Strandhögg er skyndiárás af sjó á land, yfirleitt til að ræna kvikfé eða öðrum verðmætum og valda usla (tjóni). Strandhögg var áberandi í hernaðartækni víkinga. Reyndu þeir að koma á óvart, ná miklum feng á skömmum tíma og hverfa svo á brott áður en heimamenn næðu að safna liði.

Stundum var orðið strandhögg notað um ránsfenginn sjálfan, til dæmis kvikfé sem rekið hafði verið til strandar og var yfirleitt slátrað þar, a.m.k. að hluta, og sett um borð í skipin sem vistir fyrir leiðangursmenn. Einnig gat verið um margs konar varning að ræða sem auðvelt var að flytja með sér og koma í verð. Á fyrri hluta víkingaaldar tóku þeir stundum fólk til að selja á þrælamörkuðum, bæði konur og karla.

Orðið er ennþá notað í íslensku, um athafnamenn eins og svokallaða útrásarvíkinga.[1][2]

  1. Jón Hilmar Jónsson, 'strandhögg', orðapistlar (Stofnun Árna Magnússonar, 2013), http://www.arnastofnun.is/page/ordpistlar_strandhogg Geymt 16 september 2016 í Wayback Machine.
  2. Guðni Thorlaicus Jóhannesson, The History of Iceland (Santa Barbara: Greenwood, 2013), p. 141; http://books.google.co.in/books?id=Elh1oH6ESSIC&.