Stefán Englandskonungur

Stefán (um 109625. október 1154), oft nefndur Stefán af Blois (enska: Stephen of Blois; franska: Étienne de Blois) var konungur Englands frá 1135 til dauðadags og var síðasti Normannakonungurinn. Hann átti mestalla valdatíð sína í stríði við frænku sína, Matthildi keisaraynju, og hefur tímabilið verið kallað Stjórnleysið.

Stefán Englandskonungur.

Í fornum íslenskum heimildum er Stefán stundum kallaður Stefnir.

Uppvöxtur og ríkiserfðir

breyta

Stefán var sonur Stefáns greifa af Blois og Adelu, dóttur Vilhjálms sigursæla Englandskonungs, og var einn tíu systkina. Hann fæddist í Frakklandi en tíu ára gamall var hann sendur til Englands og alinn upp hjá móðurbróður sínum, Hinrik 1., sem hélt upp á hann en ætlaði þó Matthildi dóttur sinni að erfa krúnuna og hafði tekið loforð af enskum aðalsmönnum um að styðja hana til ríkis. Um 1125 giftist Stefán Matthildi af Boulogne. Hjónaband þeirra mun hafa verið hamingjusamt og hún veitti manni sínum öflugan stuðning í borgarastyrjöldinni. Þau eignuðust þrjá syni og tvær dætur.

Stefán átti tvo eldri bræður sem hefðu átt að eiga tilkall til ensku krúnunnar fremur en hann, jafnvel þótt litið sé framhjá erfðakröfu Matthildar, en sá elsti, Vilhjálmur, virðist aldrei hafa komið til greina og hefur því stundum verið haldið fram að hann hafi verið vanheill á geðsmunum eða þroskaheftur en líklega var hann þó aðeins haldinn slæmum skapgerðarbrestum og talinn óhæfur stjórnandi. Næstur í röðinni var Teóbald 2. af Champagne en hann virðist ekki hafa haft áhuga á ensku krúnunni eða var að minnsta kosti ekki nógu fljótur að bregða við þegar Hinrik 1. dó 1135.

Ýmsir komu til greina til að taka við krúnunni en Matthildur keisaraynja, eina skilgetna barn Hinriks sem eftir lifði, naut ekki mikils stuðnings, bæði vegna þess að hún var kona og ekki síður af því að hún var gift Geoffrey greifa af Anjou, en Normannar og Anjoumenn voru erfðaféndur. Aðrir sem komu til greina voru Stefán og Teóbald bróðir hans og Róbert jarl af Gloucester, óskilgetinn sonur Hinriks konungs. Stefán hafði svarið Matthildi hollustu að beiðni Hinriks en lýsti því nú yfir að Hinrik hefði skipt um skoðun á bananbeði og lýst sig erfingja. Hann lét krýna sig og tryggði sér stuðning meirihluta aðalsmanna. Fyrstu ríkisár hans voru friðsamleg að mestu.

Stjórnleysið

breyta

Stefán leyfði aðalsmönnum landsins að sölsa undir sig jarðir og önnur verðmæti og gerði ekkert til að stöðva harðstjórn þeirra og grimmdarverk gagnvart almenningi. Í landinu var ekkert sterkt miðstjórnarvald, svo að lénsherrar tóku lögin í eigin hendur og lögðu á skatta og refsingar að eigin geðþótta. Valdatími Stefáns varð „nítján langir vetur, þegar Kristur og dýrlingar hans sváfu.“ (Árbækur Engilsaxa).

Stefán var skiljanlega ekki vinsæll konungur og árið 1139, þegar Matthildi keisaraynju hafði tekist að afla sér nægilegs herstuðnings, gerði hún innrás í England og þar með hófst borgarastyrjöldin sem kölluð hefur verið Stjórnleysið. Matthildi gekk misjafnlega en lengst náði hún í apríl árið 1141, þegar hersveitir hennar unnu sigur á liði Stefáns konungs í orrustunni við Lincoln og náðu konungi á sitt vald. Matthildur hafði hann í haldi í Bristol. En Matthildur drottning, kona Stefáns, hvatti Lundúnabúa til stuðnings við hann og þar sem Matthildur keisaraynja þótti hrokafull og neitaði að lækka skatta var hún hrakin frá borginni. Þegar menn Matthildar drottningar náðu hálfbróður hennar og aðalherforingja, jarlinum af Cloucester, á sitt vald neyddist hún til að hafa fangaskipti á honum og Stefáni konungi.

Borgarastyrjöldin hélt áfram næstu árin. Matthildi keisaraynju tókst að tryggja völd sín í Normandí en í Englandi varð henni lítt ágengt og eftir innrásartilraun árið 1147 hætti hún að reyna að vinna England undir sig. En þá var Hinrik, elsti sonur hennar, kominn á unglingsaldur (f. 1133) og hann hélt baráttunni áfram næstu árin og varð mun betur ágengt. Elsti sonur og erfingi Stefáns, Eustace, lést skyndilega í ágúst 1153. Stefán átti raunar annan son á lífi, Vilhjálm af Blois, en hann og þegnar hans allir voru búnir að fá nóg af endalausum stríðsátökum og það varð að samkomulagi að Hinrik skyldi erfa ríkið eftir hann. Stefán dó svo ári síðar í Dover og tók Hinrik þá við ríkjum sem Hinrik 2. Englandskonungur, fyrsti konungur af Plantagenetætt. Vilhjálmur af Blois var skömmu síðar bendlaður við samsæri um að myrða Hinrik og flúði til Normandí, þar sem hann dó 1159.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Hinrik 1.
Konungur Englands
(1135 – 1154)
Eftirmaður:
Hinrik 2.
Fyrirrennari:
Hinrik 1. Englandskonungur
Hertogi af Normandí
(1135 – 1144)
Eftirmaður:
Geoffrey Plantagenet