Skjöldunga saga
Skjöldunga saga er glötuð saga, sem sagði frá niðjum Skjaldar, sonar Óðins, og fjallaði um sögu Danakonunga aftan úr grárri forneskju til Gorms gamla. Sagan var skrifuð á Íslandi um 1180–1200.
Elsta heimild um Skjöldunga sögu er í 29. kapítula Ynglinga sögu (í Heimskringlu Snorra Sturlusonar). Þar segir um orustuna á Vænis ísi: „Frá þessi orrustu er langt sagt í Skjöldunga sögu og svo frá því, er Hrólfur kraki kom til Uppsala til Aðils.“ – Einnig er Skjöldunga saga eða Skjöldungabók nefnd í bókaskrám frá 14. og 15. öld.
Bjarni Guðnason hefur manna mest rannsakað Skjöldunga sögu. Hann telur að helstu minjar um hana séu útdrættir, og kaflar sem teknir voru upp í önnur rit. Meðal þeirra eru:
- Danasaga Arngríms lærða, á latínu (Rerum Danicarum Fragmenta).
- Upphaf allra frásagna.
- Ynglinga saga.
- Snorra-Edda.
- Sögubrot af nokkrum fornkonungum.
- Svíakonungatal Arngríms lærða, á latínu (Ad Catalogum Regum Sveciæ . . . annotanda).
- Ragnarssona þáttur.
- Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta.
Bjarni safnaði þessum köflum saman og prentaði þá í útgáfu sinni af Danakonunga sögum, 1982. Einnig þýddi hann úr latínu ofangreinda útdrætti Arngríms lærða, sem eru frá því um 1600. Bjarni telur að Danasaga Arngríms lærða gefi besta hugmynd um eldri gerð Skjöldunga sögu. Arngrímur hafði þó ekki fyrir sér heillegan texta sögunnar, heldur afrit, sem var afbakað. Auk þess vantaði þá talsvert í söguna, m.a. frásagnir af Ívari víðfaðma, Haraldi hilditönn og Brávallabardaga. Reyndi Arngrímur að brúa það bil með Heiðreks sögu og fleiri heimildum.
Sögubrot af nokkrum fornkonungum er talið vera endursaminn og aukinn texti Skjöldunga sögu, þ.e. brot úr yngri gerð sögunnar, sem í a.m.k. einu handriti hefur verið skeytt framan við Knýtlinga sögu. Texti sögubrotsins hefur orðið fyrir áhrifum frá riddarasögum, og gæti verið frá síðari hluta 13. aldar.
Álitamál er hvort telja beri Skjöldunga sögu meðal konungasagna, eða kalla hana fyrstu fornaldarsöguna í íslenskum bókmenntum. Raunar getur hvort tveggja staðist. Bjarni Guðnason segir: „Skjöldunga saga er merkilegt landvinningarit í íslenskum miðaldabókmenntum. Höfundur víkkar svið sagnaritunarinnar bæði um vettvang og tíma. . . . Það væri því nærtækt að álykta, að Skjöldunga saga hefði átt veigamikinn þátt í því að ryðja fornaldarsögum brautina að bókfellinu“. – Skjöldunga saga varð einnig fyrirmyndin að Ynglinga sögu Snorra Sturlusonar.
Af fornaldarsögum og Danasögu Saxa má sjá að á Íslandi gengu miklar sagnir af Skjöldungum á 12. og 13. öld. Bjarni Guðnason bendir á að Skjöldunga saga hafi m.a. verið skrifuð til þess að hafa í hávegum kyngöfgi Skjöldunga, því séu engir líklegri en Oddaverjar til að haf staðið að ritun hennar. Telur hann að söguhöfundar sé að leita í næsta nágrenni við Pál Jónsson biskup í Skálholti, ef hann hafi þá ekki sjálfur samið söguna. Það er þó ágiskun, þó að færa megi ýmis rök fyrir því.
Meðal hinna þekktustu af Skjöldungum eru Friðfróði, sem sagt er frá í Gróttasöng, og herkonungarnir Hrólfur kraki, sem sagt er frá í Bjarkamálum, Ragnar loðbrók og Haraldur hilditönn. Líklega voru Skjöldungar sögulegar persónur, en það sem sagt hefur verið frá þeim í Skjöldunga sögu voru munnmæli og þjóðsagnir.
Heimildir
breyta- Bjarni Guðnason (útg.): Danakonunga sögur, Rvík 1982. Íslensk fornrit XXXV.
- Bjarni Guðnason: Um Skjöldungasögu, Rvík 1963. Doktorsrit.
- Einar Ólafur Sveinsson: Sagnaritun Oddaverja, Rvík 1937. Studia Islandica I.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Skjöldunga saga“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. júní 2008.