Karl Jónsson (um 1135 – um 1213) var rithöfundur og ábóti í Þingeyraklaustri. Hann er höfundur Sverris sögu, sem fjallar um Sverri Sigurðarson Noregskonung.

Æviferill breyta

Ætt Karls Jónssonar er ókunn, en Steinn Dofri giskaði á að faðir hans hefði verið Jón Þorvarðsson svarti, af Ljósvetningaætt.

Karl var ábóti í Þingeyraklaustri 11691181, en þá tók Kári Runólfsson við embættinu. Líklega hefur Karl verið munkur þar áður. Árið 1185 sigldi Karl til Noregs, og dvaldist þar við hirð Sverris konungs til 1188. Kári Runólfsson ábóti dó 1187. Er talið að Karl Jónsson hafi aftur orðið ábóti á Þingeyrum þegar hann kom til Íslands 1188, a.m.k. er hann ábóti þar um 1200. Árið 1207 er nýr ábóti vígður þangað, og hefur Karl látið af embættinu skömmu áður. Karl andaðist 1212 eða 1213 að vitnisburði annála.

Á dögum Karls var Benediktsklaustrið á Þingeyrum mikil bókmenntamiðstöð, og voru þar auk Karls, rithöfundarnir Oddur Snorrason munkur og Gunnlaugur Leifsson munkur.

Sumir hafa talið að Karl hafi farið til Noregs að ósk Sverris konungs, til að rita sögu hans. Aðrir hallast að því að Karl hafi farið að eigin frumkvæði, til þess að taka upp þráðinn eftir Hryggjarstykki Eiríks Oddssonar, sem var fyrsta konungasagan sem sótti efni til samtímans. Loks má nefna þá tilgátu, að Karl hafi verið sendur af íslenskum höfðingjum, til þess að leita stuðnings Sverris í deilum Íslendinga við Eystein Erlendsson erkibiskup.

Í formála Sverris sögu kemur fram að Karl ritaði fyrri hluta bókarinnar að viðstöddum Sverri konungi, sem „réð fyrir hvað rita skyldi“. Þann hluta bókarinnar kölluðu þeir Grýlu. Skiptar skoðanir eru um hvar Grýla endar; Þorleifur Hauksson telur eðlilegast að miða við skilin sem eru eftir 100. kapítula sögunnar. Hann telur og að Karl hafi farið aftur til Noregs skömmu eftir 1200, og ritað þá síðari hluta sögunnar. Þá hefur hann stuðst við frásagnir heimildarmanna, en einnig kemur fram í formálanum að „sum þessi tíðindi voru svo í minni fest að menn rituðu þegar eftir er nýorðin voru“. Hefur Sverrir látið gera það til þess að safna efni til síðari hluta sögu sinnar.

Um Karl Jónsson hefur verið sagt „að hann sé og hafi lengi verið vanmetinn snillingur í fornbókmenntasögunni“.

Heimildir breyta

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár III.
  • Þorleifur Hauksson: Formáli Sverris sögu. Íslensk fornrit XXX, bls. xxii-xxiv.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Karl Jonsson“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. apríl 2008.