Opna aðalvalmynd
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (21. janúar 18951. mars 1964) var íslenskur rithöfundur og skáld. Hann er kenndur við Fagraskóg á Galmaströnd í Eyjafirði. Hann er einna þekktastur fyrir ljóðabók sína Svartar fjaðrir og leikrit sitt Gullna hliðið.

Davíð var eitt vinsælasta ljóðskáld á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar.

ÆviágripBreyta

Davíð fæddist í Fagraskógi þann 21. janúar árið 1895. Foreldrar hans voru Stefán Baldvin Stefánsson bóndi og síðar alþingismaður og Ragnheiður Davíðsdóttir frá Hofi í Hörgárdal. Heimilið var þokkalega efnað.

Davíð lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1911. Hann frestaði því að fara í menntaskóla eftir að hafa veikst með fleiðrubólgu (pleuritis). Það getur oft verið undanfari berkla, lífshættulegrar bakteríusýkingar í lungum sem hrjáði marga á þessum árum. Hann lá á berklahælinu á Vífilsstöðum um tíma, en fékk þó ekki berklasýkingu.

Á árunum 19151916 dvaldist Davíð í Kaupmannahöfn. Þar stofnaði hann ásamt öðrum ungum Íslendingum ljóðafélagið Boðn. Hann kynntist Sigurði Nordal bókmenntafræðingi sem heillaðist af Davíð og fékk sjö af ljóðum hans birt í tímaritunum Eimreiðinni og Iðunni árin 1916 – 1919. Sum þeirra ljóða náðu miklum vinsældum.

Árið 1916 fékk Davíð inngöngu í Menntaskólann í Reykjavík. Veturinn 1917 – 1918 var nám lagt niður fyrir árganginn hans í sparnaðarskyni vegna heimstyrjaldarinnar og var Davíð því heima í Fagraskógi þann vetur. Veturinn 1918 – 1919 var Davíð formaður nemendafélags, nemendaembætti sem bar latneska titilinn inspector scholae. Hann veiktist af spænsku veikinni og lá rúmfastur nokkrar vikur. Hann lauk stúdentsprófi vorið 1919.

Veturinn 1919 – 1920 lærði Davíð heimspeki við Háskóla Íslands og starfaði meðfram því sem ritari á Alþingi. Rétt fyrir jólin 1919 kom fyrsta ljóðabók hans út, Svartar fjaðrir.

Við tóku nokkur ár á flakki. Hann ferðaðist til Kaupmannahafnar 1920, Ítalíu 1920 – 1921, og Noregs 1923 – 1924. Ljóðin í bókum hans Kvæði frá 1922 og Kveðjum frá 1924 eru mörg innblásin af ferðalögum hans.

Árið 1925 tók Davíð við föstu starfi sem bókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri og starfaði þar allt til 1951.

Líkt og margir listamenn þess tíma var Davíð nokkuð róttækur, allavega til að byrja með. Einar Olgeirsson, einn stofnenda Kommúnistaflokks Íslands, fékk Davíð til að koma með sendinefnd til Sovétríkjanna 1928, en Davíð mislíkaði það sem þar bar fyrir sjónir. Eftir þá ferð varð Davíð mun hægrisinnaðri.[1]

Árið 1955, á sextugsafmæli skáldsins, var Davíð gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi lést á Akureyri þann 1. mars árið 1964, þá 69 ára gamall. Hann er jarðaður á Möðruvöllum í Hörgárdal en þar hvíla einnig foreldrar hans og önnur ættmenni. Davíð var einbúi og giftist aldrei.

Svartar fjaðrirBreyta

Fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir, kom út haustið eftir útskrift Davíðs úr menntaskóla. Hann var þá 25 ára. Ljóðabókin sló í gegn og hlaut lofsamlega dóma.

Bókin varð gríðarlegra vinsæl meðal allra landsmanna, en hún höfðaði þó einkum til ungra kvenna. Ljóðin þóttu ofsafengin og tilfinningarík. Draumkenndur stíll hans var hrífandi, þótti losa um bældar langanir og vekja upp kynóra, þó efnið væri ekki af kynferðislegum toga). Ljóðin eru á hefðbundnu formi, þ.e. þau notast við stuðla, höfuðstafi, og rím. Textinn er aðgengilegur og frekar auðskiljanlegur. Davíð orti undir áhrifum nýrómantíkinnar.

RitverkBreyta

Ljóðabækur

 • Svartar fjaðrir, 1919
 • Kvæði, 1922
 • Kveðjur, 1924
 • Ný kvæði, 1929
 • Í byggðum, 1933
 • Að norðan, 1936
 • Ný kvæðabók, 1947
 • Ljóð frá liðnu sumri, 1956
 • Í dögun, 1960
 • Síðustu ljóð, 1966 (kom út að Davíð látnum)

Leikrit og skáldsögur:

 • Munkarnir á Möðruvöllum, 1926
 • Gullna hliðið, 1941. Leikritið er unnið upp úr þjóðsögunni „Sálin hans Jóns míns“. Kvæði hans, Sálin hans Jóns míns, sem kom út 1933 var þegar alþekkt.
 • Sólon Íslandus I-II, 1941 (Skáldsaga um Sölva Helgason).
 • Vopn guðanna, 1944
 • Landið gleymda, (frumsýnt árið 1953 en gefið út 1956).

LögBreyta

Samin hafa verið lög út frá mörgum af kvæðum Davíðs. Nokkur af þeim þekktustu eru:

 • Kvæðið um fuglana, lag sem hefst á orðunum „Snert hörpu mína, himinborna dís“. Lagið samdi Atli Heimir Sveinsson.
 • Brennið þið vitar, kórlag sem oft er sungið af karlakórum. Lagið samdi Páll Ísólfsson.
 • Til eru fræ í flutningi Hauks Morthens.

Rithöfundarverðlaunin DavíðspenninnBreyta

Félag íslenskra rithöfunda veitti frá 1991 – 1997 nær árlega rithöfundaverðlaunin Davíðspennann til minningar um Davíð, sem var einn af stofnendum félagsins 1945.

HeimildirBreyta

 • Ljóðasafn Davíðs Stefánssonar sem Vaka-Helgafell gaf út árið 1995

Tengt efniBreyta

TenglarBreyta