Knýtlinga saga — eða Ævi Danakonunga — er konungasaga, sem fjallar um sögu Danakonunga frá því um 950 þegar Haraldur blátönn var konungur, til ársins 1187, þegar Knútur Valdimarsson (d. 1202) hafði unnið sigur í Vindastríðunum. Sagan var skrifuð á Íslandi um eða fyrir 1250.

Knútur ríki, mynd úr fornu handriti

Um söguna

breyta

Nafnið Knýtlingar mun hafa verið notað um afkomendur Knúts ríka Danakonungs.

Knýtlinga saga hefst þannig: „Haraldur Gormsson var tekinn til konungs í Danmörk eftir föður sinn.“ Allir fræðimenn eru sammála um að upphaf sögunnar hafi glatast. Guðbrandur Vigfússon sýndi fram á það fyrir löngu að Sögubrot af fornkonungum, sem varðveitt er í AM 1eβ I fol. hafi verið hluti af einu handriti Knýtlinga sögu (AM 20 b I fol.), og það því haft að geyma samfellda sögu Danakonunga frá forneskju. Sumir fræðimenn telja Sögubrotið leifar hinnar glötuðu Skjöldunga sögu.

Knýtlinga saga er laustengd Heimskringlu Snorra Sturlusonar (sögu Noregskonunga frá upphafi til 1177). Höfundur Knýtlinga sögu notaði Heimskringlu sem fyrirmynd að verki sínu, þ.e. Knýtlinga saga átti að verða sambærilegt yfirlit um sögu Danakonunga. Hins vegar hafði hann ekki jafn næmt auga og Snorri fyrir sögulegri heimildarýni, né því hvað fer vel í frásögn. Þrátt fyrir það hefur Knýtlinga saga mikið sögulegt og bókmenntalegt gildi. Í Knýtlinga sögu er eins og í Heimskringlu vitnað í dróttkvæði, bæði til skrauts og til að staðfesta frásögnina.

Ólafs saga helga er burðarásinn í Heimskringlu, og á sama hátt fjallar höfundur Knýtlinga sögu í lengstu máli um Knút helga (d. 1086). Umfjöllun um valdaskeið hans nær yfir 23.-72. kafla í Knýtlinga sögu, eða um 40% af sögunni. Frásögnin styðst m.a. við tvö latínurit um ævi Knúts konungs, sem skrifuð voru af Englendingum sem störfuðu í Danmörku. Nafn annars þeirra er óþekkt, en hinn hét Ælnoth og var munkur frá Kantaraborg. Hann flýði land eftir að Normannar lögðu undir sig England árið 1066.

Í Knýtlinga sögu er Knútur helgi sýndur í karlmannlegu ljósi, sem víkingur og veraldlegur valdhafi, og einnig sem kristinn píslarvottur. Athygli vekur að Sveinn Þorgunnuson, faðir Össurar erkibiskups í Lundi, fær mikið rými í sögu Knúts helga. Þetta eru e.t.v. áhrif frá Jómsvíkinga sögu, en helsta söguhetjan þar, Vagn Ákason, var forfaðir Össurar.

Höfundurinn

breyta

Sterk rök hafa verið færð fyrir því að höfundur sögunnar sé Ólafur Þórðarson hvítaskáld, d. 1259. Hann var bróðursonur Snorra Sturlusonar. Ólafur fór til Danmerkur sumarið 1240 og var við hirð Valdimars sigursæla þar til konungurinn dó vorið 1241. Í sögunni segir: „Með honum [Valdimar konungi] var Ólafur Þórðarson og nam að honum marga fræði, og hafði hann margar ágætligar frásagnir frá honum“. Sigurður Nordal segir að tæplega hafi nokkur annar Íslendingur haft jafn góð skilyrði og Ólafur til að ráðast í það stórvirki að semja Knýtlinga sögu.

Dvöl Ólafs við hirð Valdimars, var hliðstæð því þegar Adam frá Brimum dvaldist við hirð Sveins Úlfssonar, sem var konungur í Danmörku á árunum 10471074. Þar fékk Adam upplýsingar sem hann notaði í verk sitt Gesta Hammaburgensis Ecclesiae Pontificum (Sögu erkibiskupsdæmis Hamborgar) sem er einnig merk heimild um mannlíf á Norðurlöndum.

Höfundur Knýtlinga sögu notaði beint og óbeint ritaðar danskar heimilidir, m.a. Danasögu Saxa (Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus). Er einkum stuðst við Saxa í síðari hluta bókarinnar. Einnig sótti höfundurinn efni í Heimskringlu Snorra Sturlusonar og fjölmörg önnur rit. Í útgáfu Bjarna Guðnasonar, 1982, er mikill fróðleikur um heimildir sögunnar.

Handrit og útgáfur

breyta

Knýtlinga saga er varðveitt í nokkrum handritum, sem skiptast í tvo flokka, A og B. Aðalhandrit A-flokksins var Codex Academicus, skinnbók í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn sem brann 1728. Arild Huitfeldt, kanslari Danakonungs, komst yfir bókina 1588 úr hendi Magnúsar Björnssonar, sonarsonar Jóns biskups Arasonar. Skinnbókin er talin hafa verið frá því um 1300. Til eru allgóðar uppskriftir eða útgáfur af texta handritsins. Einnig má nefna eftirtalin handrit, sem öll eru í Árnasafni:

  • AM 20 b I fol., 9 blöð úr skinnhandriti frá því um 1300, af A-flokki. Handritið var áður eign Skálholtskirkju.
  • AM 180 b, fol., óheil skinnbók frá því um 1500, aðalhandrit B-flokksins. Til eru 17. aldar uppskriftir, gerðar meðan handritið var heilt. Bókin er með fangamarki Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups.
  • AM 20 b II fol., þrjú blöð úr skinnhandriti frá 1300-1325, af B-flokki. Blöðin komu af Vestfjörðum.

Handrit af B-flokki hefjast með 22. kapítula.

Knýtlinga saga var prentuð 1741, með latneskri þýðingu, en bókin kom aldrei út, og aðeins örfá eintök varðveitt. Útgáfan er besta heimildin um texta Codex Academicus, og hefur því mikið gildi.

Aðrar útgáfur eru:

Af þýðingum má nefna:

Heimildir

breyta
  • Bjarni Guðnason (útg.): Danakonunga sögur, Rvík 1982. Íslensk fornrit XXXV.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Knytlinga saga“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. júní 2008.

Tenglar

breyta