Spjaldtölva er þráðlaus tölva með snertiskjá sem oftast notast við sérsniðin snjallstýrikerfi þar sem hugbúnaðurinn nefnist öpp. Spjaldtölvur eru á vissan hátt stórir snjallsímar þar sem áherslan er á hugbúnað og tengimöguleika frekar en farsímavirkni. Skjáir spjaldtölva eru yfirleitt stærri en 7 tommur (18 cm). Sumar spjaldtölvur styðja tengingu við farsímanet með SIM-korti.

Spjaldtölva

Þær eru keimlíkar hefðbundnum kjöltutölvum, en helsti munurinn er að spjaldtölvur notast að miklu eða öllu leyti við snertiskjái og skjályklaborð í stað takkaborðs eða lyklaborðs, auk þess að notast við snjallstýrikerfi, fremur en hefðbundin borðtölvustýrikerfi líkt og kjöltutölvur gera. Flestar spjaldtölvur eru með innbyggðan stuðning við Bluetooth þannig að hægt er að tengja jaðartæki eins og tölvumús og lyklaborð við tölvuna sem gerir hana líka fartölvu sem hentar fyrir létta skrifstofuvinnu. Afbrigði af spjaldtölvu er 2-in-1-spjaldtölva sem líkist hefðbundinni kjöltutölvu, en er með lyklaborð sem hægt er að fjarlægja alveg og nota þá skjáinn eins og hverja aðra spjaldtölvu.

Eins konar spjaldtölva var leikmunur í vísindaskáldsögumyndinni 2001: Geimævintýraferð frá 1968 og fyrstu frumgerðirnar voru þróaðar undir lok 20. aldar. Fyrsta spjaldtölvan sem náði almennri útbreiðslu var iPad frá Apple sem kom á markað árið 2010, þremur árum eftir iPhone. Þessi fyrstu snjalltæki nýttu sér fjölsnertiskjá sem fyrirtækið FingerWorks hafði þróað. Spjaldtölvur eru vinsæl tæki fyrir vefskoðun, skjáfundi, tölvupóstnokun og afþreyingu, og henta vel til frístundalesturs. Stærð skjánna gerir það að verkum að þær henta vel sem lestölvur og rúma vel hefbundna kiljustærð af blaðsíðum. Til eru alls konar afbrigði af spjaldtölvum sem eru hannaðar fyrir mismunandi notkun, eins og lestölvur, leikjaspjaldtölvur, míníspjaldtölvur, símaspjaldtölvur (phablet) og sérsmíðaðar spjaldtölvur til notkunar á byggingarsvæðum, bílaverkstæðum, við húsvörslu, á veitingastöðum o.s.frv.

Samkvæmt gagnavinnslufyrirtækinu Statista voru 1,28 milljarðar spjaldtölva í notkun um allan heim árið 2021.[1] Fyrirtækið Apple er með mesta markaðshlutdeild, en þar á eftir koma Samsung og Lenovo.[2] Um helmingur spjaldtölva nota stýrikerfið Android, um 38% nota iPadOS og 11% Windows. Sérsniðnar Android-útgáfur eru líka algengar á spjaldtölvum. Dæmi um slíkt eru lestölvustýrikerfi Kindle Fire frá Amazon.com og Nook HD frá Barnes & Noble.

Tilvísanir

breyta
  1. „Number of tablet users worldwide from 2013 to 2021 (in billions)*“. Statista. 14. febrúar 2022.
  2. „Tablet sales start to slump despite strong growth in 2021“. IT PRO (enska). 2. febrúar 2022. Sótt 6. janúar 2023.