Hinrik 6. Englandskonungur

Hinrik 6. (6. desember 142121./22. maí 1471) var konungur Englands frá 1422 til 1461 og aftur frá 1470 til 1471 og taldi sig einnig konung Frakklands frá 1422 til 1453. Hann er sagður hafa verið friðsamur og trúrækinn en lítill skörungur. Landinu var stýrt af ríkisstjórum til 1437 og seinna tók Margrét drottning, kona Hinriks, við valdataumunum þegar henni þótti konungurinn of linur. Hann var síðasti konungurinn af Lancaster-ætt.

Skjaldarmerki Lancaster-ætt Konungur Englands
Lancaster-ætt
Hinrik 6. Englandskonungur
Hinrik 6.
Ríkisár 1. september 14224. mars 1461
3. október 147011. apríl 1471
SkírnarnafnHenry Lancaster
Fæddur6. desember 1421
 Windsor-kastala, Berkshire, Englandi
Dáinn21. maí 1471 (49 ára)
 Lundúnaturni, London, Englandi
GröfWindsor-kastali
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Hinrik 5.
Móðir Katrín af Valois
DrottningMargrét af Anjou (g. 1445)
BörnJátvarður af Westminster

Bernska

breyta

Hinrik var einkasonur Hinriks 5. og varð konungur níu mánaða gamall, 31. ágúst 1422, þegar faðir hans dó í Frakklandi. Hann er sá yngsti sem sest hefur á konungsstól í Englandi. Tveimur mánuðum síðar, 21. október, dó móðurafi hans, Karl 6. Frakkakonungur, og erfði Hinrik frönsku krúnuna í samræmi við Troyes-sáttmálann, sem gerður hafði verið árið 1420, en Karl 7., sonur Karls 6., lýsti sig einnig konung og tókst nokkrum árum síðar með aðstoð Jóhönnu af Örk að ná yfirráðum yfir mestöllu Frakklandi og láta krýna sig konung.

Helstu ráðamenn Englands voru tveir föðurbræður konungs, hertoginn af Bedford og hertoginn af Gloucester. Móðir Hinriks, Katrín af Valois, var aðeins tvítug þegar hún varð ekkja og var henni ekki leyft að taka fullan þátt í uppeldi sonar síns, enda óttuðust frændur hans að hún giftist aftur og nýr maður hennar gæti þá farið að seilast til valda. Því voru sett lög um að ef ekkjudrottningar vildu giftast aftur þyrftu þær samþykki konungsins, en það gat konungur því aðeins veitt að hann væri lögráða. Það kom þó ekki í veg fyrir að drottningin tæki sér elskhuga, Owen Tudor, og eignaðist með honum börn, þar á meðal synina Edmund og Jasper, sem seinna fengu báðir jarlsnafnbót. Edmund var faðir Hinriks, sem síðar varð Hinrik 7. Englandskonungur.

Hjónaband

breyta

Hinrik var krýndur konungur Englands í Westminster Abbey 6. nóvember 1429 og konungur Frakklands í Notre Dame í París 16. desember 1431. Hann fékk þó engin völd fyrr en hann varð 16 ára, í desember 1437, skömmu eftir lát móður sinnar. Konungurinn var þó enginn skörungur og aðalsmenn réðu mestu og deildu hart um hvaða leiðir skyldi fara í Frakklandi en Englendingar höfðu farið halloka í Hundrað ára stríðinu eftir sigra Karls 7. og Jóhönnu af Örk. Konungur var friðsamur og hallaði sér því að Beaufort kardínála, hálfbróður Hinriks 4. afa hans, og William de la Pole, jarli af Suffolk, sem vildu frið, en hertoginn af Gloucester, föðurbróðir konungs, og Ríkharður hertogi af York vildu halda stríðinu áfram.

Beaufort kardínála og jarlinum af Suffolk tókst að koma á samningum um hjúskap Hinriks og Margrétar af Anjou, sem var bróðurdóttir Maríu Frakklandsdrottningar, konu Karls 7., og átti hjónabandið að efla frið milli landanna. Karl konungur féllst á hjónabandið með því skilyrði að hann þyrfti ekki að leggja fram heimanmund með Margréti; þvert á móti skyldi hann fá Maine og Anjou, sem verið höfðu lén Englandskonungs. Á þetta var fallist en samningunum haldið leyndum fyrir enska þinginu og almenningi. Brúðkaup Hinriks og Margrétar var haldið 23. apríl 1445. Ári síðar var leyndinni svipt af samkomulaginu en reiði almennings beindist að jarlinum af Suffolk. Konungur og drottning studdu hann og annar helsti andstæðingur þeirra, hertoginn af Gloucester, var handtekinn og dó í varðhaldi. Ríkharður hertogi af Jórvík var rekinn frá hirðinni og sendur til að stýra Írlandi.

Óvinsældir konungs

breyta

Konungsvaldið veiktist og konungurinn varð mjög óvinsæll vegna spillingar og lögleysu sem viðgekkst í landinu, bágs efnahagsástands og stöðugra ósigra Englendinga í Frakklandi. Árið 1450 var Hinrik neyddur til að senda Suffolk í útlegð í Frakklandi en ráðist var á skip hans á leiðinni yfir Ermarsund og hann drepinn. Eftir það var helsti ráðgjafi konungs Edmund Beaufort, hertogi af Somerset, bróðursonur Beauforts kardínála.

Árið 1452 sneri Ríkharður hertogi af York aftur frá Írlandi í þeim tilgangi að krefjast aftur fyrri stöðu sinnar við hirðina og bæta stjórnarhætti. Hann var brátt kominn með her manna í lið með sér og mætti her konungs sunnan London. Ekki kom þó til bardaga en Ríkharður hertogi krafðist handtöku Edmunds Beaufort. Konungur féllst á það í fyrstu en drottningin greip í taumana, kom í veg fyrir handtöku hans og styrkti stöðu sína, ekki síst eftir að í ljós kom að hún átti von á erfingja.

Stríðsátök héldu áfram í Frakklandi en Englendingar fóru stöðugt halloka og sumarið 1453 misstu þeir Bordeaux og var þá Calais eini staðurinn á meginlandinu sem Englendingar héldu enn. Þegar fregnir af þessu bárust til Englands varð Hinrik konungi svo mikið um að hann fékk taugaáfall og var sinnulaus um allt og alla í meira en ár, sýndi meira að segja engin viðbrögð við fæðingu sonar síns og ríkiserfingja, Játvarðs af Westminster. Hugsanlegt er talið að Hinrik hafi erft geðveilu Karls 6. afa síns. Hertoginn af York var gerður að ríkisstjóra í veikindum konungs, drottningin svipt öllum völdum og Edmund Beaufort hafður í haldi í Lundúnaturni.

Rósastríðin

breyta

En á jóladag 1454 kom konungur aftur til sjálfs sín og tók aftur við ríkisstjórn. Þá var þó óánægjan orðin svo mikil að margir voldugir aðalsmenn studdu hertogann af York þegar hann gerði tilkall til ríkisstjórnarvalds og síðan til krúnunnar sjálfrar. Það leiddi til Rósastríðanna. Í þeim átökum var þó Margrét drottning mun meira áberandi en Hinrik konungur og það var í raun hún sem leiddi Lancaster-menn gegn Ríkharði hertoga og bandamönnum hans, en þeirra helstur var Richard Neville, jarl af Warwick, sem seinna var kallaður „the Kingmaker“.

Næstu ár var tekist harkalega á og margar mannskæðar orrustur háðar. Í orrustunni við Northampton 10. júlí 1460 náði Warwick Hinrik konungi á sitt vald og flutti hann til London. Þangað kom Ríkharður og gerði kröfu til krúnunnar en aðalsmennirnir vildu ekki setja Hinrik af; þess í stað var gert samkomulag þar þsem Ríkharður var útnefndur arftaki Hinriks og Játvarður sonur konungs var gerður arflaus og skyldi fara frá London ásamt móður sinni en Ríkharður hertogi varð í raun stjórnandi ríkisins. Margrét drottning og aðrir leiðtogar Lancaster-manna sættu sig ekki við þetta og Margrét hélt með son sinn til Norður-Englands, byggði þar upp stóran her og í orrustunni við Wakefield um jólin 1460 beið Ríkharður hertogi ósigur og féll.

York-menn voru þó ekki brotnir á bak aftur og Játvarður hertogi af York, elsti sonur Ríkharðs, náði brátt völdum og þan 4. mars 1461 fékk hann Hinrik frænda sinn settan af og varð sjálfur konungur sem Játvarður 4. Sagt er að Hinrik hafi á þeim tíma verið í geðveikikasti og hlegið og sungið þegar barist var í kringum hann. Honum tókst þó að flýja til Skotlands ásamt Margrét drottningu og syni þeirra. Þar og í Norður-Englandi var hann í felum næstu árin á meðan Margrét og nokkrir dyggir stuðningsmenn hennar héldu áfram baráttu gegn Játvarði í Norður-Englandi og Wales. En árið 1465 tókst Játvarði að ná honum á sitt vald og setja hann í varðhald í Lundúnaturni.

Aftur í hásætið

breyta

Nokkrum árum síðar lenti Játvarður konungur í deilum við tvo helstu stuðningsmenn sína, Warwick og bróður sinn, hertogann af Clarence. Þeir gerðu þá að undirlagi Loðvíks 11. Frakkakonungs bandalag við Margréti drottningu, sem komin var til Frakklands, og fólst meðal annars í því að Játvarður af Westminster gekk að eiga dóttur Warwicks. Warwixk hélt svo til Englands og tókst að velta Játvarði úrsessi, fá hann settan af og Hinrik 6. varð konungur að nýju 30. október 1470. Raunveruleg völd voru þó í höndum Warwicks og hertogans af Clarence.

Hinrik var ekki konungur nema í tæplega hálft ár að þessu sinni, Játvarður náði vopnum sínum að nýju og vann sigur í orrustunni við Tewkesbury 4. maí 1471. Þar féll Játvarður af Westminster, prins af Wales. Hinrik dó í Lundúnaturni aðfaranótt 22. maí og var sagt að hann hefði dáið úr harmi eftir að hafa frétt af falli einkasonar síns en sterkur grunur leikur á að Játvarður hafi látið fyrirkoma honum.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Hinrik 5.
Konungur Englands
Lávarður Írlands
(1422 – 1461)
Eftirmaður:
Játvarður 4.
Fyrirrennari:
Játvarður 4.
Konungur Englands
Lávarður Írlands
(1470 – 1471)
Eftirmaður:
Játvarður 4.