Henry A. Wallace

Varaforseti Bandaríkjanna frá 1941 til 1945
(Endurbeint frá Henry Wallace)

Henry Agard Wallace (7. október 1888 – 18. nóvember 1965) var bandarískur stjórnmálamaður, blaðamaður, bóndi og athafnamaður sem var 33. varaforseti Bandaríkjanna frá 1941 til 1945, á þriðja kjörtímabili Franklins D. Roosevelt forseta. Wallace var jafnframt 11. landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna og 10. verslunarráðherra Bandaríkjanna. Hann bauð sig fram í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 1948 fyrir Framfaraflokkinn.

Henry A. Wallace
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1941 – 20. janúar 1945
ForsetiFranklin D. Roosevelt
ForveriJohn Nance Garner
EftirmaðurHarry S. Truman
Verslunarráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
2. mars 1945 – 20. september 1946
ForsetiFranklin D. Roosevelt
Harry S. Truman
ForveriJesse H. Jones
EftirmaðurW. Averell Harriman
Landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
4. mars 1933 – 4. september 1940
ForsetiFranklin D. Roosevelt
ForveriArthur M. Hyde
EftirmaðurClaude R. Wickard
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. október 1888
Orient, Iowa, Bandaríkjunum
Látinn18. nóvember 1965 (77 ára) Danbury, Connecticut, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurFramfaraflokkurinn (1948–1950)
Demókrataflokkurinn (1936–1947, 1964–1965)
Framfaraflokkurinn (1924–1932)
Repúblikanaflokkurinn (1909–1924)
MakiIlo Browne (g. 1914)
Börn3
HáskóliRíkisháskólinn í Iowa (BS)
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Henry Agard Wallace fæddist þann 7. október 1888 á bóndabæ í Adairhéraði í Iowa og var af skoskum og írskum ættum. Afi hans var bæði prestur í öldungakirkjunni og stofnandi blaðsins Wallace's Farmer. Faðir Henry A. Wallace, Henry Cantwell Wallace, ritstýrði blaðinu og var landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórnum Warrens G. Harding og Calvins Coolidge.[1]

Eftir að Wallace lauk háskólanámi hóf hann störf hjá Wallace's Farmer og tók við sem ritstjóri þess eftir að faðir hans lést árið 1924. Wallace var undir miklum áhrifum frá landbúnaðarvísindamanninum George Washington Carver, sem kenndi honum og vakti hjá honum áhuga á jarðrækt. Wallace gerði ungur tilraunir með nýja maístegund sem hann nefndi „Copper Cross“. Hann stofnaði jafnframt hlutafélag til að annast sölu kornsins og hagnaðist vel á því. Wallace fékkst jafnframt við nautgriparækt á búgarði í Iowa og skrifaði nokkrar bækur um landbúnaðarmál og bandarísk stjórnmál.[1]

Stjórnmálaferill

breyta

Wallace kynntist Franklin D. Roosevelt, þáverandi fylkisstjóra New York, árið 1932 fyrir milligöngu Henry Morgenthau og studdi framboð Roosevelts í forsetakosningunum það ár. Eftir sigur sinn í kosningunum skipaði Roosevelt Wallace landbúnaðarráðherra í stjórn sinni. Wallace varð náinn samstarfsmaður Roosevelts og einn helsti forvígismaður nýsköpunaráætlunar hans, nýju gjafarinnar (New Deal).[1]

Wallace var kjörinn varaforseti Bandaríkjanna þegar Roosevelt vann þriðja kjörtímabil sitt í forsetaembætti í kosningunum 1940. Sem varaforseti gerðist Wallace nokkurs konar sendifulltrúi Roosevelts og fór í fjölda sendiferða fyrir hönd Bandaríkjastjórnar. Meðal annars ferðaðist hann til austurhluta Sovétríkjanna fyrir hönd Roosevelts árið 1944 og var þar í fjórar vikur. Eftir heimkomuna til Bandaríkjanna gaf Wallace út bók þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi vinskap Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, auk þess sem hann varaði við atferli stríðsæsingamanna.[1]

Roosevelt hafði hug á því að Wallace yrði áfram varaforseti hans þegar hann bauð sig fram í fjórða skipti árið 1944. Á þessum tíma var þegar ljóst að heilsu Roosevelts fór hrakandi og margir andstæðingar Wallace innan Demókrataflokksins treystu honum ekki til þess að leiða Bandaríkin á lokaköflum seinni heimsstyrjaldarinnar ef svo færi að Roosevelt dæi í embætti þar sem Wallace þótti óþarflega hallur undir Sovétríkin. Þetta leiddi til þess að öldungadeildarþingmaðurinn Harry S. Truman var valinn varaforsetaefni í framboði Roosevelts í kosningunum 1944 í stað Wallace. Roosevelt og Truman unnu kosningarnar en Roosevelt lést fáeinum mánuðum eftir að fjórða kjörtímabil hans hófst árið 1945 og Truman varð því forseti Bandaríkjanna.[2]

Wallace hafði verið verslunarráðherra undir lok stjórnartíðar Roosevelts og hann hélt fyrst um sinn ráðherraembættinu í stjórnartíð Trumans. Wallace varð hins vegar ósamstíga Truman í ýmsum efnum, sér í lagi í utanríkismálum á upphafsdögum kalda stríðsins. Í mars 1946 krafðist Wallace þess meðal annars að Bandaríkjaher hefði sig burt frá Íslandi.[3] Þann 12. september 1946 flutti hann ræðu í Madison Square Garden í New York þar sem hann gagnrýndi stefnu bandaríska utanríkisráðuneytisins sem varð til þess að Truman lét reka Wallace úr stjórn sinni.[1]

Wallace var áfram virkur í stjórnmálum eftir að Truman leysti hann úr embætti. Hann fór meðal annars í fyrirlestraför til Englands árið 1947 og talaði fyrir ráðstefnu um skipulagningu heimsviðskipta, dreifingu kolabirgða í Evrópu og alþjóðlega matvælaráðstefnu.[4]

Wallace bauð sig fram fyrir nýjan flokk, Framfaraflokkinn, í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 1948. Í framboðsyfirlýsingu sinni gagnrýndi Wallace bandaríska tvíflokkakerfið, utanríkis- og hernaðarstefnu Bandaríkjastjórnar, ítök einokunarhringja í bandarísku efnahagslífi og skort á framförum í réttindamálum svartra Bandaríkjamanna.[5] Wallace var á móti Marshalláætluninni, sem hann taldi að hefði klofið heiminn í tvennt, og lét í veðri vaka að kommúnistar hefðu ekki tekið völdin í Tékkóslóvakíu ef hann hefði orðið forseti í stað Trumans. Wallace lýsti sig jafnframt fylgjandi því að ríkið tæki yfir járnvinnslu, kolanám og rekstur járnbrauta líkt og gert hafði verið í Bretlandi eftir stríð.[6] Búist var við því að framboð Wallace myndi erfiða kosningarnar fyrir Truman, sem almennt var búist við að myndi tapa endurkjöri. Að endingu náði Wallace hins vegar litlu fylgi og Truman vann óvænt endurkjör.[7]

Wallace lést þann 18. nóvember árið 1965, 77 ára að aldri.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Henry Wallace telur bandaríska afturhaldið stefna að fasisma og þriðju heimsstyrjöldinni“. Þjóðviljinn. 31. ágúst 1948. bls. 5; 7.
  2. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 309. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  3. „Henry Wallace vill að Bandaríkjaherinn verði tafarlaust fluttur burt frá Íslandi“. Nýi tíminn. 29. mars 1946. bls. 1.
  4. „Henry Wallace. Hinn óraunsæi talsmaður friðarins“. Alþýðublaðið. 20. ágúst 1947. bls. 5; 7.
  5. Henry Wallace (1. maí 1948). „Hvers vegna ég býð mig fram“. Tímarit Máls og menningar. bls. 31-43.
  6. „Hver verður næsti forseti Bandaríkjanna?“. Fálkinn. 20. ágúst 1948. bls. 4-5.
  7. „Endurkjör Trumans“. Verkamaðurinn. 26. nóvember 1948. bls. 5.
  8. „Henry Wallace látinn, 77 ára“. Þjóðviljinn. 18. nóvember 1965. bls. 3.


Fyrirrennari:
John Nance Garner
Varaforseti Bandaríkjanna
(20. janúar 194120. janúar 1945)
Eftirmaður:
Harry S. Truman