Wallis- og Fútúnaeyjar

Wallis- og Fútúnaeyjar eru franskt handanhafshérað, aðallega á þremur eldfjallaeyjum í Suður-Kyrrahafi: Wallis, Fútúna og Alofi. Þær tvær síðastnefndu eru líka kallaðar Heimaeyjar. Auk eyjanna tilheyra nokkur rif svæðinu. Eyjarnar eru miðja vegu milli Fídjieyja og Samóa með Túvalú í norðvestri, Tonga í suðaustri, Tókelá í norðaustri og Kíribatí lengra í norður. Eyjarnar eru hluti af Pólýnesíu.

Collectivité de Wallis et Futuna
Fáni Wallis- og Fútúnaeyja Skjaldarmerki Wallis- og Fútúnaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Liberté, Égalité, Fraternité
Þjóðsöngur:
La Marseillaise
Staðsetning Wallis- og Fútúnaeyja
Höfuðborg Mata-Utu
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Franskt handanhafshérað

Héraðsstjóri
Þingforseti
Jean-Francis Treffel
David Vergé
Hluti Frakklands
 • Handanhafsumdæmi 1959 
 • Handanhafshérað 2003 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

142,42 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar

11.558
84/km²
VLF (KMJ) áætl. 2005
 • Samtals 0,188 millj. dala
 • Á mann 12.640 dalir
VÞL (2008) 0.793
Gjaldmiðill CFP-franki
Tímabelti UTC +12
Þjóðarlén .wf
Landsnúmer +681

Hollendingar og Bretar uppgötvuðu eyjarnar fyrstir Evrópumanna og nefndu Wallis (Uvea) eftir breska landkönnuðinum Samuel Wallis. Frakkar sendu þangað trúboða árið 1837. Árið 1887 gerði Uvea drottning samning um vernd við Frakkland. Konungar Sigave og Alo fylgdu í kjölfarið. Eyjarnar heyrðu þá undir frönsku nýlenduna Nýju-Kaledóníu. Árið 1959 kusu íbúarnir að gerast sjálfstætt franskt yfirráðasvæði sem gekk í gildi 1961. Árið 2003 var þeirri stöðu breytt í handanhafshérað.

Íbúar eyjanna eru um 11.500 og fer fækkandi en yfir 16.000 manns frá eyjunum búa í Nýju Kaledóníu. Langflestir aðhyllast rómversk-kaþólska trú. Tveir þriðju tala wallisísku en tæpur þriðjungur talar fútúnísku. Íbúar lifa aðallega á landbúnaði og fiskveiðum. Á eyjunum eru þrjú konungdæmi: Uvea (Wallis), Sigave (á Fútúna) og Alo (á Fútúna og Alofi). Rúmlega 1000 manns búa í höfuðstaðnum, Mata-Utu, sem er á Uvea.

Pólýnesar settust að á eyjunum um árið 1000 þegar þær féllu undir yfirráð Tuʻi Tonga-veldisins. Áður voru eyjarnar hluti af Lapita-menningunni. Íbúar reistu virki og önnur mannvirki sem enn finnast leifar af á eyjunum.

Eyjarnar komu fyrst fyrir á landakortum hollensku landkönnuðanna Willem Schouten og Jacob Le Maire sem sigldu umhverfis jörðina árið 1616. Þeir nefndu eyjarnar Hoornse Eylanden eftir heimabæ sínum, Hoorn. Þetta var þýtt á frönsku sem Isles de Horne. Franskir trúboðar voru fyrstu Evrópumennirnir sem reyndu að setjast að á eyjunum árið 1837. Þeir sneru íbúum til kaþólskrar kristni. Franski trúboðinn Peter Chanel, sem var tekinn í dýrlingatölu árið 1954, er verndardýrlingur Fútúna. Wallis-eyjar draga nafn sitt af breska landkönnuðinum Samuel Wallis.

Eftir að hluti íbúa gerði uppreisn gegn trúboðunum árið 1842 óskuðu þeir formlega eftir vernd franska ríkisins. Þann 5. apríl 1847 undirritaði drottning Uvea samning sem fól í sér stofnun fransks verndarríkis. Konungar Sigave og Alo undirrituðu sams konar samninga árið 1888. Eyjarnar urðu hluti af frönsku nýlendunni Nýju-Kaledóníu.

Árið 1917 urðu þrjú konungsríki í viðbót hluti af yfirráðum Frakka sem gerðu eyjarnar að sérstakri nýlendu þótt hún heyrði enn undir stjórn Nýju-Kaledóníu.

Í upphafi Síðari heimsstyrjaldar var stjórn eyjanna hliðholl Vichy-stjórninni þar til herskip frá Frjálsum Frökkum kom þangað og hrakti nýlendustjórnina frá völdum 26. maí 1942. Bandarískt herlið tók eyjarnar yfir 29. maí 1942.

Árið 1959 kusu íbúar eyjanna að verða franskt handanhafssvæði sem gekk í gildi 1961. Þar með heyrðu eyjarnar ekki lengur undir stjórn Nýju-Kaledóníu.

Árið 2005 kom til uppþota á Uvea þegar konungurinn, Tomasi Kulimoetoke 2., neitaði að framselja afkomanda sinn sem var dæmdur fyrir manndráp og vildi að hann yrði dæmdur eftir ættbálkalögum í stað franskra laga. Uppreisnarmönnum mistókst að hrekja konunginn frá völdum.

Landfræði

breyta
 
Loftmynd af Uvéa.

Wallis- og Fútúnaeyjar eru staðsettar við 13. breiddargráðu suður og 176. lengdargráðu vestur, 360 km vestan við Samóa og 480 km norðaustan við Fídjieyjar. Eyjarnar telja eyjuna Uvéa (sem er líka kölluð Wallis) sem er fjölmennasta eyjan, Fútúna, næstum óbyggðu eyjuna Alofi og 20 óbyggðar smáeyjar. Alls eru eyjarnar 274 ferkílómetrar að stærð með 129 km langa strandlengju. Hæsti punktur eyjanna er Puke-fjall á Fútúna, 524 metrar á hæð.

Á eyjunum er regntími frá nóvember til apríl, þegar hitabeltislægðir ganga yfir þær með stormum. Svalur þurrkatími er frá maí til október, þegar suðaustanstæðir staðvindar eru ríkjandi. Meðalúrkoma er milli 2.500 og 3.000 mm og líkur eru á regni 260 daga ársins. Meðalrakastig er 80%. Meðalhiti er 26,6°C og fer sjaldan niður fyrir 24° á regntímanum.

Aðeins 5% af landsvæði eyjanna er ræktarland. Nytjaskógur þekur um 20%. Skógeyðing er alvarlegt vandamál og lítið er eftir af upprunalega skóginum á eyjunum. Ástæðan er aðallega sú að íbúarnir nýta skóginn í eldivið. Felling skógarins veldur svo jarðvegsrofi í fjalllendinu á Fútúna. Á Alofi vantar vatnsuppsprettur og þar er því ekki varanleg byggð.

Mörg gígvötn eru á Uvéa eftir eldvirkni þar á Pleistósen, meðal annars Lalolalo-vatn, Lano-vatn, Lanutavake-vatn, Lanutuli-vatn, Lanumaha-vatn, Kikila-vatn og Alofivai-vatn.[1]

Eyjarnar

breyta
Gervihnattamynd af Wallis.
Gervihnattamynd af Fútúna og Alofi, sem eru líka kallaðar Hoorn-eyjar.
Eyja Höfuðstaður Aðrir bæir Stærð (km2) Íbúar[2]
Wallis- og Fútúnaeyjar Mata-Utu Leava, Vaitupu, Alele, Liku, Falaleu, Utufua 142,42 11.558
Hoorn-eyjar (Fútúna og Alofi) Leava Fiua, Nuku, Taoa, Mala'e, Ono, Vele 64,1 3.225
Alofi 17,8 1
Fútúna Leava Toloke, Fiua, Vaisei, Nuku, Taoa, Mala'e, Kolopelu, Ono, Kolia, Vele, Kolotai, Laloua, Poi, Tamana, Tuatafa, Tavai 46,3 3.225
Faioa 0,68 0
Fenuafo'ou 0,03 0
Fugalei 0,18 0
Ilot St. Christophe Chappel St. Christophe 0,03 0
Luaniva 0,18 0
Nukuatea 0,74 0
Nukufotu 0,04 0
Nukuhifala Nukuhifala 0,067 4
Nukuhione 0,02 0
Nukuloa Nukuloa 0,35 10
Nukutapu 0,05 0
Nukuteatea 0,1 0
Aðrar Nukuato 0,043 0
Tekaviki 0.01 0
Wallis (eyja) Mata-Utu Vaitupu, Alele, Liku, Falaleu, Utufua, Mala'efo'ou, Mala'e 75,8 8.333
Aðrar 0 0
Wallis- og Fúnaeyjar Mata-Utu Leava, Vaitupu, Alele, Liku, Falaleu, Utufua 142,42 11.558

Efnahagslíf

breyta
 
Skýringarmynd sem sýnir útflutningsvörur Wallis- og Fútúnaeyja árið 2019.

Árið 2005 var verg landsframleiðsla á Wallis- og Fútúnaeyjum 188 milljónir dala (á markaðsgengi).[3] Efnahagslíf eyjanna byggist aðallega á sjálfsþurftarbúskap. Um 80% íbúa lifa af landbúnaði (ræktun kókoshneta og grænmetis), kvikfjárrækt (aðallega á svínum) og fiskveiðum. Um 4% íbúa starfa í stjórnsýslunni. Eyjarnar hafa aukatekjur af framlögum frá franska ríkinu, sölu á fiskveiðiréttindum til Japans og Suður-Kóreu, innflutningstollum og peningasendingum frá verkafólki í Nýju-Kaledóníu, Frönsku Pólýnesíu og Frakklandi. Helstu framleiðsluvörur eru meðal annars kopra, handverk, fiskur og timbur. Á eyjunum eru ræktuð kókoshnetur, rifblaðka, mjölrót, þerrirót, bananar, svín og fiskur.

Einn banki starfar á eyjunum, Banque de Wallis-et-Futuna, stofnaður árið 1991. Hann er dótturfyrirtæki BNP Paribas. Áður var útibú Banque Indosuez á Mata-Utu frá 1977, en því var lokað 1989. Eyjarnar voru því án banka í 2 ár.

Heimildir

breyta
  1. „Wetlands of Wallis and Futuna“ (PDF). Secretariat of the Pacific Regional Environment Programme (SPREP) and Service de l’Environnement. 2017.
  2. „Population municipale des villages des îles Wallis et Futuna (recensement 2018)“. INSEE. Sótt 21. febrúar 2020.
  3. INSEE, CEROM. „L'économie de Wallis-et-Futuna en 2005: Une économie traditionnelle et administrée“ (PDF) (franska). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. september 2008. Sótt 1. júlí 2008.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.