Ante Pavelić
Ante Pavelić (14. júlí 1889 – 28. desember 1959) var króatískur stjórnmálamaður og einræðisherra sem stofnaði og leiddi fasísku öfgaþjóðernishreyfinguna Ustasja árið 1929. Frá 1941 til 1945 var Pavelić leiðtogi „sjálfstæða ríkisins Króatíu“ (króatíska: Nezavisna Država Hrvatska eða NDH), fasísks leppríkis sem Þjóðverjar og Ítalir stofnsettu á hernámssvæðum sínum í Júgóslavíu. Pavelić og Ustasja stóðu fyrir ofsóknum á minnihlutahópum og andófsmönnum á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, meðal annars á Serbum, Gyðingum, Rómafólki og andfasistum.
Ante Pavelić | |
---|---|
Poglavnik Króatíu | |
Í embætti 10. apríl 1941 – 8. maí 1945 | |
Þjóðhöfðingi | Tomislav 2. (1941–1943) |
Forsætisráðherra | Hann sjálfur (1941–1943) Nikola Mandić (1943–1945) |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Embætti lagt niður |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. júlí 1889 Bradina, Konjic, Bosníu-Hersegóvínu, Austurríki-Ungverjalandi |
Látinn | 28. desember 1959 (70 ára) Madríd, Spáni |
Þjóðerni | Króatískur |
Stjórnmálaflokkur | Ustasja |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Háskóli | Háskólinn í Zagreb |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaÆska og menntun
breytaAnte Pavelić fæddist árið 1889 í bænum Bradina í Bosníu-Hersegóvínu, sem var þá undir yfirráðum Austurríki-Ungverjalands en varð hluti af Konungsríkinu Júgóslavíu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann nam lögfræði á unga árum og varð snemma virkur í hægrisinnuðum þjóðernishreyfingum Króata. Árið 1912 lá Pavelić undir grun sem þátttakandi í mislukkuðu morðtilræði gegn Slavko Cuvaj, varakonungi Austurríkiskeisara í Króatíu-Slavóníu. Árið 1929 stofnaði Pavelić hryðjuverkasamtökin Ustasja, sem unnu með makedónsku sjálfstæðissamtökunum VMRO við að skipuleggja morðið á Alexander 1. Júgóslavíukonungi í Marseille í Frakklandi þann 9. október árið 1934.
Pavelić neyddist til að flýja í útlegð frá Júgóslavíu og hlaut hæli í skjóli fasískrar einræðisstjórnar Benito Mussolini á Ítalíu. Mussolini leit á samstarf við Pavelić sem tækifæri til að veikja Júgóslavíu og bauðst til þess að veita meðlimum Ustasja herþjálfun í þjálfunarbúðum í Brescia og Borgo Val di Taro.[1]
Einræðisherra sjálfstæða ríkisins Króatíu
breytaEftir að Öxulveldin réðust inn í Júgóslavíu í apríl árið 1941 og Júgóslavía neyddist til að gefast upp sá Pavelić sér leik á borði. Í útvarpsyfirlýsingu frá Ítalíu hvatti hann króatíska hermenn til þess að gera uppreisn og berjast sér við hlið „gegn Serbunum“. Hann sneri síðan aftur til Króatíu og var þar, með stuðningi Mussolini, útnefndur af ráðamönnum nasista sem einræðisherra hins nýja „sjálfstæða ríkis Króatíu“, sem var (þrátt fyrir nafnið) leppríki Þjóðverja og Ítala. Pavelić tók sér titilinn Poglavnik, sem merkir „foringinn“ líkt og titlar Mussolini og Hitlers (il Duce og der Führer). Sjálfstæða ríkið Króatía var til á styrjaldarárunum frá 1941 til 1945 og Pavelić var fyrsti og eini leiðtogi þess. Stjórnarár Pavelićs einkenndust af fasísku og kaþólsku klerkaræði og kerfisbundnum kynþáttaofsóknum gegn Serbum og Gyðingum, sem voru útmálaðir sem „kynfjendur“. Stjórn Pavelićs starfaði hins vegar með Bosníumönnum, sem margir hverjir töldu útrýmingu Serba og Gyðinga af svæðinu þjóna hagsmunum sínum, og viðurkenndi þá sem hluta af króatíska ríkinu. Meðal annars var reynt að höfða til þeirra með byggingu mosku í höfuðborginni og leyfa þeim að starfa í sérstakri deild innan Waffen-SS, Handschar.
Pavelić fylgdi fordæmi þýskra nasista og kom upp stórtækri áróðursmaskínu í kringum sjálfan sig og stjórn sína. Í áróðurskvikmyndum var Pavelić sýndur í hetjulegu ljósi og talað var fyrir rasískri og andserbneskri hugmyndafræði hans. Áróðursmyndir stjórnar hans þóttu þó ekki eins vel leikstýrðar eða eins fínpússaðar og þær sem gerðar voru í Þýskalandi eða Ítalíu.[2][3][4]
Pavelić fundaði nokkrum sinnum með Adolf Hitler og Mussolini og skipulagði nokkra opinbera viðburði með þeim til þess að leggja áherslu á gott samstarf einræðisríkjanna. Viðburðirnir voru einnig ætlaðir í áróðursskyni til að leggja áherslu á mikilvægi Króatíu innan Öxulveldanna. Mikið hefur verið deilt um samband Vatíkansins við Króatíustjórn Pavelićs.[5] Pavelić hlaut áheyrn hjá Píusi 12. páfa í Róm þann 18. maí árið 1941 en Píus fékkst ekki til að viðurkenna opinberlega stjórn Pavelićs líkt og Pavelić hafði vonast eftir.[6]
Sem foringi Ustasja tók Pavelić virkan þátt í framkvæmd helfararinnar með kerfisbundnum fjöldamorðum stjórnar hans á Gyðingum og Rómafólki. Pavelić stóð einnig að eigin frumkvæði fyrir fjöldamorðum á Serbum innan Sjálfstæða ríkisins Króatíu. Opinber áætlun stjórnar hans var að drepa þriðjung Serbanna, hrekja þriðjung þeirra úr landi og neyða þriðjung til að taka upp kaþólska trú í stað kristins rétttrúnaðar. Auk „kynfjenda“ stjórnarinnar voru margir pólitískir andstæðingar Pavelićs teknir af lífi, meðal annars sósíalískir eða veraldarsinnaðir Króatar. Þessir andstæðingar voru fangelsaðir og myrtir að skipan Pavelićs. Aðrir voru notaðir í nauðungarvinnu í fangabúðum eins og Jasenovac-búðunum, þar sem þeir sem ekki voru líflátnir voru látnir vinna erfiðisvinnu þar til þeir hnigu niður dauðir.
Á stjórnartíð Pavelićs voru um 100.000 Serbar og Gyðingar myrtir og þúsundir til viðbótar (Serbar, Gyðingar og Rómafólk) sættu pyndingum eða létust á annan hátt. Þetta er talið mannskæðasta tímabilið í sögu Júgóslavíu.[7][8][9]
Eftir seinni heimsstyrjöldina
breytaUndir lok seinni heimsstyrjaldarinnar tókst Pavelić að forðast handtöku. Þegar hersveitum andfasískra andspyrnumanna undir forystu Josips Broz Tító tókst að frelsa Júgóslavíu flúði Pavelić land ásamt fleiri liðsmönnum Ustasja. Yfirvöld Júgóslavíu réttuðu yfir honum án viðveru hans og dæmdu hann til dauða fyrir hlutverk hans í helförinni. Pavelić mútaði sér leið í gegnum ýmis Evrópuríki með fjármunum sem hann hafði haft af fórnarlömbum sínum á stjórnartíð sinni. Hann kom í dulargervi til Rómar og fékk hæli hjá Vatíkaninu.[10]
Pavelić flúði til Argentínu árið 1948, þegar of varasamt var orðið að felast í Evrópu. Talið er að tugþúsundir Króata sem börðust með nasistum hafi flúið þangað og hlotið hæli hjá ríkisstjórn Juans Perón.[11][12] Pavelić stofnaði eins konar leynilega útlagastjórn með sjálfan sig sem foringja og fyrrum undirritarann og fjöldamorðingjann Vjekoslav Vrančić sem næstráðanda sinn. Pavelić átti í nánum samskiptum við aðra landflótta stríðsglæpamenn og stýrði um hríð tengslaneti gamalla Ustasja-liða sem vonuðust til þess að beita hryðjuverkum til að fella nýja stjórn Títós í Júgóslavíu. Sumir þeirra yfirgáfu Pavelić og stofnuðu eigin Ustasja-hópa.
Þann 10. apríl árið 1957 varð Pavelić fyrir nokkrum byssuskotum þegar Serbi að nafni Blagoje Jovović reyndi að ráða hann af dögum í hefndarskyni fyrir þjóð sína. Pavelić lifði af morðtilræðið og flutti frá Argentínu til Spánar. Þar lést hann þann 28. desember árið 1959 vegna kvilla sem tengdust skotsárunum. Hann var grafinn í San Isidro-kirkjugarðinum í Madríd.
Einkahagir
breytaAnte Pavelić og eiginkona hans, Marija Lovrenčević (1897–1984), áttu þrjú börn: Velimir Pavelić, Višnja Pavelić og Mirjana Pavelić Pšeničik. Dætur þeirra fengu króatískan ríkisborgararétt eftir sjálfstæði Króatíu. Eignum Pavelić í Zagreb sem kommúnistastjórn Títós tók eignarhaldi var skilað til þeirra.[13]
Tilvísanir
breyta- ↑ Pavlowitch, Stevan K. (2008). Hitler's New Disorder: The Second World War in Yugoslavia. Columbia University Press. ISBN 978-0-231-70050-4.
- ↑ Mario Jareb, 'Mediji i promidžba u Nezavisnoj Državi Hrvatskoj', Zagreb 2016
- ↑ Visions of Annihilation, Rory Yeomans
- ↑ Cinema and the Swastika: The International Expansion of Third Reich Cinema, Roel Vande Winkel, D. Welch
- ↑ Gilbert; The Holocaust - The Jewish Tragedy; Collins: London, 1986
- ↑ Matković, Hrvoje (2002). Povijest Nezavisne Države Hrvatske (króatíska). Naklada Pavičić. bls. 26. ISBN 978-953-6308-39-2.
- ↑ Barry Lituchy: Jasenovac and the Holocaust in Yugoslavia
- ↑ Rory Yeomans: Visions of Annihilation
- ↑ Robert McCormick: Croatia Under Ante Pavelic - America, the Ustase and Croatian Genocide in World War II. ISBN 978-1780767123, ISBN 1780767129
- ↑ Ramet, Sabrina P. (2006). The Three Yugoslavias: State-Building and Legitimation, 1918–2005. Bloomington: Indiana University Press. ISBN 978-0-253-34656-8.
- ↑ Croatia Under Ante Pavelic: America, the Ustase and Croatian Genocide in World War II, Robert B McCormick, Bloomsbury Publishing, 2014
- ↑ The Real Odessa: How Peron Brought The Nazi War Criminals To Argentina, Goni, Granta Books, 2015
- ↑ Index.hr