Jón Steingrímsson
Jón Steingrímsson (fæddur á Þverá í Blönduhlíð 10. september 1728 – dáinn á Prestsbakka á Síðu 11. ágúst 1791), kallaður eldklerkur, var prestur, læknir og náttúrufræðingur. Þjónaði á Prestsbakka (við Kirkjubæjarklaustur) á tímum Skaftárelda og síðar móðuharðinda.
Foreldrar Jóns voru Steingrímur Jónsson og Sigríður Hjálmarsdóttir. Faðir Jóns dó þegar hann var á tíunda ári og þar sem móðir hans var efnalítil voru litlar líkur á að drengurinn kæmist til mennta en þegar Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson Thorcillius fóru um landið, meðal annars til að kanna menntun, vakti Jón athygli þeirra vegna kunnáttu sinnar og eftir inntökupróf vorið 1744 var hann tekinn inn í Hólaskóla og tóku þeir Harboe og Jón Þorkelsson að sér að greiða skólagjöld fyrir hann fyrsta veturinn en síðan fékk hann skólaölmusu.
Jón lauk stúdentsprófi 1750 og varð síðan djákni og ráðsmaður á Reynistað. Þar giftist hann 1753 ekkju Jóns Vigfússonar klausturhaldara á Reynistað, Þórunni Hannesdóttur Scheving (1718 - 1784), dótturdóttur Steins Jónssonar biskups. Þau fluttu að Frostastöðum í Blönduhlíð sama ár. Þau eignuðust saman fimm dætur, Sigríði, Jórunni, Guðnýju, Katrínu og Helgu, en Þórunn átti líka þrjú börn úr fyrra hjónabandi, Vigfús, Karitas og Jón. Þau ólust upp hjá Jóni og móður sinni og átti Jón eftir að reynast þeim erfiður síðar.
Þórunn átti jarðir suður í Mýrdal og ákváðu þau að flytja þangað. Haustið 1755 flutti Jón að Hellum í Reynishverfi og bjó þar í helli ásamt bróður sínum um veturinn en eiginkona hans kom ekki fyrr en vorið eftir þar sem hún átti von á barni. Á leiðinni suður urðu þeir bræður vitni að upphafi Kötlugossins 1755, sem var mesta Kötlugos á sögulegum tíma. Þá hefur hann líklega fengið áhuga á eldgosum og hann skráði meðal annars sögu Kötlugosa frá landnámi til 1311.
Jón bjó á Hellnum í fimm ár og búnaðist vel, var formaður á árabát og þótti fiskinn. Hann var svo vígður til prests, fyrst í Sólheimaþingum og bjó á Felli og árið 1778 fékk hann Kirkjubæjarklaustursprestakall og bjó á Prestbakka á Síðu. Um leið varð hann prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu. Á Prestbakka var hann þegar Skaftáreldar hófust árið 1783 og flúði aldrei þaðan, heldur var allan tímann í miðju hörmunganna og eru rit hans helstu heimildir um eldana, en hann skrifaði strax skýrslur um ástandið og árið 1788 samdi hann yfirlitsritið Fullkomið skrif um Síðueld, sem yfirleitt er kallað Eldritið.
Jón varð frægur fyrir eldmessu sína (20. júlí 1783), sem talin var hafa valdið því að hraunstraumur stöðvaðist áður en hann eyddi byggð og mjög fór að draga úr gosi.
Þórunn kona Jóns dó árið 1784 og 1787 kvæntist hann seinni konu sinni, Margréti Sigurðardóttur, en þau voru barnlaus. Jón Steingrímsson var starfandi prestur allt til æviloka árið 1791. Hann skrifaði ævisögu sína sem þó var ekki ætluð til útgáfu, heldur var hún hugsuð fyrir dætur hans og afkomendur þeirra og er að hluta varnarrit og merk heimild um 18. öld. Litlu munaði að hún glataðist því að systursonur hans fékk ritið lánað með því skilyrði að hann brenndi það þegar hann hefði lokið lestrinum en það stóð hann ekki við og því varðveittist ævisagan. Hún var fyrst gefin út 1913 og hefur komið í nokkrum útgáfum síðan.
Jón var vel menntaður og hafði áhuga á mörgu, meðal annars á læknisfræði og stundaði lækningar, skar meðal annars æxli af manni, og skildi eftir sig handrit að lækningabókum. Hann var líka áhugasamur um framfarir í landbúnaði og var verðlaunaður af konungi fyrir garðhleðslu.
Kapellan á Kirkjubæjarklaustri, sem var vígð árið 1974, er helguð minningu Jóns.
Peningapakkamálið
breytaStuttu eftir að Skaftáreldum lauk í febrúar 1784 ferðaðist Jón fótgangandi vestur frá heimili sínu að Prestbakka. Fyrst kom hann við í Skálholti og hitti Finn Jónsson biskup, en fór þaðan á Bessastaði og hitti Lauritz Thodal stiftamtmann. Tilgangur ferðar Jóns var að fá styrk til þess að geta haldist við búskap yfir sumarið og komandi vetur. Á Bessastöðum fékk Jón peninga fyrir sig sjálfan, 60 ríkisdali, en auk þeirra 600 ríkisdali í reiðufé í innsigluðum pakka sem honum var falið að flytja til Lýðs Guðmundssonar sýslumanns í Vestur-Skaftafellssýslu. En Lýður átti að nota þá til þess að kaupa búfénað úr nærliggjandi sveitum fyrir þá bændur sem hefðu orðið fyrir skaða af eldgosinu.
Á leiðinni opnaði Jón pakkann í félagi við annan mann, Sigurð Ólafsson klausturhaldara Kirkjubæjarklausturs, og deildi út fé til bænda sem hann mætti á leiðinni, auk þess sem hann skammtaði sér úr pakkanum sjálfur. Fyrir þetta var Jón kærður af stiftamtmanni til rentukammers í Kaupmannahöfn og þurfti á endanum að borga sekt og biðjast opinberlega afsökunar. Jón taldi aðra embættismenn hafa komið illa fram við sig í þessu máli og mun það vera að stórum hluta ástæða þess að hann hóf ritun sjálfsævisögu sinnar.[1]
Glefsur úr Eldriti
breytaÁður en þessi landplága og jarðeldur yfir féll voru mikil landgæði og árgæzka, þó yfir tæki það síðasta árið, því í undanfarin nokkur ár hafði ei verið þvílík blómgan og ávöxtur á öllum með spökustu veðráttu til lands og sjávar. |
En hvílíkt stjórnarleysi, andvara- og iðrunarleysi hér í Vestri-Skaftafellssýslu var um þann tíma, sérdeilis í þessu Kirkjubæjar- eður Kleifarþinglagi, hjá allmörgum, er sorglegra til frásagnar, en ég geti þar orðum eytt að. Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letningjar, að ei vildu nema þá allra beztu og krydduðu fæðu, drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska. |
Tenglar
breyta- „Örn Bjarnason: Séra Jón Steingrímsson, líf hans og lækningar. Læknablaðið, 12. tbl. 2006“.
- Örn Bjarnason: Séra Jón Steingrímsson, líf hans og lækningar II. Læknablaðið, 2007.
- Æfisaga Jóns prófasts Steingrímssonar á Bækur.is
- ↑ Jón Kristinn Einarsson. Jón Steingrímsson og útdeiling styrkfjár sumarið 1784.