Hákonar saga Ívarssonar
Hákonar saga Ívarssonar er forn íslensk saga, sem segir frá Hákoni Ívarssyni, sem var jarl á Upplöndum í Noregi á 11. öld. Aðeins eru varðveittir nokkrir kaflar úr sögunni.
Um söguna
breytaHandritið AM 570 a 4to er íslensk skinnbók frá árabilinu 1450–1500. Þar eru brot úr fimm sögum, m.a. 6 blöð úr Hákonar sögu Ívarssonar, en mikið er glatað úr sögunni. Sagan er ekki til annars staðar, en til er útdráttur á latínu, sem talið er að Arngrímur Jónsson lærði hafi gert um 1600, eftir handriti þar sem sagan var heil. Útdrátturinn gefur nokkra hugmynd um það efni sem glatast hefur. Einnig hefur Snorri Sturluson stuðst við Hákonar sögu Ívarssonar þegar hann tók saman Heimskringlu. Er sagan því eldri en 1220, eða a.m.k. frumgerð hennar.
Fyrst segir frá æsku Hákonar og víkingaferðum. Hann giftist Ragnhildi, dóttur Magnúsar góða Noregskonungs, en þegar Haraldur harðráði sveik hann um jarlsnafnbót, fór hann til Danmerkur og gekk í þjónustu Sveins konungs Úlfssonar. Síðar sættist Hákon við Harald harðráða, sem gerði hann jarl á Upplöndum. Árið 1062 barðist Hákon með Haraldi gegn Sveini Danakonungi við ána Nizi (á Hallandi, nú í Svíþjóð) þar sem Norðmenn unnu sigur. Eftir orustuna náði Sveinn konungur fundi Hákonar, sem kom honum undan. Nokkru síðar fékk Haraldur vitneskju um þetta og ætlaði að láta Hákon gjalda fyrir með lífinu, en honum barst njósn og komst yfir til Svíþjóðar. Þeir börðust 1064, Haraldur vann sigur og batt þar með enda á ítök Hákonar á Upplöndum. Óvíst er hvenær Hákon dó.
Sagan dregur upp afar jákvæða mynd af jarlinum, sem þó sat á svikráðum við Harald Noregskonung. Hákon átti áhrifamikla afkomendur. Dóttir hans var amma Eiríks lambs Danakonungs, og önnur dóttir hans giftist Páli Þorfinnssyni Orkneyjajarli. Meðal afkomenda þeirra voru margir jarlar og annað stórmenni, t.d. Bjarni biskup Kolbeinsson í Orkneyjum. Hafa komið fram hugmyndir um að Bjarni biskup hafi látið rita söguna um 1200, og þá e.t.v. fengið Íslending til verksins.
Hákonar saga Ívarssonar er eina varðveitta fornsagan sem fjallar um Norðmann utan norsku konungsættarinnar. Það styrkir rökin fyrir að fleiri slíkar hafi verið til, t.d. Hlaðajarla saga.
Finnur Jónsson segir að Hákonar saga Ívarssonar sé eins konar framhald af Hlaðajarla sögu, en faðir Hákonar var dóttursonur Hákonar Sigurðarsonar Hlaðajarls.
Í Morkinskinnu er einnig sagt talsvert frá Hákoni Ívarssyni, en engin skrifleg tengsl virðast þar vera við Hákonar sögu Ívarssonar.
Heimildir
breyta- Gustav Storm: Snorre Sturlassøns historieskrivning, Kbh. 1873, 236–260. – Frumútgáfa sögunnar, sjá umfjöllun á bls. 49 og 182–183.
- Finnur Jónsson: Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie II, 2. útg., Kbh. 1920–1924, 636–637.
- Jón Helgason og Jakob Benediktsson (útg.): Hákonar saga Ívarssonar. Kbh. 1952. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 62. – Með latneska útdrættinum.