Lögmaður Færeyja

Lögmaður Færeyja er æðsti handhafi framkvæmdavalds í Landsstjórn Færeyja. Hann er kosinn á fjögurra ára fresti af Færeyska lögþinginu, og leiðir landsstjórnina, sem er heimastjórn færeyja. Lögmaður Færeyja þarf að undirrita öll lög sem lögþingið setur. Núverandi lögmaður er Aksel V. Johannesen. Starf lögmanns eða lögsögumanns varð til fyrir árið 1000 en var lagt niður árið 1816 og tekið upp aftur í breyttri mynd 1948.

Saga breyta

Í Þingfararbálki Gulaþingslaganna norsku, en gera má ráð fyrir að færeysk lög hafi í upphafi verið sniðin að þeim eins og íslensku lögin, er kveðið á um að þing skuli velja sér lögsögumann. Í norsku lögunum sem samþykkt voru 1271 segir að þingið velji sér lögmann. Árið 1604 var þetta fyrirkomulag afnumið og eftir það var lögmaður skipaður af Danakonungi. Embætti lögmannsins hélst þó í grundvallaratriðum lítt breytt í margar aldir en heimildir frá fyrri öldum byggðar í Færeyjum eru mjög fátæklegar og lítið er vitað um embættið eða hverjir gegndu því allt fram á 16. öld.

Færeyjar höfðu eins og Ísland verið skattland Noregskonungs en eftir friðasamningana í Kiel, þar sem Danir misstu yfirráð yfir Noregi, héldu þeir eftir Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Þetta þýddi að staða Færeyja breyttist, þær urðu að amti í Danmörku og Danir aflögðu Lögþingið og lögmannsembættið 1816. Amtmaður tók við löggæslu, dómsmálum og kirkjumálum.

Lögþingið var svo endureist 1852 og frá 1923 var lögþingsformaður valinn af þingmönnum. Með heimastjórnarlögunum 1948 var staða lögmanns endurvakin í núverandi mynd.

Tengt efni breyta

Listi yfir lögmenn Færeyja

Tenglar breyta