Eldaskáli
Eldaskáli, einnig þekkt sem landnámsskáli, langhús eða bara skáli er heiti yfir þá gerð híbýla sem tíðkaðist hér á landi frá landnámi, þangað til gangabærinn var kominn til sögunnar á 14. öld.
Fjöldi eldaskála frá víkingaöld hefur verið rannsakaður í gegnum tíðina, og bætast sífellt fleiri við. Í grundvallaratriðum eru elstu íslensku eldaskálarnir sömu gerðar og skálar á Norðurlöndum og í byggðum norrænna manna á víkingaöld en þó er sá munur að nánast óþekkt er að skepnur hafi verið geymdar í íslensku skálunum en annarsstaðar var algengt að fjós væru upp undir helmingur af grunnfleti húsanna. Skálar með fjósi undir sama þaki eru stundum kallaðir langhús til aðgreiningar frá hinum sem eingöngu hýstu fólk. Annað einkenni á íslensku eldaskálunum sem greinir þá frá skálum á Norðurlöndunum er að mjög algengt var að þeir hefði minni viðbyggingar, til endanna eða aftanvið.
Gerð
breytaEldaskálar einkennast einna helst af því að þeir voru aflangir, með bogadregna veggi þannig að þeir voru breiðari um sig miðja en fyrir göflunum og að í þeim miðjum var langeldur. Þá höfðu þeir dyr á annari langhlið, stundum bakdyr á hinni, en stundum tvær dyr sitt hvoru megin á framhliðinni.
Íslenskir eldaskálar höfðu veggi hlaðna úr torfi og stundum með grjóthleðslu í grunninn. Höfðu þeir torfþak og var það oftast þríása og haldið uppi með trégrind sem stóð á tveimur röðum stoða inni í húsinu sem skiptu því langsum í þrennt. Voru stoðirnar ýmist reknar niður í gólfið eða þær stóðu á steinum til að koma í veg fyrir rotnun. Gólf voru úr mold, en meðfram öðrum eða báðum langveggjum var upphækkaður trépallur eða set og þar voru rúmstæði. Þá var algengt að hellur væri á gólfi innan og utan við útidyrnar.
Á miðju gólfi var langeldur þar sem matur var eldaður en hann hefur einnig verið aðal hita- og ljósgjafinn í þessum húsum. Langeldurinn gat verið af ýmsum stærðum óháð stærð skálans, t.d. var skálinn sem grafinn var upp við Aðalstræti í Reykjavík 2001 meðalstór, en í honum var einn stærsti langeldur sem fundist hefur á Íslandi. Aftur á móti er skálinn á Hofstöðum í Mývatnssveit sá stærsti á Íslandi, en hann var með tiltölulega lítinn langeld. Ekki er víst að eldaskálar hafi haft glugga, en reyk hefur verið hleypt út um reykop í þakmæni.
Í nágrenni við víkingaaldaskála finnast oft útihús svo sem fjós eða hlöður. Þá finnast oft svonefnd jarðhús nálægt skálum. Jarðhús voru lítil hús með eldstæðum sem voru að hluta til grafin niður í jörðina. Jarðhúsin finnast oft á elstu bæjarstæðunum og hefur það vakið hugmyndir um að þau hafi verið bráðabirgðahús reist á meðan verið var að reisa aðalskálann. Einnig hefur verið stungið upp á að þau hafi verið baðhús eða dyngjur, vinnustofur kvenna.
Þróun
breytaElstu skálarnir eru einfaldar byggingar og fyrir utan mögulega jarðhúsin virðist öll starfsemi heimilisins hafa farið fram undir sama þaki. Fólk svaf, borðaði, eldaði, geymdi mat og hélt jafnvel húsdýr í sama eldaskálanum. Skilveggir úr tré hafa þó oft skilið að mismunandi hluta skálans.
Fljótlega var þó byrjað að nýta útveggina til að reisa önnur hús upp við skálann og haft innangengt á milli. Þessar viðbyggingar voru yfirleitt mun minni hús en skálinn og þjónuðu einkum sem eldhús og búr. Vel þekkt dæmi um seinni stig þessarar þróunar er Stöng í Þjórsárdal. Þar var allstór stofa, einhverskonar íveruhús, resit við annan enda skálans en búr og stór kamar aftan við hann. Á Stöng er hægt að tala um eldaskála því þar var langeldur á miðju gólfi en með Gröf í Öræfum sem lagðist í eyði 1362 hefur orðið sú breyting að ekkert eldstæði er lengur í skálanum og bærinn auk þess gerbreyttur að skipulagi þar sem göng lágu eftir honum endilöngum og skiptu honum í tvennt. Við enda þeirra var lítil baðstofa en það hús átti smátt og smátt eftir að verða aðalíveruhús íslenska torfbæjarins.
Orðið skáli hélt sér eftir þróun gangabæja sem heiti yfir aðal svefn- og íverustað bæjarins.
Tengt efni
breytaHeimildir
breyta- http://www.thjodveldisbaer.is/byggingar/throun-bygginga/ Geymt 30 september 2011 í Wayback Machine sótt 27. ferbrúar 2012
- Adolf Friðriksson. Leskaflar í fornleifafræði. HÍ, 2007.
- http://www.skagafjordur.is/upload/files/I%20%C3%9Er%C3%B3un%20torfb%C3%A6ja.pdf[óvirkur tengill] sótt 27. ferbrúar 2012
- http://mbl.is/greinasafn/grein/607626/ sótt 27. ferbrúar 2012
- http://archaeology.about.com/od/hterms/qt/hofstadir.htm Geymt 25 mars 2012 í Wayback Machine sótt 27. ferbrúar 2012