Fjármálabyltingin

Athugið að fjármálabyltingin var ekki stjórnarbylting.

Fjármálabyltingin (enska: The Financial Revolution), einnig þekkt sem fyrsta fjármálabyltingin eða fjármálabylting 18. aldar, er sagnfræði- og hagsögulegt hugtak, sem á við um sögulegt tímabil mikilla efnahags- og viðskiptalegra umbóta í Bretlandi á fyrri hluta 18. aldar, sem lögðu grundvöllinn að nútímalegri fjármálastarfsemi í Evrópu og uppgangi Breska heimsveldisins.[1][2][3][4][5]

Uppruni hugtaksins breyta

Hugtakið „fjármálabylting“ var fyrst notað[6] af breska sagnfræðingnum P. G. M. Dickson til þess að lýsa straumhvörfunum sem urðu í fjármálastarfsemi Bretlands á 18. öld, í kjölfar hinnar svokölluðu „Dýrlegu byltingarinnar“ árin 1688 til 1689. Þá var tekin upp í Bretlandi það sem Dickson kallar „hollensk fjármálastarfsemi,“ sem átti eftir að hafa mikil áhrif á efnahagsþróun Breska heimsveldisins.[7]

Aðdragandinn breyta

 
Vilhjálmur 3. af Óraníu.

Fjármálabyltingin á rætur sínar að rekja til „Dýrlegu byltingarinnar“ svonefndu árin 1688 til 1689, þegar Vilhjálmur 3. af Óraníu réðist inn í England og steypti Jakobi 2. Englandskonungi af stóli, og gerðist sjálfur konungur.[8][9][10]

Vilhjálmur 3. innleiddi fjármálastarfsemi í Bretlandi að hollenskum sið,[11][12] en fyrstu eiginlegu verðbréfamarkaðirnir höfðu orðið til í Hollandi á 17. öld.[13][14] Þar hafði fyrsta almenningshlutafélagið og fjölþjóðafyrirtækið, þ.e. Hollenska Austur-Indíafélagið, verið stofnað árið 1602, og einnig fyrsta kauphöllin, en hún var staðsett í höfuðborginni Amsterdam.[15][16] Þróun fjármála í Hollandi hafði enn fremur stuðlað að Túlípanaæðinu alræmda árin 1634 til 1637, fyrstu markaðsbólunni sem vitað er um.[17][18] Þó er umdeilt hversu alvarleg sú verðbóla var, og sumir telja að hún hafi ekki haft neinar slæmar efnahagslegar afleiðingar fyrir Hollenska hagkerfið á 17. öld.[19][20]

Nútímaleg fjármálastarfsemi verður til breyta

Að „Dýrlegu byltingunni“ lokinni, og sérstaklega á fyrri hluta 18. aldar, er sagt að nútímaleg fjármálastarfsemi hafi orðið til, með þeim efnahags- og viðskiptalegu umbótum sem áttu sér stað í Bretlandi á þeim tíma.[21]

Fjármálabylting Bretlands á fyrri hluta 18. aldar fólst einkum í stóraukinni skattálagningu og miðstýringu skattheimtu í landinu; myndun nútímalegra fjámálamarkaða fyrir lán og sparnað, þá sérstaklega í formi skuldabréfa; og myndun fyrsta eiginlega eftirmarkaðarins fyrir skuldabréf, þá aðallega ríkisskuldabréfa.[22][23][24] Í fyrsta sinn átti sér stað kerfisbundin þróun verðbréfa í átt að meira greiðsluhæfi og skiptanleika, þar sem langtímaverðbréf fóru í meira mæli að taka við af skammtímaverðbréfum.[25] Þá var Englandsbanki, seðlabanki Englands, stofnaður árið 1694.

Fjármálabyltingin er einkum þekkt fyrir „Suðurhafsverðbóluna“ svokölluðu sem átti sér stað á meðan byltingunni stóð. Suðurhafsfélagið (e. South Sea Company) hafði verið stofnað árið 1711 og hafði einokun yfir helstu siglingarleiðunum frá Bretlandi, og enska ríkisstjórnin hvatti fjárfesta til þess að skipta á ríkisskuldabréfum og hlutabréfum í félaginu. Verð hlutabréfanna rauk upp úr öllu valdi þangað til að bólan sprakk árið 1720 og fjöldi fólks tapaði stórfé.[26][27][28][29]

Fleiri fjármálabyltingar breyta

Ýmsir hagfræðingar og sagnfræðingar sem sérhæfa sig í hagsögu og fjármálafræði, hafa greint þrjár mikilvægar fjármálabyltingar á nýöld.[30][31][32] Það eru:

  • Fjármálabyltingin í Bretlandi á 18. öld, þar sem skipulagður eftirmarkaður varð til fyrir skuldabréf, þá sérstaklega ríkisskuldabréf.
  • Fjármálabyltingin í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, þegar skipulagður eftirmarkaður varð til fyrir hlutabréf, og einkarekin hlutafélög og fjölþjóðafyrirtæki fóru að ryðja sér til rúms sem helstu gerendurnir í efnahagsstarfsemi á heimsvísu (í staðinn fyrir ríkið), samhliða mikilli iðnvæðingu og stóriðjuuppbyggingu.
  • Fjármálabyltingin á síðari hluta 20. aldar fram til dagsins í dag, þegar skipulagðar eftirmarkaður varð til fyrir afleiður. Fjármálastarfsemi er umbylt, annars vegar með tækninýjungum á borð við tölvur, og hins vegar með stóraukinni samskiptatækni í formi farsíma, spjaldtölva og Internetsins.

Tilvísanir breyta

  1. Cassis, 2010, bls. 16-17.
  2. Dickson, 1967.
  3. Ferguson, 2009.
  4. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
  5. Neal, 2000, bls. 118.
  6. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
  7. Dickson, 1967.
  8. Cameron & Neal, 2003, bls. 154-155.
  9. Cassis, 2010, bls. 16.
  10. Ferguson, 2009, bls. 78.
  11. Dickson, 1967.
  12. Neal, 2000, bls. 123.
  13. Ferguson, 2009, bls. 77.
  14. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 2. þáttur: Afleiðuviðskipti og túlípanaæði.
  15. Cameron & Neal, 2003, bls. 150-154.
  16. Ferguson, 2009, bls. 128-137.
  17. Magnús Sveinn Helgason, 2007a.
  18. Morgunblaðið, 2004, bls. 7. Framvirkir samningar um túlípana.
  19. Garber, 1990, bls. 37-39.
  20. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 2. þáttur: Afleiðuviðskipti og túlípanaæði.
  21. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.
  22. Cameron & Neal, 2003, bls. 154-159.
  23. Cassis, 2010, bls. 16-17
  24. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 3. þáttur: Fjármálabylting 18. aldar.
  25. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 3. þáttur: Fjármálabylting 18. aldar.
  26. Ferguson, 2009, bls. 152-154.
  27. Garber, 1990, bls. 47-51.
  28. Magnús Sveinn Helgason, 2007b.
  29. Morgunblaðið, 2004, bls. 7: Fjárfest í siglingum á 18. öld.
  30. Cassis, 2010.
  31. Ferguson, 2009.
  32. Magnús Sveinn Helgason, 2013, 1. þáttur: Sturlun hjarðarinnar og markaðurinn sem hefur alltaf á réttu að standa.

Heimildir breyta

  • Cameron, Rondo og Neal, Larry (2003). A Concise Economic History of the World: from Paleolithic Times to the Present (4. útgáfa). New York: Oxford University Press.
  • Cassis, Youssef (2010). Capitals of Capital: The Rise and Fall of International Financial Centres 1780-2009. New York: Cambridge University Press.
  • Dickson, P. G. M (1967). The Financial Revolution in England. A Study in the Development of the Public Credit, 1688-1756. London: Macmillan.
  • Ferguson, Niall (2009). Peningarnir sigra heiminn: fjármálasaga veraldarinnar (Elín Guðmundsdóttir þýddi á íslensku). Reykjavík: Ugla.
  • Garber, Peter M. „Famous First Bubbles“. The Journal of Economic Perspectives. (4) (2000): bls. 35-54. Cambridge University Press.
  • Magnús Sveinn Helgason. (2007a, 7. september). „Hollenska túlípanaæðið: Fyrsta kauphallaræði sögunnar.“ Viðskiptablaðið, bls. 25.
  • Magnús Sveinn Helgason. (2007b, 26. október). „Suðursjávarblaðran: Hlutabréfaæði gekk yfir England og hlutabréfaviðskipti urðu helsta umræðuefni fólks.“ Viðskiptablaðið, bls. 23.
  • Magnús Sveinn Helgason. (2013). „Fjármalabyltingar og kauphallarhrun“. Útvarpsþáttur á RÚV. Sótt 10. maí 2015.
  • Morgunblaðið (2004, 15. apríl). „Upp og niður í gegnum tíðina“. bls. 7. Sótt 12. maí 2015.
  • Neal, Larry. „How it all began: the monetary and financial architecture of Europe during the first global capital markets, 1648–1815“. Financial History Review. (7) (2000): bls. 117–140. Cambridge University Press.

Tengt efni breyta