Eurocard
Eurocard var greiðslukortaþjónusta sem var stofnuð af Skandinaviska Banken árið 1964 og átti að veita American Express samkeppni. Árið eftir var stofnað alþjóðlegt fyrirtæki, Eurocard International N.V., með höfuðstöðvar í Brussel. Árið 1968 tók Eurocard upp samstarf við hið bandaríska MasterCard sem þýddi að Eurocard-kort voru samþykkt um allan heim og MasterCard-kort í Evrópu. Árið 2002 sameinuðust Eurocard og MasterCard undir nafni þess síðarnefnda.
Eurocard var fyrsta greiðslukortaþjónustan á Íslandi. Kreditkort hf. var stofnað 1980 af athafnamanninum Ástþóri Magnússyni og þjónustan hófst 1. júní sama ár. Árið 1997 hóf Kreditkort hf. útgáfu MasterCard-korta.