Viðey
64°09′50″N 21°51′00″V / 64.16389°N 21.85000°V
Viðey er stór eyja í Kollafirði rétt utan við Reykjavík. Hún er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli. Vesturhluti hennar er stór höfði sem tengist megineynni um mjótt eiði og kallast Vesturey. Í eynni eru Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa. Í október 2007 var reist listaverkið Friðarsúlan í eynni.
Saga
breytaTalið er að búið hafi verið í eyjunni frá því fljótlega eftir landnám. 1225 var þar stofnað klaustur af Ágústínusarreglu sem stóð til 1550. Síðar var rekið í eynni bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikraspítali. Um miðja 18. öld reisti Skúli Magnússon það hús sem nú stendur í eynni og bjó þar frá 1754. 1817 keypti Magnús Stephensen eyjuna og rak þar búskap og stofnaði þar prentsmiðju.
Hjallasker er sker í Viðeyjarsundi rétt vestan við Heimaey. Á háfjöru tengir grandi skerið við eyna. Árið 1906 strandaði kútterinn Ingvar á skerinu og allir um borð fórust.
1907-1914 var Milljónafélagið umsvifamikið í útgerð og skipaflutninga í eynni sem ætlunin var að gera að umskipunarhöfn. Á þeim árum myndaðist í eynni um 100 manna þorp á Sundbakka á austurenda Viðeyjar. Kárafélagið keypti síðar eigur Milljónafélagsins um 1920 þegar það síðarnefnda varð gjaldþrota og rak þar síðan togaraútgerð og fiskvinnslu. Á þessum árum var Viðeyjarstöð einnig umskipunarhöfn Sameinaða danska gufuskipafélagsins, þar var kolageymsla fyrir dönsku varðskipin og birgðastöð og umskipunarhöfn DDPA-félagsins. Mikil vatnssala var einnig í Viðey og salt- og kolasala. Seinna fór að halla undan fæti. 1931 hætti Kárafélagið starfsemi og þorpið fór síðan alveg í eyði 1943.
Vatnstankurinn á Sundbakka er núna félagsheimili Viðeyinga (aðsetur Viðeyingafélagsins).
Fornleifarannsóknir í Viðey
breytaTvisvar hafa verið gerðar meiriháttar fornleifarannsóknir í Viðey. Á árunum 1986-1994 var grafið hjá Viðeyjarstofu og kirkjunni og komu þá í ljós leifar bæjarhúsa frá víkingaöld, klausturtímanum og seinni öldum. Árin 2011-2012 var gerð rannsókn í þorpinu á Sundbakka.
Uppgröftur við Viðeyjarstofu
breytaVegna viðgerða á Viðeyjarstofu voru grafnir könnunarskurðir árið 1986 sem sýndu að miklar mannvistarleifar væri að finna í kringum stofuna og var í kjölfarið ráðist í meiriháttar uppgröft sem stóð í sjö sumur, frá 1987 til 1994.
Uppgröfturinn var býsna stór á sínum tíma og þó að aðeins hluti bæjarstæðisins væri grafinn upp komu í ljós allt að 20.000 gripir.[1] Mikill fjöldi gripa stafar m.a. af því að varðveisluskilyrði lífrænna leifa eru með besta móti í Viðey. Jafnframt var þar samfelld búseta frá 10. öld til 20. aldar og á tímabilum mikil umsvif í búskap. Aðaluppgraftarsvæðið var norðan við Viðeyjarstofu og virðist hún hafa verið byggð framan við bæjarhús þau sem stóðu í Viðey á 18. öld.
Uppgreftinum var hætt 1995 vegna fjárskorts og útgáfa af niðurstöðum rannsóknarinnar hefur ekki litið dagsins ljós, en ítarlegar áfangaskýrslur eru til um flest ár uppgraftarins.
Fornleifar frá víkingaöld og klausturtíma
breytaFrjókornagreining benti til að búseta hafi hafist í Viðey um 900 en kjarr hélst þar fram á 12. öld og hefur þess verið getið til að búseta hafi verið stopul í eynni framan af, jafnvel aðeins árstíðabundin.[2]
Eldaskáli var byggður á 10. eða 11. öld og er elsta uppgrafna húsið. Frá 11. eða 12. öld er einnig rúnakefli með áletrun sem ekki hefur tekist að ráða að fullu.[3] Á 13. öld var bætt við búri og sýruhúsi. Einnig var þá byggð stofa, og gerð stutt göng á milli hennar og gamla skálans. Leifar af ónstofu, íveruherbergi með stórum ofni byggðum inn í einn vegginn eru einnig tímasettar til 13. aldar og hafa öll þessi ummerki verið túlkuð þannig að miklar breytingar hafi orðið á húsakosti Viðeyjar einmitt um það leyti sem klaustrið var stofnað þar 1226.[4]
Hinsvegar er ekki talið að sjálf klausturhúsin, t.d ábótastofa eða svefnhús séu enn fundin í Viðey. Loftmyndir og jarðsjármælingar benda til að byggingaleifar sé að finna undir sverði sunnan við Viðeyjarstofu og hefur þess verið getið til að þar sé klausturhúsin að finna en ekki hefur verið grafið á þessum stað.[5]
Gripasafnið frá Viðey hefur flest einkenni stórbýlisbúskapar en nokkrir fundir hafa verið tengdir við klausturstarfsemina. Þar á meðal eru vaxtöflur sem eru einstakur fundur á Íslandi; vikur sem gæti hafa verið notaður til að slétta bókfell og stroka út, sortulyng sem gæti hafa verið notað til blekgerðar og fjaðrir sem gætu hafa verið notaðar til að skrifa með. Vikurinn, sortulyngið og fjaðrirnar gætu þó átt aðrar skýringar.
Vaxspjöldin voru fimm talsins, öll gerð úr viði. Meginhluti textans er á hollensku en aðeins á einu spjalfinu er íslenska. Vegna hollenskunnar og tímasetningar textans til síðmiðalda hefur verið stunfið upp á því að Gozewijn Comhaer, hollenskur munkur og biskup í Skálholti, eða einhver úr fylgdarliði hans gæti hafa komið með töflurnar til landsins.[6]
Rústabrot sem fannst undir 18. aldar kirkju er talið vera leifar af miðaldakirkju en kirkjur voru sjaldan fluttar úr stað við endurbyggingu. Stefna miðaldarkirkjunar var frá austri til vesturs en núverandi kirkja snýr norðaustur/suðvestur.[7]
Grafir frá miðöldum lágu þétt saman og hafa að öllum líkindum verið teknar á svipuðum tíma.[8] Kistuleifar voru í fæstum gröfunum en ofan á einu kistuloki fannst lauf úr blýi sem minnti á Maríulilju sem fundist hefur í Skálholti.[9] Hringur með innsigli fannst í einni gröfinni og unnt var að aldursgreina hann til um 1500. [10]
Greiningar á dýrabeinum gáfu til kynna að búskapur í Viðey hafi fyrst og fremst byggst á nautgripum og sauðfjárrækt. Einnig fannst talsvert af fuglabeinum en eftir því sem leið á miðaldir og eftir siðaskipti jókst hlutfall sjávarfangs mjög í beinasafninu.[11]
Frjókornagreining leiddi í ljós að bygg var ræktað í Viðey á tímum klaustursins, og bökunarhellur og kvarnarsteinar eru til marks um kornneyslu og brauðgerð.
Fæðuval Viðeyinga var fjölbreytt. Efnahagur klaustursins hefur leyft munað á borð við innfluttar hnetur og krydd en jafnframt áttu Viðeyingar skammt að sækja fugl og fisk. Aðaluppistaðan í fæðunni hefur þó verið ýmis konar mjólkurmatur eins og algengt var á Íslandi.[12]
Fornleifar frá því eftir siðbreytingu
breytaKlausturhald lagðist af við siðaskiptin um miðja 16. öld og var Viðey þá gerð að „hospital“ og var sú stofnun rekin sem hálfgert útibú frá Bessastöðum.[13] Yngsta byggingarskeiðið sem rannsakað var tilheyrir þessu tímabili en þá stóð í Viðey stórt og reisulegt hús, samtals um 30 m langt. [14]
Grafir sem hafa sömu stefnu og núverandi kirkja hafa verið aldursgreindar til 18. og 19. aldar. Beinagrindurnar voru nú oftast nær kistulagðar. Beinin voru vel varðveitt og var hægt að greina ýmsa sjúkdóma á þeim svo sem berkla og sull.[15]
Rannsókn á Sundbakka
breytaRannsókn á fornleifum á Sundbakka hófst sumarið 2011. Markmið rannsóknarinnar var að athuga tengsl efnismenningar við auðvaldsstefnuna á Íslandi. Beitt var fornleifafræðilegum athugunum auk viðtala við brottflutta heimamenn.
Flestir eftirlifandi þorpsbúar höfðu verið börn á tímum fiskiþorpsins. Munnlegu heimildirnar eru því bundnar af barnæskusögum og hvernig var að alast upp í litlu samfélagi sem hægt og rólega var að nálgast endalok sín. Markmið uppgraftarins var að greina leifar um daglegt líf í þorpi sem aðeins átti 37 ára sögu á fyrri hluta 20. aldar. Teknir voru skurðir í sorphauga nálægt húsarústunum.
Meirihluti gripana sem grafnir voru upp eru innfluttar vörur. Mikið fannst af kolum og eru þau að líkindum upprunin í Þýskalandi og jafnframt var mikið af þýskum leirkerum grafið upp. Einnig eru dæmi um ensk og sænsk leirker. Lengra að reknir gripir voru m.a. brennivínsflaska frá Nýju Jórvík og japanskt postulín. Aðeins einn innlendur gripur kom upp úr haugunum og var það gosflaska.
Samkvæmt ritheimildum var mest flutt inn af vörum frá Danmörku á þessum tíma en sorphaugarnir á Sundbakka benda til að þær vörur hafi að miklum hluta verið framleiddar í Þýskalandi.[16]
Náttúra Viðeyjar
breytaÝmsar nytjajurtir vaxa í Viðey. Þar er mikið um vallhumal og hægt að finna túnætisveppi. Víða um eyjuna vex kúmen. Skúli fógeti flutti kúmenjurtina til Viðeyjar. Skúli mun hafa sótt það austur að Hlíðarenda, en Gísli Magnússon, sýslumaður þar, einn af fyrstu íslensku náttúrufræðingunum jafnan nefndur Vísi Gísli, mun hafa flutt plöntuna til íslands um 100 árum áður en Skúli settist að í Viðey, þ.e. um 1660. Á haustin er oft farið í ferðir út í Viðey til að tína kúmen.
Útilistaverk í Viðey
breytaÍ Viðey eru nú tvö útilistaverk eftir heimsþekkta listamenn; Áfangar eftir Richard Serra og Friðarsúlan eftir Yoko Ono.
Áfangar eftir bandaríska myndhöggvarann og mínimalistann Richard Serra er röð af súlnapörum úr stuðlabergi sem liggja umhverfis Vestureyna. Verkið var sett upp fyrir Listahátíð í Reykjavík 1992.
Friðarsúlan er verk eftir japansk-bandarísku listakonuna Yoko Ono, sett upp til minningar um John Lennon árið 2007. Verkið er stór ljóskastari sem sendir ljóskeilu upp í loftið frá sólarlagi til miðnættis tvo mánuði að hausti, frá gamlársdegi til þrettánda og við vorjafndægur.
Frá 2005 til 2007 stóð verkið Blind Pavilion eftir Ólaf Elíasson ofan við landstjórahúsið í Viðey. Það var lítill skáli með veggi úr hallandi mislitum glerflötum. Verkið var upphaflega framlag Danmerkur til Feneyjatvíæringsins árið 2003.
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- „Viðeyjarklaustur - upphaf“, á Ferlir.is
- Um Viðey (Borgarsögusafn) Geymt 25 október 2018 í Wayback Machine
- „Víkin og Viðey - búskapur og klausturhald“, Saga Reykjavíkur, á vef Árbæjarsafns
- Viðey; sögustaður og unaðsreitur við bæjardyr Reykjavíkur; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1983
- Viðreisn og höfðingjasetur; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1983
- Stórbúskapur og Miljónafélag; 3. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1983
- Viðeyjarklaustrið; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1996
- Morgunblaðið B - Viðey (14.08.1988) 3. greinar um Viðey[óvirkur tengill]
- Jónas Magnússon Stardal, Búskapur Eggerts Briem í Viðey; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1963
- Jónas Magnússon Stardal, Mjaltir og mjólkurflutningar; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins, 9. tölublað (10.03.1963), bls. 11
- Jónas Magnússon Stardal, Vorverkin og önnur útivinna; 3. grein í Lesbók Morgunblaðsins, 10. tölublað (17.03.1963), Bls. 11
- Viðey; eyjan við bæjardyr Reykjavíkur; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1988
- Bruni í Viðey; grein í Morgunblaðinu 1931
Tilvísanir
breyta- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 23.
- ↑ Steinunn Kristjánsdóttir (1995): 38.
- ↑ Knirk 1994, 2011; Þórgunnur Snædal 2003, 34-35
- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 90.
- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 19.
- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 117;
- ↑ Steinunn Kristjánsdóttir (1995): 46.
- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 115.
- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 146.
- ↑ Steinunn Kristjándóttir (1994): 34.
- ↑ Steinunn Kristjánsdóttir (1994): 37.
- ↑ Margrét Hallgrímsdóttir (1993): 60.
- ↑ Steinunn Kristjánsdóttir (1995): 30
- ↑ Steinunn Kristjánsdóttir (1995): 46.
- ↑ Hildur Gestsdóttir 2004, 34-36
- ↑ Lucas & Hreiðarsdóttur(2012).
Heimildir
breyta- Hildur Gestsdóttir 2004, The Palaeopathology of Iceland. Preliminary Report 2003: Haffjarðarey, Neðranes & Viðey, Fornleifastofnun Íslands FS225, Reykjavík.
- Knirk, James E. 1994, 'Runepinnen fra Viðey.' Nytt om runer. Meldningsblad um runeforskning nr 9, Oslo.
- Knirk, James E. 2011, ‘The Viðey Rune-stick: Iceland’s earliest runic inscription.’ Viking Settlements and Viking Society. Papers from the Proceedings of the Sixteenth Viking Congress, S. Sigmundsson et al. eds., Reykjavík, 260-70.
- Lucas, G. og Hreiðarsdóttur, E. (2012). The Archaeology of Capitalism in Iceland: The View from Viðey. International Journal of Historical Archaeology, 16(3), 604–621. doi:10.1007/s10761-012 -0193-y.
- Margrét Hallgrímsdóttir (1987), Fornleifarannsókn í Viðey 1987, Skýrslur Árbæjarsafns, Reykjavík.
- Margrét Hallgrímsdóttir (1989), Viðey. Fornleifarannsóknir 1988-1989, Ritröð Árbæjarsafns 1, Reykjavík.
- Margrét Hallgrímsdóttir (1991), 'Rannsóknir í Viðey. Vaxspjöld frá 15. öld finnast við uppgröft rústa Viðeyjarklausturs.' Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1990, 91-132.
- Margrét Hallgrímsdóttir (1991), 'The Excavations on Viðey, Reykjavík, 1987-1988. A Preliminary report.' Acta Archaeologica 61, 120-25.
- Margrét Hallgrímsdóttir. (1993). Húsakostur Viðeyjarklausturs. Um byggð í Viðey fram á 18. öld (Cand.mag. ritgerð í sagnfræði). Háskóli Íslands, Reykjavík.
- Margrét Hallgrímsdóttir (1994), Viðey. Fornleifarannsókn 1993, Ritröð Árbæjarsafns 38, Reykjavík.
- Steinunn Kristjánsdóttir (1994). Heiðnar og helgar minjar í Viðey. Áfangaskýrsla Viðeyjarrannsókna 1994. Reykjavík: Árbæjarsafn.
- Steinunn Kristjánsdóttir. (1995). Klaustureyjan á sundum. Yfirlit Viðeyjarrannsóknar. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1994, 29–53.
- Steinunn Kristjánsdóttir (1996). Trúarheimar mætast. Áfangaskýrsla Viðeyjarrannsókna 1995. Reykjavík: Árbæjarsafn.
- Þórgunnur Snædal (2003). 'Rúnaristur á Íslandi.' Árbók hins íslenzka fornleifafélgs 2000-2001, bls. 5-68.