Elsta saga Ólafs helga

Elsta saga Ólafs helga er eins og nafnið bendir til elsta þekkta sagan um Ólaf helga Haraldsson Noregskonung. Fyrri fræðimenn töldu að hún væri meðal elstu konungasagna, e.t.v. rituð um 1160, en síðari rannsóknir benda til að sagan sé frá því um 1190.

Skömmu fyrir miðja 19. öld fundust í Ríkisskjalasafni Norðmanna 16 sneplar úr fornu skinnhandriti Ólafs sögu helga, NRA 52. Sneplarnir fundust í bandi skjalabóka frá Sunnmæri 1639-1641, en líkur benda til að skjalabækurnar hafi verið bundnar inn í Björgvin. Þetta reyndust vera leifar af 6 blöðum úr handriti í fjórblöðungsbroti frá því um 1220–1230. Gustav Storm gaf brotin út árið 1893, ásamt ljósprentuðum myndum af þeim. Hann taldi að Elsta sagan væri samin á Íslandi á árabilinu 1155-1180, og að handritsbrotin séu skrifuð af Íslendingi.

Í útgáfu Storms voru einnig tvö brot úr Árnasafni, AM 325 IVα 4to, sem Storm taldi vera úr Elstu sögu. Þessi brot eru úr skinnhandriti frá því um 1225-1250, tvö samhangandi blöð, en vantar í á milli þeirra. Í útgáfu Storms eru þau kölluð „sjöunda og áttunda brot“. Þar segir m.a. frá jarteiknum Ólafs helga. Árið 1970 birti Jonna Louis-Jensen grein, þar sem hún dró í efa að „sjöunda og áttunda brot“ séu úr Elstu sögu, heldur geti þar verið um að ræða annað rit um Ólaf helga, e.t.v. jarteiknabók, sem höfundur Helgisögunnar hefur notað. Nauðsynlegt sé að rannsaka málið nánar. Í grein Jonnu er ný útgáfa á texta þessara tveggja brota.

Helgisaga Ólafs Haraldssonar er með köflum nánast uppskrift af Elstu sögu og er því oft notuð til að gefa hugmynd um hana.

Eins og í öðrum konungasögum er í Elstu sögu vitnað í gömul dróttkvæði til skrauts og til að staðfesta frásögnina.

Heimildir

breyta
  • Gustav Storm (útg.): Otte brudstykker af Den ældste saga om Olav den hellige. Christiania 1893.
  • Bjarni Aðalbjarnarson (útg.): Heimskringla I : Íslensk fornrit XXVI. Hið íslenska fornritafélag. Reykjavík 1941.
  • Guðni Jónsson (útg.): Konunga sögur I. Íslendingasagnaútgáfan. Reykjavík 1957:401-426. (Texti brotanna).
  • Jonna Louis-Jensen: „Syvende og ottende brudstykke“. Fragmentet AM 325 IVα 4to. Bibliotheca Arnamagnæana XXX, København 1970:31-60.
  • Alison Finlay (útg. og þýð.): Fagrskinna, a Catalogue of the Kings of Norway. Brill Academic Publishers. 2004. ISBN 90-04-13172-8
  • Martin Chase: Einarr Skúlason's Geisli : A Critical Edition. University of Toronto Press. 2005:14. ISBN 0-8020-3822-0
  • Theodore M. Andersson: The Growth of the Medieval Icelandic Sagas, 1180-1280. Cornell University Press 2006. ISBN 0-8014-4408-X
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Oldest Saga of St. Olaf“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. apríl 2008.

Tenglar

breyta