Lev Trotskíj

Sovésk-úkraínskur byltingarmaður (1879-1940)
(Endurbeint frá Leon Trotsky)

Lev Trotskíj (rússneska: Лев Давидович Тро́цкий, Lev Davídovítsj Trotskíj) upphaflega nefndur Lev Davídovítsj Bronstein (rússneska: Лев Давидович Бронште́йн) (7. nóvember 187921. ágúst, 1940), var úkraínskur bolsévíki, byltingarmaður og marxískur kenningasmiður af gyðingaættum. Hann var áhrifamikill stjórnmálamaður á fyrstu árum Sovétríkjanna, fyrst sem utanríkisráðherra í sovésku ráðstjórninni og síðan sem stofnandi og herstjóri Rauða hersins og hermálaráðherra.

Lev Trotskíj
Лев Троцкий
Þjóðfulltrúi hernaðar- og flotamála í Sovétríkjunum
Í embætti
13. mars 1918 – 6. janúar 1925
ForsætisráðherraVladímír Lenín
Aleksej Rykov
ForveriNíkolaj Povojskíj
EftirmaðurMíkhaíl Frúnze
Þjóðfulltrúi utanríkismála í rússneska sovétlýðveldinu
Í embætti
8. nóvember 1917 – 13. mars 1918
ForsætisráðherraVladímír Lenín
ForveriMíkhaíl Terestsjenko
EftirmaðurGeorgíj Tsjítsjerín
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. nóvember 1879
Janovka, Rússaveldi (nú Úkraínu)
Látinn21. ágúst 1940 (60 ára) Mexíkóborg, Mexíkó
DánarorsökMyrtur
ÞjóðerniSovéskur (áður Úkraínskur)
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiAleksandra Sokolovskaja (g. 1899; skilin 1902)
Natalía Sedova (g. 1903)
BörnZinaida Volkova, Nina Nevelson, Lev Sedov, Sergei Sedov
HáskóliHáskólinn í Odessa
Undirskrift

Eftir að hafa leitt hina misheppnuðu Vinstriandstöðu við valdatöku Stalíns og aukið skrifræði í Sovétríkjunum á 3. áratugnum var hann rekinn úr sovéska kommúnistaflokknum og rekinn úr landi við upphaf Hreinsananna miklu. Í útlegðinni reyndi hann að stjórna sósíalísku andófi gegn Sovétstjórninni, safnaði fylgismönnum (sem eru kenndir við hann og kallaðir trotskíistar) en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann var loks myrtur af útsendara Stalíns á heimili sínu, sem var í næsta nágreinni við heimili vinkonu hans og ástkonu, listakonunnar Fridu Kahlo, í Mexíkóborg árið 1940.

Yngri ár

breyta

Lev Davidovitsj Bronstein fæddist í Janovka í Úkraínu árið 1879. Hann var sonur bóndans David Bronstein og konu hans Önnu Bronstein sem voru bændur af gyðingaættum.[1] Árið 1896 flutti hann til Níkolajev og komst í kynni við hóp róttækra byltingarsinna.[2] Eftir að hafa lesið mikið magn pólitískra bókmennta tók hann afstöðu gegn hryðjuverkum, sagði sig úr hópnum og snéri sér að kenningum Karls Marx. Hann stundaði nám við háskólann í Odessa um hríð en hætti fljótlega til að geta helgað sig pólitískum störfum.

Árið 1897 var Lev meðstofnandi Suðurrússneska Verkalýðsfélagsins og starfsemi þess fólst meðal annars í að hvetja verkamenn til að rísa upp gegn valdinu og hefja stéttarbaráttu. Fyrir slíkan áróður var hann handtekinn ári seinna og dæmdur í fjögurra og hálfs árs útlegð í Síberíu. Lev tókst að flýja úr útlegðinni eftir tveggja ára dvöl í Síberíu á fölskum passa undir nafninu Trotskíj, sem hann var þekktur undir framan af. Þá hafði hann þegar heyrt getið um marxistann Vladímír Úljanov (Lenín), sem var búsettur í London og tók því stefnuna þangað til að komast á fund við hann. Í London kynntust þeir fljótlega og Trotskíj hóf ritstörf á blaðinu Iskra eða Neistinn sem Lenín gaf út í þeim tilgangi að sameina rússneska marxista og hvetja þá til aðgerða. Trotskíj og Lenín söfnuðu að sér mörgum fylgismönnum og stefndi Lenín að því að sameina þá mörgu sósíalíska hópa sem til voru á þeim tíma í einn flokk. En þeir höfðu ólíkar hugsjónir varðandi þá byltingu sem var markmið beggja. Trotskíj þótti Lenín of upptekinn af því að ná algjöru valdi í flokknum og sagði sig úr honum árið 1903.[3] Sjálfur aðhylltist Trotskíj sósialisma með lýðræðislegra ívafi en Lenín. Margir sem voru honum sammála slitu sig einnig úr flokknum. Þá greindist flokkurinn í tvær fylkingar: bolsévika („meirihlutamenn“) sem voru fylgendur Leníns og mensévika („minnihlutamenn“) sem aðhylltust lýðræðislegan sósialisma.[2] Sú hugmynd að mynda samstarf við frjálslyndu borgarastéttina í byltingunni varð fljótlega vinsæl meðal mensévika en Trotskíj var á móti henni. Hann sagði sig loks úr hópi mensévika árið 1904 og lýsti sig óflokksbundinn sósialdemókrata.[3]

Árið 1905 ríkti mikil óánægja í Rússlandi vegna þeirra hörmunga sem stríð Rússa gegn Japönum olli. Mikill byltingarandi og verkföll riðu yfir landið og út frá þeim átökum mynduðust verkalýðsráð, sovét, um allt Rússland. Trotskíj sneri aftur til Rússlands um leið og honum bárust fréttirnar og var hann valinn formaður sovétsins í Sankti Pétursborg. Þessi fyrsta rússneska bylting tuttugustu aldarinnar var þó fljótlega barin niður af ríkisvaldinu. Trotskíj var handtekinn ásamt öðrum meðlimum sovétsins og sendur til Síberíu árið 1807, en í þetta skiptið tókst honum að flýja í upphafi ferðarinnar.[3] Á tímanum sem hann dvaldi í fangelsi þar til dómur var úrskurðaður náði hann að skrifa ritið Árangur og framhorfur þar sem hann setti fyrst fram kenningu sína um hina varanlegu byltingu. Næstu ár var hann aðallega búsettur í Austurríki og á Balkanskaga þar sem hann skrifaði greinar í sósíalíska miðla og ritstýrði blaðinu Pravda.[2]

Hlutverk í rússnesku byltingunni

breyta
 
Trotskíj ávarpar hermenn rauðliða í rússnesku borgarastyrjöldinni.

Árið 1917 hófst Febrúarbyltingin í Rússlandi sem varð keisaranum loks að falli. Trotskíj var staðsettur í New York þegar fréttirnar bárust og dreif sig um leið til Rússlands. Þá hafði ný bráðabirgðaríkisstjórn þegar verið mynduð en hún var, að áliti almennings, ófær um að leysa vandamál þjóðarinnar – það er að segja að koma á friði, stöðva hungursneyðina og færa bændum jarðir.

Sovétin voru enn til samhliða ríkisstjórninni og í þetta skiptið náðu Lenín og Trotskíj samkomulagi um stjórn þeirra. Það var markmið þeirra beggja að færa byltinguna á næsta stig, sem fólst í því að verkalýðurinn tæki völdin í sínar hendur. Þá gerðist Trotskíj bolséviki og var valinn í æðstu stjórn flokksins og einnig gerður formaður sovétsins í Pétursborg á ný. Þar skipulagði hann uppreisn og valdatöku verkalýðsins sem gekk vel fyrir sig. Aðrar slíkar aðgerðir fylgdu í kjölfarið um allt Rússland og gekk sú bylting undir nafninu Októberbyltingin. Hún var fremur óblóðug því bolsévikar nutu gríðarlegs stuðnings meðal landsmanna.

Þegar öll völd voru komin í hendur bolsévika hófu þeir myndun nýrrar ríkisstjórnar og var Trotskíj fyrst valinn sem utanríkisráðherra og síðan þjóðfulltrúi hernaðarmála. Hlutverk hans fólst þá meðal annars í að byggja upp rauða herinn frá grunni. Auk þess unnu Lenín og Trotskíj hörðum höndum að alþjóðlegri byltingu sósialista, því þeir töldu að kommúnismi gæti aðeins gengið á alþjólegum grundvelli og gæti ómögulega staðið undir sér í einu afmörkuðu landi. Þeir stofnuðu alþjóðlegan kommúnistaflokk í von um að fleiri lönd myndu fylgja Rússlandi. Það reyndist þó erfitt fyrir marxista annars staðar að ná sama árangri því þeir voru of fáir og óreyndir. Þetta leiddi til þess að sósíalisminn og byltingin einöngruðust í Rússlandi þar sem verkamannastéttin var þegar komin í þrot og margir látnir vegna styrjalda og hungursneyðar.

Það var mikil þörf í landinu fyrir hámenntað fólk til að byggja upp efnahaginn en Rússar voru almennt illa menntaðir og margir ólæsir. Mikill hluti hámenntaðs fólks, sem fékk ábyrgðarstöður í hinu nýja sósíalíska samfélagi, var af borgarastétt. Margir hverjir höfðu gegnt embættisstörfum fyrir keisarann og voru almennt á móti byltingunni. Þetta leiddi til þess að Sovétríkin urðu ekki eins lýðræðisleg og ætlast hafði verið til í upphafi.[3]

Barátta gegn Stalín

breyta

Lenín lést árið 1924. Hann hafði óskað þess að samvinnustjórn myndi taka við í flokknum eftir dauða sinn en hafði þó lýst því yfir í erfðaskrá sinni að Lev Trotskíj væri einn af hæfustu mönnum flokksins. Margir voru andvígir hugmyndum um samvinnustjórn og meðal þeirra var Jósef Stalín, sem var hátt settur í flokknum og sóttist eftir völdum. Trotskíj var hans helsti keppinautur um völd, því almenningur áleit hann vera eftirmann Leníns. Því faldi Stalín erfðaskrá Leníns, gróf upp ýmis gömul ágreiningsmál á milli Leníns og Trotskíj og byrjaði markvisst að grafa undan trúverðugleika Trotskíj til að ryðja honum úr vegi sínum.[1]

Sovétríkin voru þegar á þessum tíma orðin að skrifstofuveldi. Lenín hafði viðurkennt það áður en hann dó og haldið því fram að það væru ekki kommúnistarnir sem stjórnuðu ríkinu, heldur ríkið sem stjórnaði kommúnistunum. Enginn kunni betur á kerfið en Stalín og notfærði hann sér það óspart til þess að útrýma andstæðingum sínum. Trotskíj hélt enn í hugmyndir sínar og Leníns um hina alþjóðlegu byltingu og vildi vinna að alvöru sósíalísku lýðræði. Árið 1927 hafði Stalín náð meirihluta í flokknum og fjarlægði hann þá Trotskíj úr öllum embættum. Ári seinna var hann svo sendur í útlegð til Alma Ata við mongólsku landamærin og þaðan til Tyrklands árið 1929.[3]

Það sem eftir var ævinnar fylgdist Trotskíj grannt með þróuninni í Rússlandi. Hann hélt fyrirlestra, skrifaði bækur um Sovétríkin og safnaði að sér fylgismönnum. Nefna má rit hans Byltingin svikin þar sem hann fjallar um tilkomu skriffinnsku og einræðis í Sovétríkjunum og hvernig skrifstofuveldið hindraði myndun lýðræðislegs sósíalisma. Stjórn Stalíns byggðist á hugmyndum hans um „sósíalisma í einu landi“ og vann í raun gegn sósíalískum byltingum í öðrum löndum, til að raska ekki því valdajafnvægi sem ríkti og var í hennar hag. Trotskíj taldi hins vegar að ef lýðræðislegur sósíalismi kæmist ekki á í Sovétsríkjunum, þá myndi „sósíalismi í einu landi“ ekki standa undir sér, skrifstofuveldið myndi hrynja og kapítalismi tæki við aftur.[3]

Ofsóknir og morð

breyta
 
Trotskíj ásamt bandarískum aðdáendum sínum í Mexíkó árið 1940, stuttu áður en Trotskíj var myrtur.

Þrátt fyrir að vera útlægur úr Sovétríkjunum var Trotskíj ennþá ógn gagnvart Stalín. Hann átti stóran hóp alþjóðlegra fylgismanna, svokallaða trotskíista. Eftir að hafa búið í bæði Frakklandi og Noregi ásamt konu sinni fékk Trotskíj pólitískt hæli í Mexíkó í boði stjórnar Lázaro Cárdenas forseta. Þar bjó hann fyrst hjá listamönnunum og hjónunum Diego Rivera og Fridu Kahlo. Hann átti í ástarsambandi við Fridu en hjónaband hennar og Diego var afar frjálslynt og óhefðbundið. Árið 1939 flutti hann síðan til Avenida Viena skammt frá heimili Rivera.

Þann 20. ágúst 1940 var Trotskíj veitt tilræði á heimili sínu af útsendara Stalíns, Ramon Mercader. Hann hafði unnið traust Trotskíjs og beðið hann um að fara yfir nokkur skjöl fyrir sig á skrifstofu sinni. Þar dró hann upp ísexi og rak hana í höfuð Trotskíjs, honum að óvörum. Trotskíj lést þó ekki þegar af sárum sínum og náði hann að veita Mercader nokkra mótstöðu. Lífverðir hans komu og börðu Mercader nánast til dauða en Trotskíj bað þá að þyrma honum svo hægt væri að yfirheyra hann.[3] Trotskíj lést af sárum sínum daginn eftir. Ríkisstjórn Stalíns afneitaði allri ábyrgð á andláti Trotskíj og Mercader var dæmdur í 20 ára fangelsisvist, sem var hámarksdómur samkvæmt mexíkóskum lögum.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Dmitri Volkogonov, bls. 2.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Robert V. Daniels, Brittanica.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 Kasper Siegismund, Socialistiskt standpunkt

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta