Orkneyinga saga
Orkneyinga saga (einnig kölluð Jarlasögur) er íslensk saga, sem fjallar um sögu Orkneyja (og norðurhluta Skotlands), frá því Noregskonungar lögðu eyjarnar undir sig á 9. öld, allt fram undir 1200. Sagan segir einkum sögu jarlanna (Orkneyjajarla), sem stýrðu eyjunum í umboði Noregskonungs.
Um söguna
breytaSagan hefst í grárri forneskju, en segir svo frá landvinningum Norðmanna og stofnun jarlsdæmisins. Í fyrsta hlutanum ber talsvert á þjóðsagnakenndu efni, en höfundurinn hefur haft traustari heimildir þegar nær dregur í tíma. Saga jarlanna er síðan rakin fram undir 1200. Fyrsti jarlinn sem eitthvað kvað að, var Torf-Einar Rögnvaldsson, og síðan fylgdu dugmiklir afkomendur hans, eins og Þorfinnur hausakljúfur, Þorfinnur Sigurðarson o.fl. Síðasti jarlinn sem sagt er frá er Haraldur Maddaðarson, d. 1206.
Meðal jarlanna var Magnús Erlendsson, d. 1116, sem síðar var tekinn í dýrlinga tölu. Af honum er einnig sérstök helgisaga, Magnúss saga Eyjajarls. Systursonur hans var Rögnvaldur Kali, sem stýrði eyjunum á miklu velmegunarskeiði. Talsvert er sagt frá Jórsalaför hans 1151–1153.
Orkneyinga saga er aðalheimildin um sögu Orkneyja, Hjaltlands og norðurhluta Skotlands, í þrjár og hálfa öld, og rekur einnig mikilvægan þátt í sögu víkingaaldarinnar. Þá voru Orkneyjar krossgötur, þar sem fjölbreyttir menningarstraumar komu saman.
Upphaflega mun sögunni hafa lokið með 108. kapítula, og eru kaflar 109–112 taldir síðari viðbót. Aftast er viðauki, Brenna Adams biskups (1222), sem er aðeins að finna í Flateyjarbók.
Talið er að sagan hafi verið rituð hér á Íslandi um 1200. Óvíst er hver samdi söguna, en ýmsar tilgátur uppi um það.
Allt frá því að Orkneyinga saga varð almennt kunn á Bretlandseyjum með enskri þýðingu 1873, hefur hún haft sérstakan sess í hugum Orkneyinga. Hún opnaði þeim nýja sýn á fortíðina, varpaði ljósi á að norræn menning var öldum saman ríkjandi á eyjunum, og þar var voldug stjórnsýslumiðstöð. Raunar var norræna tímabilið blómaskeið í sögu þeirra. Þeim varð ljóst að norræna arfleifðin var gildur þáttur í þeirri menningu sem þróast hefur í eyjunum, ekkert síður en hin keltneska, sem fyrir var í eyjunum, og hin skoska sem síðar tók við.
Orkneyinga saga er oft flokkuð með konungasögum, þó að hún sé það ekki, strangt til tekið.
Handrit og útgáfur
breytaFlateyjarbók hefur ein skinnbóka varðveitt nær alla Orkneyinga sögu. Er sagan þar felld inn í Ólafs sögurnar tvær, og henni skeytt við þær. Einnig eru til leifar þriggja skinnbóka, sem eru mun eldri en Flateyjarbók. AM 325 I 4to (18 blöð), AM 325 IIIa 4to (tvö blöð) og AM 325 IIIb 4to (eitt blað). Loks var sagan til á skinnbók í Noregi. Leifar hennar bárust á Háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn, og brunnu þar 1728, en til er uppskrift sem Árni Magnússon lét gera, AM 332 4to. Einnig er til dönsk þýðing, sem gerð var í Noregi meðan handritið var að mestu heilt.
Helstu útgáfur eru:
- Jón Jónsson (útg.): Orkneyinga saga, Hafniæ 1780. – Frumútgáfan, með latneskri þýðingu, Árnanefnd gaf út.
- Guðbrandur Vigfússon (útg.): Icelandic sagas I, London 1887. – Í Rolls series, meðal efnis, Orkneyinga saga. Ensk þýðing George Webbe Dasents í Icelandic sagas III (1894).
- Sigurður Nordal (útg.): Orkneyinga saga, Kbh. 1913–1916. – Textafræðileg útgáfa.
- Finnbogi Guðmundsson (útg.): Orkneyinga saga, Rvík 1965. Íslensk fornrit 34. Hið íslenska fornritafélag.
Þýðingar
breytaAuk latnesku þýðingarinnar, sem fylgdi frumútgáfunni 1780, má nefna eftirtaldar þýðingar:
- The Orkneyinga saga. Edinburgh 1873. Þýðendur: Jón A. Hjaltalín og Gilbert Goudie. – Fremst er ritgerð um sögu Orkneyja að fornu, eftir Joseph Anderson.
- The Orkneyinga saga. Edinburgh 1938. Þýðandi: Alexander Burt Taylor. – Fræðileg útgáfa með ítarlegum skýringum.
- Orkneyinga Saga: The History of the Earls of Orkney, London 1978. Þýðendur: Hermann Pálsson og Paul Edwards. Endurprentuð 1981, Penguin Classics.
- Nýnorska: Orknøyingasoga. Oslo 1929. Þýðandi: Gustav Indrebø. Norrøne bokverk 25.
- Þýska: Die Geschichten von den Orkaden, Dänemark und der Jomsburg. Darmstadt 1966. Þýðandi: Walter Baetke. Thule – Altnordische Dichtung und Prosa, 19. bindi.
- Norska: Orknøyingenes saga. Oslo 1970. Þýðandi: Anne Holtsmark. Thorleif Dahls Kulturbibliotek.
- Franska: La saga des Orcadiens. Paris 1990. Þýðandi: Jean Renaud.
- Danska: Orknøboernes saga. Odense 2002. Þýðandi: Jens Peter Ægidius.
Heimildir
breyta- Finnbogi Guðmundsson (útg.): Orkneyinga saga, Rvík 1965.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Orkneyinga saga“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. september 2008.