þess að nægjanlegan fjölda meðmælenda vantaði.[7] Hann bauð sig fram í þriðja skiptið í forsetakosningunum 2004. Ástþór bauð sig fram á ný í forsetakosningunum 2012, en þann 1. júní 2012 var framboð hans dæmt ógilt því hann fékk ekki lögboðið vottorð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis.[8] Fimmta framboðið hans var í forsetakosningunum 2016. Þann 3. janúar 2024 lýsti hann yfir framboði fyrir forsetakosningarnar 2024.[9]

Ástþór greindi frá því í kosningabaráttunni 2024 að hann hefði fengið vitranir fyrir 30 árum sem hefðu orðið til þess að hann fór fyrst í forsetaframboð. Meðal annars sagðist hann hafa fengið vitrun um að ráðist yrði á Ísland með kjarnorkusprengju árið 2025 ef ekki næðist friður við Rússland.[10]

Árangur Ástþórs í forsetakosningum
Ár Atkvæði Hlutfall Sæti
1996 4.422 2,7% 4 af 4
2004 2.001 1,9% 3 af 3
2016 615 0,3% 7 af 9
2024 465 0,2% 8 af 12

Stjórnmálaskoðanir

breyta

Ástþór hefur í gegnum tíðina verið afar gagnrýninn á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sér í lagi á tíma Íraksstríðsins, sem hann segir leidda áfram af hergagnaiðnaðinum.[11] Í deilum milli vesturlanda og Rússlands hefur Ástþór gjarnan tekið afstöðu með Rússum. Meðal annars hrósaði hann innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 og sagði að Vladímír Pútín Rússlandsforseti ætti skilið friðarverðlaun Nóbels fyrir að standa fyrir henni.[12] Ástþór hefur gagnrýnt alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi og sagði þær árið 2023 jafngilda þjóðarmorði gegn rússneskum almenningi.[13]

Viðurkenningar

breyta

Árið 1996 hlaut Ástþór Gandhi-mannúðarverðlaunin, sem veitt voru af stofnuninni Gandhi Memorial International Foundation(en) í Orinda í Kaliforníu.[14] Forstöðumaður stofnunarinnar og verðlaunanna var Yogesh K. Gandhi, sem hafði komið til Íslands árið 1996 á vegum Friðar 2000. Gandhi sagðist vera skyldur indverska sjálfstæðisleiðtoganum og friðarsinnanum Mahatma Gandhi,[15] en eiginlegir afkomendur Mahatma sögðu Yogesh hins vegar vera svindlara sem hefði aðallega áhuga á að auðga sjálfan sig og mynda tengsl við valdastofnanir með því að vera ljósmyndaður við hlið þjóðarleiðtoga.[16] Í heimsókn sinni til Íslands árið 1996 hafði Gandhi hlotið fund með Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands.[17]

Talið er að stofnunin og veiting Gandhi-mannúðarverðlaunanna hafi verið fjármögnuð af Hogen Fukunaga(en), japönskum milljarðamæringi sem leiddi sértrúarsöfnuð í Japan.[18] Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Bandaríkjaþings á ólöglegum fjárframlögum til kosningabaráttu Bills Clinton Bandaríkjaforseta frá árinu 1998 beitti Fukunaga Gandhi-stofnuninni og verðlaununum til að koma söfnuði sínum í tengsl við áhrifafólk og auka vegsemd hans.[19] Fukunaga kom til Íslands ásamt Yogesh Gandhi í boði Friðar 2000 árið 1996 og hitti þar meðal annars Steingrím Hermannsson, þáverandi seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra Íslands.[20]

Ástþór segist hafa verið sæmdur Heilögum gullkrossi af grísku rétttrúnaðarkirkjunni fyrir meintan þátt sinn við að stilla til friðar milli Bandaríkjanna og Íraks á tíunda áratugnum. Að sögn Ástþórs tilnefndi UNESCO á Grikklandi hann til verðlaunanna.[21]

Tilvísanir

breyta
  1. „Hin hliðin á árinu 2004“. DV. 30. desember 2004. Sótt 7. janúar 2024.
  2. „Ástþór Magnússon - Myndasafn mbl.is“. www.mbl.is. Sótt 6. júní 2024.
  3. „Ég er upp á móti kerfinu“. Tíminn. 25. júní 1996. Sótt 7. janúar 2024.
  4. „Austurvöllur – Dagskrá“. Austurvollur.is. 15. janúar 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. janúar 2009. Sótt 29. nóvember 2024.
  5. Ástþór Magnússon (17.1.2009). „STJÓRNSÝSLUKÆRA vegna Lögreglunnar í Reykjavík“. blog.is.
  6. „Ástþór sýknaður“. mbl.is. 4. júlí 2003. Sótt 6. maí 2024.
  7. Valgerðardóttir, Sunna (21. maí 2016). „Tíu staðreyndir um Ástþór Magnússon“. Kjarninn. Sótt 7. janúar 2024.
  8. Frambjóðendur til kjörs forseta Íslands 2012
  9. Róbert Jóhannsson (3. janúar 2024). „Ástþór Magnússon býður sig fram til forseta“. RÚV. Sótt 7. janúar 2024.
  10. Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (13. maí 2024). „Ástþór í Forystusætinu: Forseti Íslands getur talað um fyrir Pútín“. RÚV. Sótt 30. maí 2024.
  11. Ástþór Magnússon (22. apríl 2022). „Er mamma sölu­maður dauðans?“. Vísir. Sótt 26. apríl 2022.
  12. Kolbeinn Tumi Daðason (20. mars 2014). „Skora á Alþingi að virða niðurstöðuna á Krímskaga“. Vísir. Sótt 26. apríl 2022.
  13. Ástþór Magnússon (2. nóvember 2023). „Styður héraðs­dómur þjóðar­morð?“. Vísir. Sótt 18. mars 2024.
  14. „Demókratar skila Gandhi-gjöfinni“. Morgunblaðið. 19. nóvember 1996. bls. 19.
  15. Í mörgum fréttum og í auglýsingum Friðar 2000 um komu Yogesh Gandhi til Íslands 1996 er hann ranglega sagður afkomandi Mahatma Gandhi.
  16. „Gjöfull fátæklingur“. Dagblaðið Vísir. 2. nóvember 1996. bls. 12.
  17. „Yogesh K. Gandhi til Íslands“. mbl.is. 8. febrúar 1996. Sótt 26. apríl 2022.
  18. Smith, Matt (8. apríl 1998). „Here Today, Gandhi Tomorrow? : Amazing tale of Walnut Creek man who gave Clinton $325,000; immunity possible for congressional testimony“. SF Weekly. www.sfweekly.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júní 2015. Sótt 26. apríl 2022.
  19. "Investigation of Illegal or Improper Activities in Connection with 1996 Federal Election Campaigns", 105th Congress, 2nd Session, United States Senate Report 105-167 Part 5, 105 S. Rpt. 167; Prt. 5, March 10, 1998. hosted at www.senate.gov, See also: Contribution of Yogesh Gandhi[óvirkur tengill].
  20. „Welcome! Dr. Hogen Fukunaga“. Morgunblaðið. 31. mars 1996. bls. 3.
  21. Ástþór Magnússon (18. júní 2016). „Af hverju ítrekað í forsetaframboð?“. Kjarninn. Sótt 26. apríl 2022.

Heimildir

breyta