Brandenborg

eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands
(Endurbeint frá Braniborska)

Brandenborg (þýska: Brandenburg; neðri sorbneska: Bramborska; efri sorbneska: Braniborska) er fimmta stærsta sambandsland Þýskalands með rúmlega 29 þús km². Landið er í austurhluta Þýskalands og umlykur Berlín, sem er sjálfstætt sambandsland. Fyrir norðan er Mecklenborg-Vorpommern, fyrir norðvestan er Neðra-Saxland, fyrir vestan er Saxland-Anhalt og fyrir sunnan er Saxland. Auk þess nær Brandenborg að Póllandi að austan. Íbúar eru tiltölulega fáir, aðeins 2,5 milljónir talsins (2021). Margar ár og mikið votlendi eru einkennandi fyrir Brandenborg. Þar má helst nefna Saxelfi, Odru, Havel og Spree. Fyrir vestan borgina Cottbus er eitt stærsta votlendissvæði Þýskalands, Spreewald. Borgir eru fáar og ekki mjög stórar. Höfuðborgin er Potsdam.

Fáni Brandenborgar Skjaldarmerki Brandenborgar
Flagge von Bayern
Flagge von Bayern
Landeswappen Bayern
Upplýsingar
Opinbert tungumál: Þýska, sorbneska
Höfuðstaður: Potsdam
Flatarmál: 29.485,63 km²
Mannfjöldi: 2.500.000 (2021)
Þéttleiki byggðar: 83/km²
Vefsíða: brandenburg.de
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Dietmar Woidke (SPD)
Lega

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni Brandenborgar eru tvær láréttar rendur, rauð að ofan og hvít að neðan. Fyrir miðju er skjaldarmerkið, rauður örn á hvítum fleti. Örninn er tákn markarinnar (markgreifadæmisins Brandenborgar) og á uppruna sinn á 12. öld.

Orðsifjar

breyta

Brandenburg hét áður Brandanburg og Brendanburg. Ekki er með öllu ljóst hvaðan heitið á uppruna sinn, en líklegt þykir að það sé dregið af sögninni að brenna (á þýsku: brennen eða Brand). Upphaf Brandenborgar er landnám Þjóðverja á 12. öld og þurftu þeir oftar en ekki að ryðja skóga. Við það ferli var oft notaður eldur. [1]

Söguágrip

breyta

Árið 929 lagði Hinrik I. keisari svæðið undir sig og gerði slava skattskylda sér. Nokkrir bæir mynduðust við það. En í slavauppreisninni miklu 983 náðu slavar að endurheimta allt sitt land á ný og myndaði fljótið Saxelfur náttúruleg landamæri milli Þjóðverja og slava. Þegar slavafurstinn Pribislaw dó barnlaus 1150, ánafnaði hann Þjóðverjanum Albrecht der Bär (Albrecht björn) allt landið. Albrecht varð þó að berjast gegn nokkrum slavneskum erfingjum, en 1157 náði hann að vinna landið. Þetta markar stofnun markgreifadæmisins Brandenborgar. Þýskt landnám hefst á ný og borgir eins Berlín myndast í kjölfarið. Margir slavar urðu þó eftir í landinu, aðallega vindar og sorbar. Afkomendur sorba eru enn til í dag og búa þeir suðaustast í Brandenborg og norðaustast í Saxlandi. Talið er að 20-30 þús manns á þessu svæði tali sorbnesku í dag, en tungumálið er verndað. Helstu valdaættir í Brandenborg urðu Askanier-ættin, en hún dó út 1320, og Hohenzollern-ættin. Eftir 30 ára stríðið lá landið í rústum. Á 17. öld sameinaðist markgreifadæmið Brandenborg og hertogadæmið Prússland. Úr því varð kjörfurstadæmi, þ.e. kjörfurstinn átti rétt á að mæta á furstafund og velja nýjan þýskan konung. Prússland varð að konungsríki 1701 og brátt varð það að stórveldi í Evrópu. Prússland barðist gegn Napoleon, en mátti síns lítils. Eftir fall Napoleons þandist Prússland út í vestur, en einnig í austur. 1871 varð Prússland að keisararíki og hélst það allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri, er keisarinn afþakkaði og fór í útlegð. Við lok heimstyrjaldarinnar síðari var Berlín og Brandenborg skipt upp í tvö svæði. Brandenborg varð hluti af hernámssvæði Sovétmanna, en Berlín var skipt upp í fjögur hernámssvæði. 1949 varð Brandenborg hluti af nýstofnuðu Alþýðulýðveldi Þýskalands, ásamt Austur-Berlín. 1952 var Brandenborg skipt upp i þrjú héröð (Cottbus, Frankfurt a.d. Oder og Potsdam). En við sameiningu Þýskalands 1990 var skiptingin tekin til baka og Brandenborg varð til á ný. 1996 fór fram atkvæðagreiðsla í Brandenborg og í Berlín þess eðlis að sameina þessi tvö sambandslönd. Berlín samþykkti, en Brandenborg hafnaði. Tillagan var því felld.

Borgir

breyta
Röð Borg Íbúar Ath.
1 Potsdam 152 þús Höfuðborg Brandenborgar
2 Cottbus 101 þús
3 Brandenburg an der Havel 72 þús
4 Frankfurt an der Oder 61 þús
5 Eberswalde 41 þús
6 Oranienburg 41 þús

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland, Duden, 1993, bls. 61.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Brandenburg“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.