Jónsmessunótt
Jónsmessunótt er sú nótt kölluð sem er aðfararnótt Jónsmessu þann 24. júní. Víðast hvar er Jónsmessu fagnað í Evrópu og víðar sem miðsumarshátíð og þá haldin ýmist á sólstöðum þann 21. eða dagana þar á eftir til 24. júní. Mest þó í Norður-Evrópu, og oftast þá kvöldið eða nóttina áður samanber leikrit Shakespeares, A Midsummer Night’s Dream sem í íslenskri þýðingu nefnist Draumur á Jónsmessunótt. Þá tíðkuðust og tíðkast víða enn, miklar veislur, brennur og dansleikir sem oftast tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum, draugum og púkum enda talið að þessa nótt væru skil milli heima minni en flestar aðrar nætur og því meiri líkur á því að hitta fyrir hverskyns handanheims verur. Víða eru miðsumarshátíðir með stærri hátíðum í viðkomandi löndum, til dæmis Svíþjóð.
Siðir á Jónsmessunótt
breytaMargar af þeim venjum og siðum sem tengjast Jónsmessunótt eru einnig tengdar jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt en allar eru þessar nætur nærri sólstöðum. Flestar þessar venjur eru sameiginlegar öllum þeim sem halda upp á Jónsmessunótt þótt ákveðnir siðir séu sérstakir í hverju landi. Ritaðar heimildir um flesta þessa siði eru ekki ýkja gamlar en forneskja þeirra, ásamt því að haldnar voru miðsumarshátíðir um alla Evrópu sem Jónsmessan leysti af hólmi með kristni, benda til þess að þær séu mun eldri en kristnin.
Íslensk þjóðtrú á Jónsmessunótt
breytaEkki er öll sú þjóðtrú sem tengist Jónsmessunótt á Íslandi séríslensk. Útisetur á krossgötum, að selir kasti hami sínum sem og að dýr tali mannamál er þekkt víða annarsstaðar. Auk þess er þessi trú líka tengd öðrum nóttum en bara Jónsmessunótt.
Döggin
breytaAlmenn var sú trú að döggin á Jónsmessunótt væri svo heilnæm að hún gæti læknað kláða ásamt átján öðrum húðmeinum, ef fólk velti sér upp úr henni allsbert. Margir létu sér þó nægja að baða andlit sitt eða ganga berfættir í dögginni en lækningin átti að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á líkamanum.
Náttúrusteinar
breytaSú trú var að á þessari nótt væri meiri möguleiki að finna náttúrusteina með töframátt en aðrar nætur. Það voru sem dæmi svokallaðir lausnarsteinar til hjálpar jóðsjúkum konum og kúm, eins óskasteina einnig nefnda varnarsteinar sem verja áttu menn gegn illum öflum. Lífssteinar áttu að græða sár og hulinhjálmssteinn sem veitti eiganda sínum hulinshjálm.
Á Íslandi voru sumir staðir taldir líklegri en aðrir til að finna slíka steina. Sem dæmi má nefna Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi, en þar má finna bæði jaspis og glerhall. Klakk milli Kolgrafarfjarðar og Grundarfjarðar, Kofra við Álftafjörð í ísafjarðarsýslu nyrðri, Tindastól í Skagafirði upp undan Glerhallavík en þar má finna glerhall (öðru nafni draugasteinn eða holtaþór) og Baulu í Borgarfirði en sagan segir að upp á Baulutindi sé tjörn og í henni óskasteinn. Á sá sem að nær í steininn að fá óskir sínar uppfylltar, en stein þennan flýtur ekki upp nema eina nótt á ári, Jónsmessunótt.
Grös
breytaMargar jurtir sem taldar voru hafa lækningamátt átti að tína á Jónsmessunótt. Var til dæmis Lyfjagras (pinguicula vulgaris) einnig nefnt Jónsmessugras til að undirstrika tengsl þess við þessa nótt. Grös sem tína átti þessa nótt var til dæmis Horblaðka sem þótti góð við kvefi og til að lækna skyrbjúg, einnig var hún notuð til að beiskja öl þar sem hún er beisk án þess að vera barkandi. Maríustakkur var tíndur við graftarkýlum, eins korndúnn af Víði fyrir sárum milli táa og Brennisóley við húðkvillum. Auk lækningamáttar jurta mátti nota sumar þeirra til annars. Til dæmis segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar að nota mætti Mjaðjurt til að vita hver hefði stolið frá manni:
- „Tak mjaðurt sjálfa Jónsmessunótt um miðnætti, lát í laug (þ.e. munnlaug) við hreint vatn, legg urtina á vatnið. Fljóti hún, þá er það kvenmaður; sökkvi hún, þá er það drengur. Skugginn sýnir þér það hver maðurinn er. Þar skal hafa þennan formála: „Þjófur, ég stefni þér heim aftur með þann stuld sem þú stalst frá mér með svo sterkri stefnu sem Guð sjálfur stefndi djöflinum úr paradís í helvíti“
Lásagras og fjögurra laufa smári áttu að geta opnað hvaða læsingu sem þau voru borin á. Draumagras, eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí og segja flestar jurtalækningarbækur að þá skildi tína það en annarsstaðar er sagt að tína ætti það á Jónsmessunótt. Aðferðin við meðhöndlun þess var þó sú sama. Það átti að vökva í helguðu messuvíni, leggja það því næst á leiði nýdauðs manns og láta það liggja þar í þrjár nætur. Þá átti að taka það og setja inn í Biblíuna hjá 63. Davíðssálmi þrjár nætur til viðbótar. Að því búna geyma það í hveiti og hvítum dúk. Ef grasið væri þá lagt undir hægri vanga þegar maður svæfi átti viðkomandi að dreyma það sem þeim hinum sama langaði að vita. Einnig átti að vera hægt að mylja draumagrasið út í messuvínið og taka það inn á fastandi maga á hverjum morgni átti blandan að vera vörn gegn holdsveiki. En til að verjast innvortis kveisum skildi taka draumagrasið snemma morguns, bíta það úr hnefa og snúa sér á móti austri.
Brönugras (Dactylorhiza maculata) átti að týna nærri fjörum og gott þótti að drekka seyði af því. Aðal krafturinn á þó að vera í rótinni og því þarf að gæta vel að því að ná henni heilli upp úr jörðinni. Hún er tvískipta og átti þykkri endi hennar að örva kvensemi og líkamlega löst en þunni endinn aftur á móti efla hreinlífi. Þannig var talið að hún gæti aukið losta og ástir milli karla og kvenna en eins stillti ósamlyndi hjóna ef þau svæfu á henni. Enda var Brönugras einnig kallað hjónagras, hjónarót, elskugras, Friggjargras, graðrót og vinagras. Til að ná ástum einhvers skyldi lauma öðrum enda rótarinnar undir kodda viðkomandi. Sá hinn sami var síðan látinn sofa með rótina undir höfðinu en sjálfir eiga menn að sofa með hinn helminginn. Um brönugras ritaði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal árið 1781:
- “Þessi urt hefir mjög kraft til að styrkja bæði karla og konur til barnlagnaðar, helst rót hennar sem eykur fjör manna, varðveitir hafnir kvenna, og styrkir til fæðingar í hæfan tíma. Urtin er ilmandi, helst um nætur.“
Heimildir
breyta- Árni Björnsson (2000). Saga daganna.
- Jón Árnason (2003). Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
Tenglar
breyta- „Af hverju er nafnið Jónsmessa dregið?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 23. júní 2012).
- „Hvers vegna á að velta sér upp úr dögginni á Jónsmessunótt?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 23. júní 2012).
- „Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 23. júní 2012).
- „Hverrar tegundar eru fallegu hvítu steinarnir sem finnast í Glerhallavík í Skagafirði?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 24. júní 2012).
- „Hvað er lausnarsteinn og úr hvaða efni er hann?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 26. júní 2012).