Hinrik 2. Englandskonungur

Hinrik 2. (5. mars 11336. júlí 1189) var konungur Englands frá 1154 til dauðadags og jafnframt lávarður Írlands, hertogi af Normandí, Akvitaníu og Gaskóníu og greifi af Anjou, Maine og Nantes. Hann réði því mestöllu vestanverðu Frakklandi, auk meirihluta Bretlandseyja.

Hinrik 2. Málverk frá um 1620 eftir óþekktan listamann.

Uppvöxtur og lýsing

breyta

Hinrik Plantagenet var sonur Geoffreys hertoga af Anjou og konu hans Matthildar, sem jafnan var nefnd Matthildur keisaraynja. Hún var dóttir Hinriks 1. Englandskonungs og taldi sig eiga erfðarétt eftir hann en frændi hennar, Stefán, hafði sölsað England undir sig og hún háði baráttu við hann árum saman og kallaðist það tímabil Stjórnleysið. Þegar Hinrik, elsti sonur hennar, óx úr grasi tók hann þátt í baráttunni og tók svo við af móður sinni og gerði tilkall til krúnunnar.

Hinrik var rauðhærður og freknóttur, stór og sterkur og mikill íþróttamaður. Hann var mjög vel gefinn og sagður lærðasti konungur Evrópu á sinni tíð, frábærlega minnisgóður, tungumálamaður og lögspakur, lítillátur og mannblendinn, gjafmildur og gamansamur. Hann var hins vegar mikill skapmaður og átti oft erfitt með að hafa hemil á sér.

Hjónaband og börn

breyta
 
Rósamunda fagra, ástkona Hinriks 2. Málverk eftir John William Waterhouse.

Hinrik giftist Elinóru hertogaynju af Akvitaníu 18. maí 1152 en þá voru aðeins tveir mánuðir síðan hún hafði fengið hjónaband sitt og Loðvíks 7. Frakkakonungs gert ógilt. Hinrik var nítján ára en Elinóra þrítug. Hún var auðugasta kona Evrópu og með henni fékk hann hertogadæmin Akvitaníu og Gaskóníu, sem þau stýrðu í sameiningu. Hún var einnig orðlögð fyrir fegurð og gáfur.

Hjónaband Hinriks og Elinóru var jafnan stormasamt. Þau áttu saman átta börn, synina Vilhjálm, sem dó í bernsku, Hinrik unga, Ríkharð ljónshjarta, Geoffrey 2. hertoga af Bretagne og Jóhann landlausa og dæturnar Matthildi hertogaynju af Saxlandi, Elinóru drottningu Kastilíu og Jóhönnu drottningu Sikileyjar.

Hinrik var ekki trúr konu sinni og átti ýmsar hjákonur og nokkur óskilgetin börn. Þekktust ástkvenna hans var Rosamund Clifford eða Rósamunda fagra. Samband þeirra hófst um 1166, þegar Elinóra drottning gekk með yngsta barn sitt, og eru þau sögð hafa elskað hvort annað mjög heitt. Rosamund lést 1176 og gengu miklar sögur um að Elinóra hefði byrlað henni eitur en enginn fótur mun vera fyrir því, enda var hún þá í stofufangelsi og Rosamund hafði nýverið tekið sér bólsetu í klaustri, sem gæti bent til þess að hún hafi verið haldin einhverjum sjúkdómi.

Konungur Englands

breyta

Í ársbyrjun 1153 hélt Hinrik yfir Ermarsund með þrjú þúsund manna her. Honum varð mjög vel ágengt og eftir að Eustace, sonur og erfingi Stefáns konungs, lést óvænt um sumarið ákvað Stefán að semja við hann, enda voru þegnar hans allir búnir að fá sig fullsadda af óstjórn og borgarastyrjöld, og urðu þeir ásáttir um að Hinrik tæki við krúnunni að Stefáni látnum þótt hann ætti son á lífi. Stefán dó í október árið eftir og 19. desember var Hinrik krýndur í Westminster Abbey. Þar með hófst valdatími Plantagenetættar.

Skömmu eftir að Hinrik tók við ríki virðist hann hafa haft áform um að ráðast inn í Írland og vinna það handa Vilhjálmi, yngri bróður sínum, en Vilhjálmur dó skömmu síðar og ekkert varð af þessu fyrr en 1166, en þá leitaði írskur undirkonungur, Diarmait Mac Murchada, liðsinnis hans til að ná aftur ríki sínu, sem hann hafði verið hrakinn frá. Hinrik brást vel við en lagði allt landið undir sig í leiðinni og lýsti sig lávarð Írlands árið 1171. Þar með hófust yfir 800 ára yfirráð Englendinga.

Morðið á Thomasi Becket

breyta

Hinrik átti í baráttu við kirkjuna og vildi reyna að draga úr völdum hennar. Helsti andstæðingur hans var Thomas Becket, erkibiskup af Kantaraborg, sem áður hafði verið vinur konungs. Í október 1164 kallaði konungur Becket fyrir ríkisráðið en biskupinn flúði til Frakklands og leitaði ásjár hjá Loðvík 7., þar sem hann dvaldi næstu árin.

Árið 1170 var svo komið að páfinn hótaði að bannfæra allt England og féllst Hinrik þá á að Becket mætti snúa heim. Þó leið ekki á löngu þar til konungi gramdist svo við Becket að hann formælti honum í sand og ösku og fjórir riddarar konungs, sem heyrðu reiðilesturinn, töldu hann hvatningu til að grípa til aðgerða og 29. desember 1170 fóru þeir að Thomasi Becket í dómkirkjunni í Kantaraborg og drápu hann. Hinrik harmaði dauða hans alla tíð, enda varpaði morðið skugga á orðspor konungs. Þremur árum seinna gerði páfinn Becket að dýrlingi.

Fjölskylduerjur

breyta
 
Gröf Hinriks 2. og Elinóru í Fontevraud-klaustri.

Árið 1174 réðist Vilhjálmur ljón Skotakonungur inn í England en Hinrik gjörsigraði hann, tók hann til fanga og lagði sunnanvert Skotland undir sig. Um sama leyti voru eldri synir konungs vaxnir úr grasi. Þeir voru metnaðargjarnir og þótti faðirinn fastheldinn á völd í ríkjum sínum og ófús að láta þeim eitthvað eftir. Árið 1173 gerðu því Hinrik ungi og Rikharður ljónshjarta uppreisn gegn föður sínum en hann var fljótur að bæla hana niður og fór mildum höndum um synina en öðru máli gegndi um Elinóru móður þeirra, sem hafði stutt þá. Hún var sett í stofufangelsi og var þar meðan Hinrik lifði, eða í sextán ár.

Árið 1182 kom aftur til átaka innan fjölskyldunnar en að þessu sinni tókust þrír elstu synirnir, Hinrik ungi, Ríkharður og Geoffrey, á og um leið var gerð uppreisn í Angoulême í Frakklandi. Hætta var á borgarastyrjöld en hún hvarf þegar Hinrik ungi dó skyndilega 11. júní 1183 og hinir bræðurnir hurfu þá tl síns heima. Árið eftir réðust þó Geoffrey, sem þá stýrði Bretagne, og Jóhann, lávarður Írlands á Ríkharð en hann var fljótur að hafa þá undir og þeir reyndu ekki aftur að rísa gegn honum. Raunar dó Geoffrey tveimur árum síðar og kann þá að hafa verið að undirbúa nýja uppreisn.

Dauði Hinriks

breyta

Ríkharður, sem var farinn að óttast um arf sinn af því að faðir hans hafði meira dálæti á Jóhanni, gerði hins vegar bandalag við Filippus Ágústus Frakkakonung og þeir réðust saman inn í Anjou sumarið 1189. Hinrik, sem var farinn að heilsu og þreki, lét undan öllum kröfum þeirra. Hann lést svo 6. júlí, einn og yfirgefinn af öllum nema óskilgetnum syni sínum, Geoffrey erkibiskupi af York. Ríkharður var krýndur konungur Englands 1. september 1189.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Stefán
Konungur Englands
(1154 – 1189)
Eftirmaður:
Ríkharður ljónshjarta
Fyrirrennari:
Geoffrey Plantagenet
Hertogar af Normandí
(1150 – 1189)
Eftirmaður:
Ríkharður ljónshjarta