Skrifræði, regluveldi eða skrifstofuveldi er félagsfræðilegt hugtak sem vísar til ákveðinnar tegundar skipulagsheildar til stjórnunar. Einkenni skrifræðis eru sérhæfð verkaskipting, stigveldi, ítarlegt regluverk, miðstýring, varðveisla vinnugagna og starfsmannakerfi sem byggir á menntun og reynslu.

Margar stofnanir fylgja skrifræðislegu skipulagi t.d. stjórnsýsla, herir, skólar, sjúkrahús og fyrirtæki. Í dag er hugtakið oft notað í neikvæðri merkingu, það er gjarnan tengt við Sovétríkin sálugu. Svo virðist sem að fólk tengi skrifræði við óskilvirkni. Þannig segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 1999 að meðal markmiða sé að „[d]regið verði úr skrifræði í samskiptum við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðaákvæði afnumin.“[1]

Hugtakið er upphaflega franskt, bureau sem vísar til dúks sem var lagður yfir skrifborð og kratos sem er grískt orð sem þýðir ræði. Skrifræði er stundum óformlega nefnt búrókrasía og þeir sem fylgja henni búrókratar (sbr.: Thor Vilhjálmsson í Ópi Bjöllunnar). Sumir skrifa bæði orðin með enskum framburði og skrifa bjúró-.

Uppruni og þróun breyta

Hugtakið skrifræði hefur verið notað síðan á 18. öld. Það er hins vegar þýski fræðimaðurinn Max Weber sem er þekktastur fyrir kenningar sínar um skrifræði. Weber hafði jákvæða skoðun á skrifræði, hann taldi það merki um stjórnarhætti sem væru lausir við geðþótta og einkenndust af skynsemi og lögmæti. Önnur skipulagsform lýsti hann sem náðargáfu og hefðarvaldi. Hefðarvaldsskipulag telst hver sú stofnun hafa séu yfirráð ákvörðuð byggt á hefðum og venjum, gott dæmi um slíkt eru konungsríki þar sem æsta vald ríkisins erfist milli kynslóða. Náðargáfa er það skipulag þegar persónutöfrar einstaklings eða sérstakir eiginleikar hans verði til þess að honum eru veitt völd. Hér má sem dæmi taka Adolf Hitler, Gandhi eða Che Guevara sem nutu ómældra vinsælda meðal þegna sinna og var veitt valdsumboð í krafti þess. Önnur dæmi geta verið trúarlegir leiðtogar sem segjast hafa sérstaka stöðu eða hæfileika. Í þessu samhengi skiptir ekki máli hvort umræddir leiðtogar hafi verið kosnir til valda á lýðræðislegan hátt, líkt og Hitler var, eða ekki heldur er greinarmunur gerður á því hvort viðkomandi sé í embættinu vegna verðleika eða ekki.

Tilvísanir breyta

  1. „Í FREMSTU RÖÐ Á NÝRRI ÖLD:Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 28. maí 1999“. 28. maí 1999. Sótt 30. apríl 2007.

Heimildir breyta

  • Gunnar Helgi Kristinsson (2006). Íslenska stjórnkerfið. Háskólaútgáfan. ISBN 9979-54-713-8., bls 197-201
  • Ken Morrison (1995). Marx, Durkheim, Weber. Sage Publishing. ISBN 0-8039-7562-7., bls 293-304
  • Martin Albrow (1970). Bureaucracy. Praeger. ISBN 0-269-02623-1.

Tenglar breyta