Ástþór Magnússon

Ástþór Magnússon (f. í Reykjavík 4. ágúst 1953) er íslenskur viðskiptamaður og stofnandi Friðar 2000.

Eftir landspróf hóf Ástþór nám í Verslunarskóla Íslands en fór síðan til Bretlands í nám við Medway College of Art and Design og lauk prófi í auglýsingaljósmyndun og markaðsfræðum. Hann sótti síðan fjölda námskeiða bæði heima og erlendis í stjórnun og rekstri fyrirtækja. Ástþór var upphafsmaður að stofnun Eurocard á Íslandi árið 1979 en það var fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins. Ástþór stofnaði einnig og rak um árabil myndiðjuna Ástþór og póstverslunarfyrirtæki með útibúum í Færeyjum og Danmörku. Árið 1983 flutti Ástþór til Danmerkur og síðan til Bretlands þar sem hann gerðist frumkvöðull í þróun tölvutækni fyrir gagnvirk upplýsinga- og verslunarkerfi. Hann kom einnig að flugrekstri um árabil og er með yfir 2000 flugtíma mest við stjórn á litlum einkaþotum.[heimild vantar]

Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 1994 með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995. Ástþór hefur hlotið tvenn mannúðarverðlaun, Gandhi verðlaunin[heimild vantar] og Heilaga Gullkrossinn frá Grísku rétttrúnaðarkirkjunni[heimild vantar] en það var UNESCO í Grikklandi sem tilnefndi Ástþór til verðlaunanna.

Ástþór kynnti hugmyndafræði sína í forsetaframboði 1996 og í bókinni Virkjum Bessastaði sem dreift var á öll heimili landsmanna. Ástþór bauð sig fram til forseta Íslands í forsetakosningunum 2012, en þann 1.júní 2012 var framboð hans dæmt ógilt því hann fékk ekki lögboðið vottorð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis.[1] Forsetaframboð hans árið 2000 var einnig dæmt ógilt, vegna þess að nægjanlegan fjölda meðmælenda vantaði.

TilvísanirBreyta

HeimildirBreyta