Maður og verksmiðja

Maður og verksmiðja er kvikmynd eftir Þorgeir Þorgeirson frá árinu 1968. Hún er tíu mínútna löng, svart-hvít með hljóðrás en án samtala.

sýnishorn
Úr kvikmyndinni Maður og verksmiðja

Í efnisskrá sem fylgdi sýningu myndarinnar sama ár á Íslandi var henni lýst sem svo: „Margvegsömuð sumarvinna námsmanna er tekin ögn til umhugsunar ásamt því umhverfi, er ein síldarverksmiðja hefur upp á að bjóða.“[1] Tökur á myndinni fóru fram á Raufarhöfn árið 1966.

Þorgeir lýsti því ítrekað yfir að þetta væri eina kvikmynd hans sem hann hefði fullklárað: „Ég starfaði tíu ár að kvikmyndum, þannig að afraksturinn er mínúta á ári og það þykir mér ágætt,“ sagði hann í viðtali árið 2000.[2]

Maður og verksmiðja var valin í flokk úrvalsmynda á Kvikmyndahátíðinni í Edinborg árið 1968 en sýningarhaldi á þeim myndum var haldið áfram í Kaliforníu í kjölfarið. Myndin hlaut heiðursverðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss sama ár.[3] Um móttökur verksins á Íslandi skrifaði Þorgeir: „Hér heima varð þessi mynd fljótlega algjört tabú. Hún þótti til lítils sóma fyrir þjóðina og líkleg til að spilla fyrir sölu sjávarafurða. Fréttatilkynningu um ofannefnda viðurkenningu í Edinborg tók þáverandi fréttamaður sjónvarps, Eiður Guðnason, og fleygði í ruslakörfuna að mér ásjándi með þeim orðum, að „sjónvarpið“ mundi aldrei taka þátt í því að upphefja „svona hroða“. Mér lærðist því fljótlega að fara með allar viðurkenningar á „Manni og verksmiðju“ eins og mannsmorð.“[4]

Heimildir

breyta
  1. Sigurður Jón Ólafsson. „Að uppgötva umhverfið“. Sótt 17. maí 2014.
  2. Kolbrún Bergþórsdóttir. „Hef lítið gaman af valdi“.
  3. Pétur Valsson. „Kvik mynd list: Tilraunakvikmyndir á Íslandi 1955-1985“ (PDF). bls. 26. Sótt 2014.
  4. Þorgeir Þorgeirson (1996). „Um sannindi og sparifataþjóðina“. Tímarit Máls og menningar: 103.