Mike Johnson

Bandarískur stjórnmálamaður

James Michael Johnson (f. 30. janúar 1972) er bandarískur stjórnmálamaður frá Louisiana. Johnson er meðlimur í Repúblikanaflokknum og hefur gegnt embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá 25. október 2023. Hann er fyrsti þingforseti landsins sem kemur frá Louisiana. Johnson er jafnframt óreyndasti þingmaður sem hefur verið kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar frá árinu 1883.

Mike Johnson
Mike Johnson árið 2022.
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Núverandi
Tók við embætti
25. október 2023
ForveriKevin McCarthy
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 4. kjördæmi Louisiana
Núverandi
Tók við embætti
3. janúar 2017
ForveriJohn Fleming
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. janúar 1972 (1972-01-30) (52 ára)
Shreveport, Louisiana, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiKelly Lary
Börn4
HáskóliRíkisháskóli Louisiana

Æviágrip

breyta

Johnson var kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings í fyrsta skipti árið 2016. Þar áður hafði hann setið á ríkisþingi Louisiana og unnið sem lögmaður hjá þrýstihópnum Alliance Defending Freedom, sem hefur þann yfirlýsta tilgang að berjast fyrir réttindum trúaðra. Hópurinn hefur beitt sér gegn réttindum hinsegin fólks og rétti kvenna til þungunarrofs.[1]

Mike Johnson var í hópi þingmanna Repúblikanaflokksins sem neituðu að staðfesta sigur Demókratans Joe Biden á móti sitjandi forsetanum Donald Trump í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 2020 vegna upploginna ásakana Trumps um kosningamisferli. Johnson fékk jafnframt um hundrað þingmenn Repúblikanaflokksins til að styðja lögsókn Kens Paxton, dómsmálaráðherra Texas, þar sem farið var fram á það við Hæstarétt Bandaríkjanna að sigur Bidens í fjórum fylkjum yrði ógiltur. Hann gerði þetta þrátt fyrir að lögmaður flokksins hefði tjáð honum að þessar aðgerðir myndu brjóta gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna. Hæstiréttur vísaði lögsókninni fljótt frá.[1]

Johnson er álitinn dyggur stuðningsmaður Trumps af harðlínumönnum innan Repúblikanaflokksins en nýtur þó einnig virðingar meðal hófsamari meðlima flokksins.[2]

Johnson var kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar af þingmeirihluta Repúblikanaflokksins þann 25. október árið 2023.[3] Fulltrúadeild þingsins hafði þá verið án forseta í um þrjár vikur, eða frá því að Kevin McCarthy var leystur úr embætti vegna óánægju íhaldssömustu þingmanna flokksins með frammistöðu hans. Á undanförnum vikum höfðu Repúblikanar tilnefnt Steve Scalise, Jim Jordan og Tom Emmer þingforsetaefni sitt en þeim hafði öllum mistekist að ávinna sér meirihluta atkvæða þingmanna. Johnson var tilnefndur þingforsetaefni flokksins aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Tom Emmer dró sitt framboð til baka vegna gagnrýni frá Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Samúel Karl Ólason (27. október 2023). „Hefur lengi barist gegn réttindum „ónáttúrulegs" hinsegin fólks“. Vísir. Sótt 27. október 2023.
  2. Alexander Kristjánsson (25. október 2023). „Repúblikanar ná saman um þingforseta eftir þriggja vikna þref“. RÚV. Sótt 25. október 2023.
  3. „Fulltrúadeildin fær loksins nýjan forseta“. mbl.is. 25. október 2023. Sótt 25. október 2023.
  4. Samúel Karl Ólason (25. október 2023). „Tilnefndu tvo á einungis tíu tímum“. Vísir. Sótt 25. október 2023.


Fyrirrennari:
Kevin McCarthy
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
(25. október 2023 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


   Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum og Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.