Matthildur hertogaynja af Saxlandi

Matthildur af Englandi (115628. júní 1189), einnig nefnd Maud, var ensk konungsdóttir á 12. öld og síðar hertogaynja af Saxlandi og Bæjaralands.

Krýning Hinriks og Matthildar.

Matthildur var elsta dóttir Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu og systir Hinriks unga, Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa. Hún virðist hafa eytt bernskuárunum að mestu með móður sinni en árið 1165 kom erkibiskupinn af Köln til ensku hirðarinnar til að semja um að gifta Matthildi þýskum prinsi. Upphaflega átti að gifta hana syni Friðriks 1. keisara en úr varð að Matthildur var lofuð Hinrik ljóni, hinum valdamikla hertoga Saxlands og Bæjaralands. Hún var send frá Englandi til Þýskalands í september 1167, þá ellefu ára, og giftist Hinrik 1. febrúar 1168. Hann var þá 39 ára.

Hinrik ljón var á þessum tíma einn auðgasti og voldugasti maður Þýskalands og bandamaður Friðriks 1. keisara. Hann fór í krossferð 1172-1173 og stýrði Matthildur löndum hans á meðan. En árið 1174 lenti Hinrik ljón í deilum við keisarann og þau hjónin urðu að flýja frá Þýskalandi og leita hælis hjá föður Matthildar í Normandí. Þar voru þau til 1185 en var þá leyft að snúa heim til Saxlands. Snemma árs 1189 skipaði keisarinn Hinriki aftur að fara í útlegð. Matthildur varð að þessu sinni eftir til að gæta hagsmuna eiginmanns síns en dó skömmu síðar.

Þau áttu eina dóttur og fjóra syni, þar á meðal Ottó 4. keisara.