Brjáns saga – (eða Brjánssaga) – var forn íslensk saga (tilgátusaga), þar sem m.a. var sagt frá Brjánsbardaga á Írlandi og Brjáni yfirkonungi Írlands. Sagan er glötuð.

Flestir fræðimenn eru sammála um að í 154.–157. kafla Njáls sögu sé stuðst við glatað rit um Brjánsbardaga. Þetta rit er einnig notað í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar og lítillega í Orkneyinga sögu. Þessi tilgátusaga er venjulega kölluð Brjáns saga, og hefur líklega verið samin á Íslandi um 1200. Hún hefur e.t.v. verið eina íslenska fornritið sem fjallaði að mestu um írska atburði.

Í Þorsteins sögu segir: „Jarl [Sigurður Hlöðvisson] þakkaði honum [Þorsteini] orð sín. Þeir fóru síðan til Írlands og börðust við Brján konung, og urðu þar mörg tíðendi senn, sem segir í sögu hans.“ Talið hefur verið að orðið hans vísi til Brjáns konungs og sögu hans. Jón Jóhannesson benti hins vegar á, að þetta megi skilja svo að átt sé við sérstaka sögu af Sigurði Hlöðvissyni Orkneyjajarli, sem féll í Brjánsbardaga. Sú saga er glötuð ef til hefur verið. Þrátt fyrir þennan möguleika hélt Jón sig við það að átt sé við sögu Brjáns konungs.

Brjánsbardagi varð föstudaginn langa, 23. apríl 1014, á Uxavöllum (Clontarf – clon = engi, tarf = tarfur, uxi) við Dyflinni á Írlandi. Þar tókust á Brjánn yfirkonungur Írlands og konungurinn í Leinster, Máel Mórda mac Murchada, sem hafði fengið til liðs við sig málaliða frá Orkneyjum og Dyflinni, undir stjórn Sigtryggs silkiskeggs Dyflinnarkonungs. „Brjánn féll, en hélt velli“, eins og segir í vísu um bardagann. Aðalheimildir um orustuna eru írskar, m.a. samtímaannálar og ritið Landvörn Íra gegn víkingum (Cogadh Gáedhel re Gallaibh) frá 12. öld.

Kjarni frásagnarinnar um Brjánsbardaga eru Darraðarljóð, sem eru stórfellt og dularfullt kvæði, e.t.v. ort á Katanesi nyrst á Skotlandi. Sjá Njáls sögu.

Nýlega hafa verið endurvaktar hugmyndir um að Brjáns saga hafi verið rituð af norrænum mönnum í Dyflinni um 1100, sem andsvar við ritinu „Landvörn Íra gegn víkingum“ (sjá Clarke o.fl. 1998:449).

Heimildir

breyta
  • Sophus Bugge: Norsk sagafortælling og sagaskrivning i Irland. Kristiania 1901.
  • Einar Ól. Sveinsson (útg.): Brennu-Njáls saga. Íslensk fornrit XII, Reykjavík 1954:xlv-xlix. Hið íslenska fornritafélag.
  • Jón Jóhannesson (útg.): Austfirðinga sögur. Íslensk fornrit XI, Reykjavík 1950:cii og 301. Hið íslenska fornritafélag.
  • H. B. Clarke, M. Ní Mhaonaigh og R. Ó Floinn (ritstj.): Ireland and Scandinavia in the Early Viking Age. Four Courts Press, 1998.
  • John Kennedy: The Íslendingasögur and Ireland. http://www.dur.ac.uk/medieval.www/sagaconf/kennedy.htm Geymt 20 júní 2008 í Wayback Machine
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Brjáns saga“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. nóvember 2008.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta