Túlípanaæðið
Túlipanaæðið eða túlípanabólan var tímabil á gullöld Hollands þegar verð túlipanalauka varð afar hátt en hrundi síðan skyndilega. Þegar verðið var sem hæst í mars 1637 seldist einn túlipanalaukur fyrir tíföld árslaun handverksmanns. Túlipanaæðið er talin ein fyrsta skrásetta efnahagsbóla sögunnar, þótt fræðimenn hafi bent á að efnahagskreppan við upphaf Þrjátíu ára stríðsins 1619-1622 hafi haft mörg einkenni efnahagsbólu. Túlipanaæði er nú oft notað til að vísa til stórra efnahagsbóla þar sem verð fer langt yfir eiginlegt virði vörunnar.
Túlípanaæðið varð frægt í nútímanum eftir útkomu bókarinnar Extraordinary Popular Delusions and the Madness of Crowds eftir breska blaðamanninn Charles Mackay árið 1841. Samkvæmt Mackay voru 12 ekrur (5 ha) lands eitt sinn boðnar fyrir einn lauk af Semper Augustus-túlípana. Mackay hélt því fram að slíkir fjárfestar hefðu beðið gjaldþrot þegar verðið hrundi, og að viðskiptalíf Hollands hefði orðið fyrir alvarlegu áfalli. Þessi túlkun atburða er umdeild og margir fræðimenn telja að æðið hafi ekki verið jafn einstakt og Mackay heldur fram og benda á að ekki séu fyrir hendi nægar verðupplýsingar til að halda því fram að um efnahagsbólu hafi verið að ræða.
Rannsóknir eru erfiðar þar sem gögn um efnahagslíf Hollands á 17. öld eru takmörkuð og sum fengin úr heimildum sem eru hlutdrægar og byggðar á vangaveltum. Sumir nútímahagfræðingar hafa stungið upp á annarri skýringu á verðhækkun og verðhruni en spákaupmennsku. Önnur blóm, eins og til dæmis hýasintur, hækkuðu einnig snöggt í verði fyrst eftir að þau komu á markað og lækkuðu svo hratt. Hátt verð kann líka að hafa stafað af væntingum um þingtilskipun sem hefði gert fólki auðvelt að segja sig frá samningum með litlum tilkostnaði og þannig dregið verulega úr áhættu kaupenda.
Koma túlipana til Evrópu og þróun viðskipta í Hollandi
breytaTúlipanar komu til Evrópu með sendingu frá Tyrkjaveldi til Vínar árið 1554. Árið 1593 var farið að rækta lauka á landsvæði þar sem nú eru Niðurlönd. Túlipanar voru á þessum tíma frábrugðnir öllum öðrum blómum sem þá þekktust með sínum skærlitu blómum og urðu stöðutákn og tákn hinna nýríku landsvæða sem græddu um þessar mundir mikið á Austur-Indíuviðskiptum. Viðskiptin voru svo gróðavænleg að einstök skipsferð gat skilað 400% gróða. Ríkir kaupmenn sýndu ríkidæmi sitt með stórum fasteignum sem umkringdar voru blómagörðum og í þeim var aðaldjásnið túlipanar í ýmsum afbrigðum.
Það tekur vanalega sjö til tólf ár að rækta túlipanalauk upp frá fræi. Túlipanar blómgast í apríl og maí í um það bil viku. Á tímabilinu júní til september voru laukar grafnir upp og fluttir til og það er á því tímabili þar sem raunveruleg vöruviðskipti eiga sér stað. En á öðrum tímum ársins þá var verslað með túlipana með pappírum, þá undirrituðu túlipanakaupmenn saminga um að kaupa túlipana í lok tímabilsins.
Spurn eftir túlipönum hélt áfram að aukast á ógnarhraða og svo virtist sem ekkert annað þætti eins eftirsóknarvert í augum Hollendinga á þessum tíma. Þetta þýddi að verslun með túlípana gæti komið til með að skila fólki miklum hagnaði. Eftirsóknarverðasti túlipaninn á markaðinum var Semper Augustus. Einn laukur kostaði um 5.500 gyllini. Það sem var sérstakt við Semper Augustus var að hann var sérlega fágætur og talinn virkilega fallegur, sérstaklega vegna litadýrðarinnar. [1]
Verð túlipana hækkaði og ræktendur fengu sífellt hærra verð fyrir. Árið 1634 fóru spákaupmenn að taka þátt í túlipanaviðskiptum og veðja á síhækkandi verð túlipana. Túlipanaæðið náði hámarki veturinn 1636-7 og þann vetur voru sumir laukar keyptir og seldir tíu sinnum á dag. Engir laukar voru þó fluttir til, þetta voru eingöngu pappírssamningar. Peningar flæddu inná túlípanamarkaðinn en á sama tíma hætti eftirspurn eftir fágætu og dýru túlípönunum að vaxa sem olli verðhækkun. Árið 1636 var kauphöllin undir hlutabréfaviðskiptin orðin of lítil til að hýsa allt fólkið sem tók þátt. Það neyddist á endanum til þess að færa viðskiptin inn á kaffihús og krár í Amsterdam. Veturinn 1636-7 hækkuðu verð upp úr öllu valdi en samt sem áður hélt fólk áfram að gera næstum hvað sem er til þess að halda áfram í túlípanabraskinu, meðal annars seldi það eigur sínar og veðsetti húsin sín. Á þessum tíma voru það ekki bara fágætu túlípanalaukarnir sem hækkuðu í verði, heldur líka þeir venjulegu. [2]
Túlipanamarkaðurinn hrundi í febrúar 1637. Hrunið hófst í Haarlem þar sem kaupendur neituðu að mæta á hefðbundið laukauppboð. Á þessum tíma braust út mannskæð bólusótt og mikil skelfing greip um sig. Verð túlipana féll niður í einn hundraðasta af fyrra verði. Dæmi um það var verðið á Semper Augustus. Árið 1635 höfðu 40 laukar verið seldir fyrir 100.000 hollensk gyllini á sama tíma og tonn af smjöri kostaði 100 gyllini og átta feit svín kostuðu 240 gyllini.
Túlipanaæðið: Ýkjusaga eða hvað?
breytaBreski blaðamaðurinn Charles Mackay skrifaði árið 1841 bókina Extraordinary Popular Delusions and the Madness of Crowds um túlipanaæðið. Mackay segir frá því að fimm hektarar lands hafi á tímabili verið boðnir í skiptum fyrir einn lauk af gerðinni Semper Augustus og margir fjárfestar orðið gjaldþrota og mikil niðursveifla orðið í viðskiptum í Hollandi. Erfitt er að rannsaka Túlipanaæðið vegna takmarkaðra gagna frá þessum tíma.
Fræðimenn greinir á um hvort að túlipanaæðið hafi verið efnahagsbóla eða ekki. Rannsóknir Mackay um túlipanaæðið höfðu allt þar til árið 1980 verið óskoðaðar og þarf af leiðandi óvéfengdar. Þó að Mackay hafi talið að túlípanabólan hafi sprungið hafa nútímafræðimenn bent á að hann hafi ekki verið með nægilega haldbærar upplýsingar í höndunum. Mackay byggir rök sín á þremur áróðursbæklingum sem voru skrifaðir stuttu eftir túlípanaæðið af mönnum sem voru á móti slíku braski. (garber) Að undirlagi ríkisins hafi þeir framleitt bæklingana, en ríkið vildi stjórna fjármálamörkuðum.
Meginástæða þess að nútímafræðimenn telja að túlipanaæðið hafi í raun ekki verið spákaupsmannsbóla heldur hafi verið um að ræða hraða verðhækkun og hraða verðlækkun eru eftirfarandi ástæður sem að Mackay yfirsást:
- Verðhreyfingar á laukum á tímum túlipanaæðisins eru dæmigerðar fyrir hvaða markað sem er með fágæta vöru með tilliti til grunnstoða markaðarins – hagstæð markaðsverð
- Engar vísbendingar um að efnahagslegur skaði hafi hlotist af túlipanaæðinu.
- Tölfræðin sem Mackay notaði er vafasöm og hann nýttist við verð á túlipanalaukum 60 til 200 árum eftir túlípanaæðið til þess að bera saman við verðin strax eftir hrunið af því að það eru ekki til neinar heimildir um verðin
Því mætti segja að allt tal um efnahagsbólu byggi á sögusögnum. [3]
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Tulip mania“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. janúar 2013.
- ↑ Magnús Sveinn Helgason. (2007, 7. september). Hollenska túlípanaæðið: Fyrsta kauphallaræði sögunnar. Viðskiptablaðið, bls. 25.
- ↑ Magnús Sveinn Helgason. (2007, 7. september). Hollenska túlípanaæðið: Fyrsta kauphallaræði sögunnar. Viðskiptablaðið, bls. 25.
- ↑ Garber, P. M. (1990). Famous first bubbles. The Journal of Economic Perspectives, bindi. 4, nr. 2., bls. 35-54.