Þorgeir Þorgeirson

(Endurbeint frá Þorgeir Þorgeirsson)

Þorgeir Þorgeirson (30. apríl 193330. október 2003) var íslenskur rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður. Hann er einna þekktastur fyrir að hafa þýtt Alexis Sorbas eftir Nikos Kazantzakis og margar bóka William Heinesen á íslensku. Hann er einnig þekktur fyrir greinaskrif sín og baráttu sína við íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem knúðu fram breytingar á meiðyrðalöggjöfinni. Frægar urðu einnig síðari deilur hans við íslenska ríkið, um réttinn á að skrifa eftirnafn sitt, Þorgeirson, með einu s-i, og fá það þannig skráð í Þjóðskrá. [1]

Þorgeir Þorgeirson
Þorgeir Þorgeirson við störf í Litla bíói 1966. Ljósm. Alþýðublaðið.
Fæddur
Þorgeir Þorgeirsson

30. apríl 1933(1933-04-30)
Dáinn30. október 2003 (70 ára)
StörfRithöfundur, kvikmyndagerðarmaður, þýðandi og baráttumaður
MakiVilborg Dagbjartsdóttir

Þorgeiri hefur verið lýst sem brautryðjanda í kvikmyndagerð, brautryðjanda í gagnrýnni hugsun og vandræðaskáldi. Sjálfur sagðist hann vera „próflausasti bóhem þessa lands“ og „alþýðuhöfundur að því leytinu til.[2] Þorgeir hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2000 fyrir „framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar og kvikmyndamenningar.“ Eiginkona Þorgeirs var Vilborg Dagbjartsdóttir, rithöfundur.

Æviágrip, mótunarár

breyta

Bernska

breyta

Þorgeir fæddist í Hafnarfirði en ólst upp á Siglufirði til átta ára aldurs. Foreldrar hans voru farandverkafólk, móðir að norðan og faðir frá Hafnarfirði. Þorgeir missti föður sinn tveggja ára gamall. Frá Siglufirði fluttu þau mæðgin í Kópavog og segir Þorgeir að þar hafi þau búið í sumarbústað. Þau bjuggu í Kópavogi í þrjú ár „og þá fór ég að heiman, ellefu ára gamall, og hef verið á eigin vegum síðan,“ sagði Þorgeir.[3]

Unglingsár

breyta

Hann þreytti landspróf í Reykjavík og gekk að því loknu í Menntaskólannn í Reykjavík. Um þann tíma sagði hann: „Mér leið aldrei vel í menntaskóla. Né öðrum menntastofnunum síðar. Maður sem hafði náð landsprófi gat hins vegar ekki látið það vera að fara í menntaskóla. Það var engin leið til baka.“ Hann sagði menntaskólann hafa verið yfirstéttarstofnun: „Það var ekkert sniðugt fyrir svona landshornaflakkara eins og mig að vera innan um alla þessa yfirstéttarkrakka. Þar leið mér alveg herfilega illa.“ [3] Þorgeir brautskráðist stúdent árið 1953.

Vínarborg

breyta

Eftir menntaskóla vann Þorgeir sumarlagt á Keflavíkurflugvelli, langaði að ferðast og leist svo á, ásamt félögum sínum, Ingva Matthíasi Árnasyni og Jökli Jakbossyni að gott væri að dvelja í Vínarborg. Þar var fyrir Þorvarður Helgason kunningi þeirra. „Við vorum bóhemar – slugsarar og brandarakarlar“ sagði Þorgeir um þann tíma.[3] „Borgin helltist yfir mann eins og persónulegt áfall,“ sagði hann um dvölina: „Þar sá ég fyrst stríðsrústir, fótalausa betlara á gangstéttunum og praktíserandi götudrósir.“ Þetta var á þeim tíma er Vínarborg var hersetin eftir seinna stríð. Þorgeir kynntist þar jafnöldrum sem hneigðust, eða voru taldir hneigjast, til existensíalisma.[2] Hann nam þýskar bókmenntir, listasögu og sálfræði við Vínarháskóla en sagði leikhúsin hafa haft meira aðdráttarafl.[3]

Fótgangandi til Parísar

breyta

Eftir einn vetur í Vínarborg hélt Þorgeir til Íslands og starfaði sumarlangt í Landsbankanum. Þegar hann sneri aftur til Vínar var „helvítis kuldi“ í borginni. Hann segist hafa fundið „splunkunýtt myndablað með myndum af gangstéttakaffihúsunum í París“ og ákveðið að flytja. Frá Vínarborg hélt Þorgeir til Parísar fótgangandi, um miðjan vetur.[3]

Þorgeir þvældist um Evrópu eins og foreldrar hans áður um Ísland, dvaldi á Spáni árið 1954, bæði Madrid og Valencia, þar sem hann vann fyrir sér sem „atvinnuskákmaður“ með því að tefla við drukkna menn á krám.[3] Eftir viðkomu í Barcelona sneri Þorgeir aftur til Parísar, fótgangandi á nýjan leik. Hann dvaldist í París frá 1955 til 1957 þar sem hann fékk „kvikmyndaveikina“ að eigin sögn: „París er í mínum huga fyrst og fremst kvikmyndasafnið, Musée du Cinema, í Rue d'Ulm. Þrjár sýningar daglega gat maður alveg séð. Jafnvel vikunum saman.“[2] Þorgeir sótti tveggja vetra námskeið í kvikmyndagerð hjá franska Sjónvarpinu á þessum tíma.[3]

Flóttamaður í Tékkóslóvakíu

breyta

1957 til 1958 dvaldist Þorgeir á nýjan leik á Íslandi og sótti þaðan um námsvist í kvikmyndaskólanum FAMU, sem tilheyrir listaakademíunni í Prag. Ekki leit þó út fyrir að hann kæmist til námsins því „í ráðuneytinu voru menn ekki sérlega spenntir fyrir því að senda svona fulltrúa þjóðarinnar út í lönd á opinberum styrk.“[3] Sumarið 1959 fór Þorgeir hins vegar sem fararstjóri hóps til þátttöku á móti í Vínarborg, „hoppaði svo af eins og sagt er og komst sem pólitískur flóttamaður inn í Tékkóslóvakíu.“ Þorgeir segist hafa fengið námsvist sem slíkur. „Þar var ég drifinn í tékkneskunám og síðan tók ég inntökupróf í akademíuna og var þar á þriðja ár.“[3]

Frá 1959 til 1962 nam Þorgeir kvikmyndastjórn við FAMU, listaakademíuna í Prag. Hann var þar með fyrsti Íslendingurinn til að læra kvikmyndagerð sem faggrein. Að náminu loknu, árið 1967, gerði Þorgeir kvikmyndina Maður og verksmiðja í anda evrópsku framúrstefnunnar, sem var frumsýnd árið 1968.

Störf að kvikmyndum

breyta

Árið 1967 kvikmyndaði Þorgeir verkið sem hann frumsýndi árið 1968 sem Maður og verksmiðja. Er þetta eina kvikmyndaverkið eftir Þorgeir sem hann heimilaði sýningar á, þegar fram liðu stundir. Myndin er tíu mínútna löng og ein af fimm „smámyndum“ sem Þorgeir gerði á eigin vegum. Hinar sagði hann „bæklaðar af kringumstæðunum“.[3] Með því átti hann trúlega við fjárveitingar, meðal annars. „Mín evrópska lína passaði aldrei hér í stórveldi íslenskrar kvikmyndamenningar,“ sagði hann einnig.[3]

Þorgeir starfaði við kvikmyndagerð frá 1962 til 1972 og vann á því tímabili einnig að myndum fyrir fyrirtæki og stofnanir. Árið 1964 leitaði til dæmis embætti skipaskoðunarstjóra til Þorgeirs og kvikmyndafélags hans sem hét Geysir um gerð myndar um meðferð gúmmíbjörgunarbáta. Þorgeir gerði myndina og var skráður höfundur hennar. Þetta var áður en sjónvarpsstöð var rekin á Íslandi. Frá og með árinu 1966 var myndin sýnd árlega á RÚV án þess að Þorgeir fengi höfundargreiðslur fyrir sýningarnar. Kröfum hans um slíkt var hafnað, fyrst munnlega síðan formlega árið 1979. Undir árslok 1981 stefndi Þorgeir ríkissjónvarpinu og gerði kröfu um greiðslu út frá samningi Félags kvikmyndagerðarmanna og RÚV um lágmarksmínútugjald. Þorgeir tapaði málinu fyrir héraði en áfrýjaði til Hæstaréttar þar sem dæmt var honum í vil og fallist á allar kröfur.[4]

Þorgeir hóf síðar vinnu að heimildamynd um togarasjómennsku fyrir Sjávarútvegsráðuneytið. Þegar Þorgeir reyndist ekki hafa valið nýtískulegasta togarann og geðprúðustu sjómennina til umfjöllunarefnis var fjármögnun myndarinnar stöðvuð af Lúðvík Jópsessyni, þáverandi ráðherra.

Árið 1968 stofnaði Þorgeir kvikmyndahúsið Litla Bíó. Það hafði fyrst um sinn sýningaraðstöðu að Hverfisgötu 44. Þar voru sýndar myndir Þorgeirs sjálfs, þar á meðal Maður og verksmiðja; klassískar kvikmyndir frá Frakklandi og Rússlandi og nýlegar kvikmyndir frá Tékklandi. Í upphafi árs 1969 var starfsemi Litla Bíós flutt í Norræna húsið þar sem það var starfrkækt til ársins 1970, þegar Háskólabíó hóf vikulegar sýningar á listrænum kvikmyndum og Þorgeir taldi sig því hafa náð markmiði sínu.[5]

Þorgeir skrifaði alla tíð nokkuð um kvikmyndir en eftir 1972 hann sér fyrst og fremst að ritstörfum.

Ritstörf

breyta

Þorgeir fékkst, ásamt kvikmyndagerð, við ritstörf, þýðingar og leikstjórn í útvarpi.

Meðal ritverka hans eru þrjár skáldsögur. Þeirra þekktust varð Yfirvaldið, sem kom út 1973. Hana skrifaði Þorgeir upp úr verki sem hann ætlaði upphaflega að verða kvikmynd. [3] Bókin var byggð á heimildum um síðustu aftökuna á Íslandi, í janúar 1830, þegar tekin voru af lífi Agnes Magnúsdóttir vinnukona og Friðrik Sigurðsson fyrir morð á tveimur mönnum, Natan Ketilssyni og Pétri Jónassyni.

Skáldsögurnar komu út á árabilinu 1973 til 1976. Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki haldið áfram á sömu braut svaraði Þorgeir að hann teldi sig „einmitt hafa haldið áfram á þessari sömu huldumannsbraut – en með töfum að vísu.“ Helstu skáldsögur færeyska höfundarins Williams Heinesen komu út í íslenskri þýðingu Þorgeirs frá 1980 til 1987. Sagðist Þorgeir hafa tekið til við að þýða skáldsögur Heinesens meðal annars til að temja sér „mýkri“ stíl en hann hefði sjálfur skrifað fram að því. „Þetta var orðið eins og fjandsamlegt hríðskotabyssugelt. Ég þurfti að læra að skrifa lengri setningar í bland. Mýkja stílinn hjá mér.“[2]

„Á miðju þessu æfingatímabili lenti ég líka í útistöðum við ríkisvaldið um rétt minn til að skrifa um veruleikann,“ sagði Þorgeir og vísar þar til ákæru á hendur honum vegna greinaskrifa um lögregluofbeldi árið 1983.

1988 stofnaði Þorgeir útgáfuna Leshús sem gaf út nokkurn fjölda rita hans þaðan í frá. Fjórum árum síðar sagði hann í viðtali: „það hefur verið mín fanatík að gera tilraunina þannig að hún verði algjör andstæða við það sem er í gangi. Fólk hefur nánast þurft að ryðjast inn á mig með ofbeldi til að fá keypta bók.“ Kaupendur skráði Þorgeir á lista og sagðist þannig byggja Leshús upp „eins og hálfgerða neðanjarðarútgáfu.“[6]

Þorgeir hélt áfram gagnrýni sinni á yfirvöld þann áratug sem mál hans vegna skrifanna 1983 voru til meðferðar fyrir dómstólum. 1988 skrifar hann grein um hliðstæð mál, það er lögregluofbeldi, í Morgunblaðið, þar sem segir meðal annars: „Geðþóttavaldssamfélagið er fjarskalega auðþekt á því að hvenær sem einhver nefnir ábyrgð eða skyldu í návist yfirvaldanna þá líður valdapersónan settlega útí tómið eins og gufustrókur.“[7]

Árið 1994 gaf Þorgeir út sex smárit á vegum forlags síns, Leshús. Voru þau „samantekt á nýlegum blaðagreinum og bréfaskrifum höfundarins um náskyld efni, sem farið hafa á dreif í birtingu. Hér er þetta í samhengi ásamt lokaorðum, sem tengja þættina betur í rétt skapaða heild.“ Innihald smáritanna var samfélagsgagnrýni. Sagði í umfjöllun Morgunblaðsins að „hann stingur hér á raunverulegum graftrakýlum íslensks þjóðfélags.“ [8]

Mannréttindabarátta

breyta

Þorgeir Þorgeirson gegn Íslandi

breyta

Um málið má lesa nánar í færslunni um Þorgeir Þorgeirson gegn íslenska ríkinu.

 
Greinin „Hugum nú að“ í Morgunblaðinu 7. desember 1983. Sú fyrri tveggja greina Þorgeirs Þorgeirsonar um lögregluofbeldi sem hann var kærður og dæmdur fyrir.

Þorgeir var dæmdur í Hæstarétti árið 1987 fyrir greinaskrif um lögregluna í Morgunblaðið árið 1983. Dæmt var á grundvelli 108. gr. hegningarlaga, sem þá meinaði fólki að segja satt um opinbera embættismenn, væri það gert „ótilhlýðilega“. Í greinunum hafði Þorgeir reifað frásagnir fólks af atvikum þar sem lögreglan beitti tilhæfulausu ofbeldi í starfi sínu svo menn hlutu líkamstjón af, jafnvel örkuml. Hann var kærður og dæmdur í nokkrum liðum, meðal annars fyrir orðalag á við „einkenniskædd villidýr“ og „lögregluhrottar“. [9] Þorgeir kærði dómsúrskurðinn til Mannréttindadómstóls Evrópu árið 1988 sem brot á ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Þorgeir var fyrstur ólöglærðra manna til að flytja mál sitt sjálfur fyrir dómstólnum og fyrstur Íslendinga til að höfða þar mál. Árið 1992 felldi dómurinn úrskurð Þorgeiri í hag og sagði að með 108. grein hegningarlaga bryti íslenska ríkið á 10. grein mannréttindasáttmálans, um tjáningarfrelsi. Dómurinn hafði gríðarleg áhrif á íslenskt réttarfar.

Um áhrif málsins á afkomu sína sagði Þorgeir: „Þar var dómstólum og fleiri apparötum ríkisins beitt gegn mér með þeim hætti að ég varð stórlega vafasöm persóna. Mér þótti þetta sniðugt í upphafi. Það er ekkert verra að vera vafasöm persóna en góður pappír. Hins vegar segja útgefendur mér, sumir undir rós og aðrir beint, að þetta megi ekki koma fyrir rithöfund vegna þess hvernig bókamarkaðurinn er í laginu. Þeir segja að 9 bækur af hverjum 10 séu keyptar til gjafa. Enginn gefur t.d. konfektkassa í jólagjöf ef á honum stendur að innihaldið sé vafasamt. Þeir spáðu mér því að ég myndi missa 9/10 af minni sölu. Þegar ég fór að gefa út sjálfur sá ég að þetta var ekki fjarri lagi.“ [3] Þorgeir sagðist því hafa ákveðið að einbeita sér að sölu bóka til bókasafna, ásamt tryggum kjarnahópi lesenda. Um áhrif málaferlanna á geðheilsu sína og líðan að öðru leyti skrifaði hann meðal annars í erindinu „Búðarlokusamfélag og réttvísi“ sem birtist í ádeiluritinu Að gefnu tilefni.

Deila um ritun föðurnafns

breyta

Árið 1985 tók Þorgeir að skrifa föðurnafn sitt með einu s-i, Þorgeirson, í stað Þorgeirsson áður. Hann tilkynnti Þjóðskrá um þessa breytingu en henni var hafnað af stofnuninni þar sem hún þótti ekki samræmast íslenskri málhefð. Þó hafði Þorgeir árið 1990, ári áður en lög um mannanöfn tóku gildi, fengið vegabréf með föðurnafninu Þorgeirson. Þegar hann framvísaði því vegabréfi í kosningum til Alþingis, 1995, fannst nafnið ekki á kjörskrá. Úr varð að Þorgeir kaus ekki og sagði af því tilefni: „Þessir málfarsfasistar höfðu af mér kosningaréttinn því ég framvísaði löglegu vegabréfi með mínu rétta nafni.“ Þorgeir taldi yfirráð stofnana yfir mannanöfnum vera stjórnarskrárbrot og brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann lýsti merkingu málsins í eigin huga meðal annars sem svo að eignarfallið sé arfur frá tímum þærlahalds „þegar ein persóna átti aðra. Ég vil breyta því en vil hins vegar ekki eyðileggja nafnahefðina.“[10]

Önnur störf

breyta

Samhliða öðru stundaði Þorgeir leiðsögustörf hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Kennari var hann við Leiklistarskóla SÁL árin 1973 til 1976.

Höfundarverk Þorgeirs

breyta

Skáldsögur

breyta
  • Yfirvaldið: skáldsaga eftir bestu heimildum og skilríkjum, Iðunn 1973
  • Kvunndagsfólk, skáldsaga, Iðunn 1974
  • Einleikur á glansmynd, skáldsaga, Iðunn 1976

Kvikmyndir og kvikmyndað efni

breyta
  • Maður og verksmiðja, ljóðræn heimildamynd, svarthvit, 1968. 10 mín. VHS-útgáfa: Leshús, 1987.
  • „Sumarnótt: uppkast að kvikmyndahandriti“ Tímarit Máls og menningar 1961, 4. hefti, s. 269–299
  • Samræða um kvikmyndir: Þorgeir Þorgeirson heiðursverðlaunahafi íslensku kvikmyndaakademíunnar árið 2000 ræðir um kvikmyndagerð, eigin feril og sparifataþjóðina, myndband, 48 mín, höfundar: Ari Halldórsson og Hákon Már Oddsson. Texti viðtalsins er skráður á Leshúsi Þorgeirs: http://www.centrum.is/leshus/kvikmyndir.htm#tm Geymt 20 janúar 2012 í Wayback Machine

Ljóðabækur

breyta
  • Eybúa saga: ljóð Leshús 1988
  • 70 kvæði (1958–1959), Leshús 1989.
  • 9563–3005: ljóð og ljóðaþýðingar, Iðunn 1971
  • 9563–3005-I: ljóð og ljóðaþýðingar, Reykjavík 1975
  • 9563–3005-II: ljóð og ljóðaþýðingar, Reykjavík 1975
  • Sjö sonnettur, Leshús 1995

Greinasöfn og aðrar bækur

breyta
  • Kvikmyndasafnið í París og áhrif þess: upprifjun í tilefni af stofnun íslenzks kvikmyndasafns, 1968
  • Sjónvarpstíðindi 1970, kom út hálfsmánaðarlega í þrjá mánuði 1970, alls 6 hefti
  • Það er eitthvað sem enginn veit: Endurminningar Líneyjar Jóhannesdóttur frá Laxamýri, Iðunn 1975
  • Uml: nokkrar smágreinar um dægurmál, greinasafn, Iðunn 1977
  • Ja – þessi heimur: veraldarsaga og reisubók Péturs Karlssonar Kidson, Reykjavík 1984
  • Kvunndagsljóð og kyndugar vísur, Reykjavík 1986
  • Að gefnu tilefni: deilurit, 2. útg. Leshús 1989
  • Uml II: ritgerðir, Leshús 1990
  • Þorgeirs mál Þorgeirsonar: Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu; Álitsgerð Mannréttindanefndar Evrópu; Dómar Hæstaréttar Íslands og Sakadóms Reykjavíkur, Reykjavík 1992
  • Hnefaréttur og tjáningarfrelsi: Ritgerð Leshús 1995
  • Kónsbænadagsbréfið: (og fleiri punktar um höfundarrétt), Leshús 1995
  • Uml III vefbók, Leshús 1998: http://www.centrum.is/leshus/leshus_003.htm#uml3 Geymt 20 janúar 2012 í Wayback Machine
  • Hux vefbók, Leshús 2000–2002: http://www.centrum.is/leshus/hux.htm Geymt 20 janúar 2012 í Wayback Machine

Leikrit

breyta
  • Börn dauðans: 6 þættir, óútgefið leikhandrit
  • Smalastúlkan og útlagarnir, með Sigurði málara Guðmundssyni (1833–1874), Iðunn 1980
  • * 4 leikrit úr réttarsögunni, útvarpsleikrit á hljóðbók, 2. útg., Leshús 1996 (fyrst flutt í Ríkisútvarpinu 1969):
  • * * Böðullinn
  • * * Refurinn
  • * * Dómarinn
  • * * Vitnið
  • * Ódauðleiki: tilbrigði fyrir útvarp, óútgefið
  • Smalastúlkan og útagarnir: leikgerð á leikriti Sigurðar málara Guðmundssonar (1833-1874), Þjóðleikhúsið 1980
  • Sú veikari: (tilbrigði við 'Hina sterkari' eftir Strindberg), Alþýðuleikhúsið 1986, útg.: Leshús 1995
  • Þrymseyarstelpurnar: leikrit úr skáldskaparheimi Williams Heinesens, óútgefið handrit að útvarpsleikriti, 1991

Valdar greinar

breyta
  • „Íslensk menning í spennitreyju“ ræða á málfundi sósíalista 18. mars 1966, birtist í Helgafelli, 7. hefti 1966
  • „Yngsta grein listanna“, Tímarit Máls og menningar 1964, 2. hefti, s. 124–127
  • „Að eiga hvergi heima“ Tímarit Máls og menningar 1978, 4. hefti, s. 39
  • „Teorema: ræða flutt við frumsýningu á Teorema eftir Pasolini“, Tímarit Máls og menningar 1970, 2. hefti, s. 179–181
  • „Prestarnir í hórumanginu: ræða um vandamál rithöfundarins“ flutt á bókaviku 1981, Tímarit Máls og menningar 1981, 3. hefti s. 294–298
  • „List er það líka og vinna“, Tímarit Máls og menningar 1982, 1. hefti, s. 104–109
  • „Ímynd Íslands í kvikmyndum“ í Ímynd Íslands, Stofnun Sigurðar Nordal 1994
  • „What does the Eiffel Tower mean? An essay on Modernism“ þýð. Daniel Teague, Leshús 1995
  • „Um sannindin og sparifataskáldin: Bréf til Friðriks Rafnssonar“ í Tímarit Máls og menningar 1996, 4. hefti, s. 101–103

Valin ljóð

breyta
  • „Minni frelsisins“ í Ljóð fyrir Stígamót, samtök kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi, 1992
  • „Minni frelsis: tileinkað Václav Havel“ í Hressóskáldin, 1992, s. 42–43

Þýðingar

breyta

Bækur, þýðingar

breyta
  • Hlasko Marek, Áttundi dagur vikunnar, smásögur, Birtingur 1959
  • Nikos Kazantzakis, Alexis Sorbas eða Grikkinn Zorba, Almenna bókafélagið 1967
  • William Heinesen, Það á að dansa: Nýjar sögur frá Þórshöfn, Mál og menning 1980
  • William Heinesen, Kvennagullið í grútarbræðslunni, Mál og menning 1981
  • William Heinesen, Í Svörtukötlum: skáldasaga, Mál og menning 1982
  • William Heinesen, Ráð við illum öndum, Mál og menning 1983
  • William Heinesen, Glataðir snillingar, Mál og menning 1984
  • Gabriel García Márquez, Af jarðarför landsmóðurinnar gömlu, Forlagið 1985
  • William Heinesen, Töfralampinn: nýjar minningasögur, Forlagið 1987
  • Christian Matras, Sé og munað, ljóðaþýðingar, Reykjavík 1987
  • Miroslav Holub, Þankabrot leirdúfukarrans, Leshús þýðingaútgáfa 1988
  • Federico García Lorca, Tataraþulur, Leshús 1990
  • Gabriel Laub, Spakmæli um spakmæli og fleira, Leshús 1995
  • Miroslav Holub, Stuttar vangaveltur: ljóð, Leshús 1995

Leikrit, þýðingar

breyta
  • Max Frisch, Biedermann og brennuvargarnir, leikrit, Gríma 1962, þýðing óútgefin
  • LeRoi Jones, Neðanjarðarbrautin, leikrit, Ríkisútvarpið janúar 1973. Flutt sem Neðanjarðarlestin, Alþýðuleikhúsið 1983, þýðing óútgefin
  • Brendan Behan, Öfugugginn, leikrit, þýðing óútgefin
  • Herbert Achternbusch, Ella, leikrit, EGG-leikhúsið 1986, þýðing óútgefin
  • Marguerite Duras, Í almenningsgarðinum, Barbara Bray bjó til útvarpsflutnings, þýðing f. 4 bekk Leiklistarskóla Íslands 1993, óútgefin
  • William Heinesen, Gataðir snillingar, skáldsagan, Mál og menning 2000
  • Werner Schwab, Öndvegiskonur, leikrit, Leikfélag Reykjavíkur 2001, útg. Leikfélag Reykjavíkur
  • William Heinesen, Leikurinn um snillingana vonlausu, leikgerð Caspars Koch, þýðing óútgefin

Valdar greinar, þýðingar

breyta
  • Ernst Fischer, „List og kapítalismi“, Tímarit Máls og menningar 1962, 1. hefti, s. 35–55
  • Roger Paret, „Vörn Sovétríkjanna 1941“, Tímarit Máls og menningar' 1962, 1. hefti, s. 63–78
  • Marcel Martin, „Kvikmyndagerð á vegum trúverðugleikans“, Tímarit Máls og menningar 1967, 2. hefti, s. 153–173
  • Ernst Fischer, Um listþörfina, Mál og menning 1973

Valin ljóð og smásögur, þýðingar

breyta
  • „Eskimóaljóð um söngva“, höf. óþekktur, þýðing úr grænlensku 1975
  • William Heinesen, Fjandinn hleypur í Gamalíel, Mál og menning 1978
  • William Heinesen, Í morgunkulinu: samtímasaga úr Færeyjum, Mál og menning 1979
  • Charles Pierre Baudelaire, „Bænakvak til Satans: Ákall“ í Tímarit Máls og menningar 1989, 2. hefti, s. 157–159
  • William Heinesen, „Atlanta“, smásaga í Íslenskar smásögur, 1985
  • William Heinesen, „Myrkrið talar við blómarunna“, Tímarit Máls og menningar 2000, 3. hefti, s. 2
  • Willian Heinesen, „Eydna = Lykken = Hamingja“, Tímarit Máls og menningar 2000, 3. hefti, s. 26–27
  • Bertolt Brecht, „Kvæði um drukknaða stúlku“, á plötunni (Kristliega kærleiksblómin spretta kringum) hitt og þetta e. Megas

Annað

breyta

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta

Tenglar

breyta