Rósastríðin voru borgarastyrjöld sem háð var í Englandi með hléum á árunum 1455-1485. Þar tókust á tvær greinar ensku konungsættarinnar, York og Lancaster, sem báðar voru afkomendur Játvarðar konungs 3. Báðar ættirnar höfðu rós í skjaldarmerki sínu, Lancaster-ættin rauða og York hvíta. Átökin voru þó ekki kölluð Rósastríð fyrr en síðar.

Orrustan við Tewkesbury, einn af mörgum bardögum Rósastríðanna.

Lancaster-ættin sótti meginstyrk sinn til Norður- og Vestur-Englands en York aðallega til suður- og austurhuta landsins. Fyrst og fremst voru það riddarar og þjónustumenn þeirra sem börðust. Mannfall meðal aðalsmanna var mikið og áttu átökin þátt í að staða aðalsins veiktist en konungsvaldið styrktist, þegar sættir tókust og Tudor-ættin settist að völdum.

Forsaga

breyta
 
Hinrik 6.

Ósættið hófst í raun árið 1399 þegar Ríkharði 2. konungi, sem var mjög óvinsæll, var bolað frá völdum af frænda sínum, Hinrik Bolingbroke hertoga af Lancaster, sem settist sjálfur í hásætið og kallaðist Hinrik 4. Í rauninni hefðu þó afkomendur Lionels af Antwerpen, næstelsta sonar Játvarðar 3., átt að taka við því þeir stóðu framar í erfðaröðinni en Hinrik, sem var sonur þriðja sonar Játvarðar. Þeir létu þó kyrrt liggja og einnig að mestu á meðan Hinrik 5., sonur Hinriks 4. sat að völdum en hann var vinsæll og styrkur í sessi.

Hinrik 5. varð skammlífur og sonur hans, Hinrik 6., erfði ríkið 1422, þá á fyrsta ári. Englandi var framan af stýrt af ríkisstjórum en þegar konungurinn óx úr grasi kom í ljós að hann var vanhæfur og veikur leiðtogi og ráðgjafar hans voru óvinsælir. Englendingar glötuðu flestum þeim löndum sem þeir höfðu lagt undir sig í Frakklandi og óvinsældir konungs og stjórnar fóru sívaxandi.

Árið 1453 var andlegt ástand konungs svo slæmt að skipuð var ráðgjafastjórn undir forystu Ríkharðs Plantagenet, hertoga af York, sem var ríkisstjóri (enska: Lord Protector). Hann var valdamikill og vinsæll og fór brátt að gera kröfu til krúnunnar. En 1455 hafði Hinrik 6. náð heilsu að nýju og drottningu hans, Margréti af Anjou, tókst að hrekja Ríkharð frá hirðinni. Hún var sterk og kraftmikil kona og leiddi í raun Lancaster-menn og byggði upp bandalag gegn Ríkharði.

Borgarastyrjöld hefst

breyta

Deilurnar fóru harðnandi og fyrsta orrusta Rósastríðanna var háð við St. Albans 22. maí 1455. Lancaster-menn töpuðu og margir leiðtoga þeirra féllu. Ýmsir vildu þó ná sáttum og þegar Hinrik konungur veiktist að nýju var Ríkharður aftur gerður að ríkisstjóra.

 
Rauð rós Lancaster-ættar.

Áfram var þó deilt um hvor skyldi erfa krúnuna eftir Hinrik, Játvarður sonur Hinriks og Margrétar, sem var þá á öðru ári, eða Játvarður jarl af March, elsti sonur Ríkharðs af York, sem var áratug eldri. Margréti tókst að að bola York til hliðar og fékk hann sendan til Írlands en óvinsældir konungshjóna jukust, einkum í London, og bandamanni Ríkharðs, Richard Neville, jarli af Warwick, sem seinna var kallaður „the Kingmaker“ tókst að auka mjög áhrif sín.

 
Hvít rós York-ættar.

Hertoginn af York sneri aftur frá Írlandi og vann sigur á Lancaster-mönnum 23. september 1459 á Blore Heath í Staffordshire, en Lancaster-menn unnu sigur í orrustu við Ludford Bridge nokkru síðar og Ríkharður hertogi, Játvarður sonur hans, Warwick og faðir Warwicks, jarlinn af Salisbury, flúðu yfir Ermarsund til Calais. Warwick réðust aftur inn í England 1460 og í orrustunni við Northampton 10. júlí náði hann Hinrik konungi á sitt vald og flutti hann til London. Þangað kom Ríkharður og gerði kröfu til krúnunnar en aðalsmennirnir vildu ekki setja Hinrik af; þess í stað var gert samkomulag þar sem Ríkharður var útnefndur arftaki Hinriks og Játvarður sonur konungs var gerður arflaus og skyldi fara frá London ásamt móður sinni en Ríkharður hertogi varð í raun stjórnandi ríkisins.

Þetta sættu Lancaster-menn sig ekki við og Margrét hélt með son sinn til Norður-Englands og byggði þar upp stóran her. Ríkharður hertogi hélt norður í land til að takast á við Margréti en í orrustunni við Wakefield um jólin 1460 beið hann ósigur og féll í orrustunni en næstelsti sonur hans, Játmundur jarl af Rutland, var höggvinn eftir orrustuna ásamt Salisbury bandamanni þeirra og höfuð þeirra þriggja voru sett á stjaka við borgarhlið York.

Játvarður konungur í fyrra sinn

breyta

Samkvæmt samkomulaginu sem gert hafði verið varð nú Játvarður, elsti sonur Ríkharðs og nú hertogi af York, erfingi ríkisins en Margrét hélt norður til Skotlands til að afla sér stuðnings og tókst að fá hann gegn afarkostum. Um svipað leyti kom Jasper Tudor, hálfbróðir Hinriks konungs 6., með her frá Wales og réðist gegn Játvarði af York en beið ósigur í orrustunni við Mortimer's Cross í Shropshire.

 
Játvarður 4.

Margrét drottning fór hraðförum að norðan með lið sitt, sem skildi eftir sig sviðna jörð þar sem það fór, og Warwick, sem var til varnar í London, tókst ekki að skrapa saman nægu herliði til að verjast liði drottningar. Herjunum laust saman við St. Albans og Lancaster-menn unnu stórsigur. Menn Warwicks lögðu á flótta og skildu Hinrik konung eftir undir tré.

Þegar her Lancaster-manna nálgaðist London greip ótti um sig í borginni og borgarhliðum var lokað en Lancaster-menn rændu og rupluðu í nálægum sveitum. Þeir hörfuðu þó frá borginni áður en Játvarður hertogi sneri aftur með her sinn og leifarnar af her Warwicks og var þeim vel fagnað í London, þar sem York-menn áttu yfirgnæfandi stuðning. Fólk kallaði „Játvarður konungur!“ og þingið tók undir og sagði erfðakröfu York-ættar réttmæta. Játvarður var krýndur óopinberlega í skyndi í Westminster Abbey við mikinn fögnuð en sór þess eið að hann skyldi ekki láta krýna sig opinberlega fyrr en konungshjónin hefðu verið líflátin eða hrakin í útlegð.

Þeir Játvarður og Warwick héldu svo norður á bóginn og söfnuðu að sér miklu herliði en við Towton nálægt York mættu þeir stórum her Lancaster-manna og er talið að um 80.000 manns hafi tekið þátt í orrustunni og um 20.000 fallið. Játvarður konungur vann afgerandi sigur; mikið mannfall varð í liði Lancaster-manna og flestir foringjar hersins féllu. Voru höfuð þeirra sett á stjaka við borgarhlið York í stað höfða föður konungs og bróður.

Hinrik og Margrét höfðu beðið átekta í York ásamt Játvarði syni sínum en tókst að komast undan. Þau flýðu til Skotlands og leituðu hælis við hirð Jakobs 3. Skotakonungs. Játvarður lét svo krýna sig konung Englands í júní 1461. Hann ríkti nokkurn veginn í friði í áratug en þó var lengi nokkur órói í Norður-Englandi, þar sem stuðningsmenn Lancaster-ættar voru flestir. Hann náði Hinrik konungi á sitt vald 1465 og hélt honum föngnum í Lundúnaturni.

Fjandmenn gera bandalag

breyta

Samkomulag Játvarðar konungs og Warwicks fór versnandi á árunum 1467-1470 og mátti að hluta rekja það til þess að konungur hafði gengið að eiga Elizabeth Woodville í laumi árið 1464 en Warwick hafði verið búinn að semja um annað kvonfang. Í kjölfarið komst Woodwille-ættin til metorða við hirðina á kostnað Neville-ættar, fjölskyldu Warwicks. Um leið dró úr vinsældum Játvarðar, þar sem hann hafði lagt á háa skatta og hirt lítt um lög og reglu. Warwick gerði því bandalag við George hertoga af Clarence, yngri bróður konungs, og þeir unnu sigur á herliði konungs í orrustu 1469 og hnepptu hann í varðhald og ætluðu að fá hann afsettan og Clarence gerðan að konungi í hans stað. En Ríkharður, yngsti bróðir konungs, kom honum til bjargar ásamt miklu liði.

Warwick og Clarence voru lýstir landráðamenn og urðu að flýja til Frakklands. Þar var Margrét af Anjou, fyrrum drottning, fyrir og lagði Loðvík 9. til að þessir fornu fjandmenn gerðu með sér bandalag, sem þau samþykktu að lokum og var samkomulagið innsiglað með hjónabandi Játvarðar af Westminster, sonar Margrétar, og Önnu Neville, dóttur Warwicks. Warwick gerði svo innrás í England haustið 1470 og kom Játvarði að óvörum, svo að hann og Ríkharður neyddust til að flýja land til Hollands og þaðan til Búrgundar. Hinrik 6. var aftur settur í hásætið.

 
Ríkharður 3.

Karl djarfi af Búrgund ákvað að liðsinna Játvarði, bæði með hermönnum og fé, svo að hann gat gert innrás í England og vann sigur á Warwick í orrustunni við Barnet. Lokasigurinn vannst svo í orrustunni við Tewkesbury vorið 1471 og þar féll Játvarður af Westminster en faðir hans, Hinrik konungur, var myrtur skömmu síðar.

Lokakaflinn

breyta

Rósastríðunum er oft talið ljúka þegar Játvarður 4. settist aftur í hásætið 1471 og ríkisár hans voru friðsæl en þegar hann dó skyndilega 1483 fór allt í bál og brand að nýju. Sonur hans og erfingi, Játvarður 5., var aðeins tólf ára og ljóst að móðurfrændur hans af Woodville-ætt myndu öllu ráða næstu árin. Við það voru margir ósáttir og Ríkharður föðurbróðir þeirra greip tækifærið og tókst að ná völdum. Hann rændi konunginum unga og lét setja hann og yngri bróður hans í fangelsi í Lundúnaturni og lýsti þá óskilgetna, þar sem hjónaband foreldranna hefði verið ógilt. Honum tókst að fá þingið á sitt band og var hann lýstur konungur sem Ríkharður 3. Ekkert spurðist síðan til prinsanna ungu og er talið víst að þeir hafi verið myrtir.

Foringi Lancaster-manna þegar hér var komið sögu var Hinrik Tudor en faðir hans var óskilgetinn hálfbróðir Hinriks 6. Erfðatilkall hans var þó í gegnum móður hans, lafði Margréti Beaufort, sem var afkomandi Játvarðar 3. Hann safnaði liði og vann sigur á her Ríkharðs í orrustunni við Bosworth Field 1485. Ríkharður féll en Hinrik varð konungur Englands sem Hinrik 7. og styrkti erfðatilkall sitt með því að giftast Elísabetu, dóttur Játvarðar 4., sem stóð næst til erfða af hálfu York-ættar eftir lát bræðra sinna, og lét taka af lífi alla aðra hugsanlega erfingja sem hann kom höndum yfir. Þar með sameinuðust ættirnar tvær og Rósastríðunum lauk endanlega.

Heimildir

breyta