Willem Schouten (um 1580 í Hoorn1625 í Baie d‘Antongil á Madagaskar) var hollenskur sæfari. Hann var fyrsti maðurinn til að sigla suður fyrir Hornhöfða í Ameríku.

Willem Schouten

Æviágrip breyta

Sæfarinn breyta

Lítið er vitað um æsku Schoutens. Hann varð sjómaður á unga aldri og sigldi um öll þau höf sem þá voru kunn. Einnig sigldi hann til norðurs og var meðal fyrstu manna til að sigla til rússnesku eyjanna Novaja Semlja. Á þessum tíma var Hollenska Austur-Indíafélagið með nokkrar nýlendur í Austur-Asíu (Indónesía í dag). Þangað sigldi Schouten einnig þrisvar meðan hann var ungur. Ávallt var siglt suður fyrir Góðrarvonarhöfða í Afríku og yfir Indlandshaf.

Isaac Le Maire breyta

Isaac Le Maire var ungur sæfari. Faðir hans var einn meðstofnandi Austur-Indíafélagsins en yfirgaf það 1605 eftir mikið ósætti. Hann stofnaði sitt eigið félag og fól Isaac syni sínum að sigla til Kryddeyjanna. Isaac réði Willem Schouten og undirbjuggu þeir tvö skip í heimaborg þeirra, Hoorn í Hollandi. Vandamál þeirra var að Austur-Indíafélagið meinaði þeim að sigla um Góðrarvonarhöfða. Sömuleiðis var Magellansund í Suður-Ameríku lokað fyrir þeim. Því urðu þeir að finna nýja siglingaleið til Austur-Asíu.

Heimssigling breyta

 
Siglingaleið Schoutens og Le Maire

14. júní 1615 lögðu Schouten og Le Maire af stað frá Hoorn á tveimur skipum. Í desember komust þeir klakklaust til Patagóníu og urðu að lagfæra skipin þar. Meðan á því stóð kveiknaði í öðru skipinu og eyðilagðist það. Því urðu þeir að halda áfram á einu skipi, sem hét Eendracht (Samlyndi). Þeir sigldu suður en í stað þess að sigla inn um Magellansund héldu þeir áfram í von um að finna annað sund. Á þessum tíma var ekkert vitað um landmassann fyrir sunnan Magellansundið. Eftir nokkra daga uppgötvuðu þeir suðurodda Suður-Ameríku og sigldu fyrir syðstu eyjuna þar. Hún hlaut heitið Kaap Hoorn (Hornhöfði), eftir heimaborg þeirra beggja. Sundið milli Hornhöfða og meginlandsins hlaut hins vegar heitið Straat van Le Maire (Le Maire sund). Í Kyrrahafi uppgötvuðu Schouten og Le Maire nokkrar nýjar eyjar í Vináttueyjaklasanum og við Nýju-Gíneu. Þar á meðal uppgötvuðu þeir Nýja-Írland. Þegar þeir náðu til Kryddeyja (Molukkaeyja) var Willem Schouten búinn að sigla umhverfis heiminn, þar sem hann hafði áður komið þangað. Hann varð því tíundi einstaklingurinn (skipstjóri/leiðangursstjóri) sem það afrekaði.

Fangi og hetja breyta

Á Kryddeyjum var þeim vel tekið af hollenskum nýlendumönnum. Þeir keyptu krydd og hlóðu skipið sitt. Heim ætluðu þeir að sigla yfir Indlandshaf. Þegar þeir komu til eyjarinnar Jövu voru þeir hins vegar handteknir og settir í hlekki. Austur-Indíafélagið sakaði þá um að rjúfa einokun þeirra á verslun með kryddi, enda trúði enginn sögu þeirra um nýja siglingaleið. Í höfninni í Batavíu var hollenski sæfarinn Joris van Spielbergen, sem aðeins nokkrum mánuðum áður hafði siglt um heiminn (og var níundi sæfarinn sem það afrekaði). Austur-Indíafélagið fékk van Spielbergen til að sigla með Schouten og Le Maire föngnum heim til Hollands, ásamt tíu áhafnarmeðlimum Schoutens. Á leiðinni lést Le Marie, aðeins 31s árs gamall. Í Hollandi var réttað yfir Schouten, en þar tókst honum að færa sönnur á nýju siglingaleið sinni. Í kjölfarið var hann látinn laus og var jafnvel heiðraður. Á 16 mánaða hnattsiglingu sinni hafði Schouten haft 86 menn í áhöfn sinni. Aðeins þrír af þeim létust á leiðinni, sem verður að teljast merkilegt, enda voru sjúkdómar eins og skyrbjúgur meðal sæfarenda á þessum tíma mjög algengir. Willem Schouten hélt áfram siglingum á vegum Austur-Indíafélagsins. Hann lést í einni slíkri á Madagaskar aðeins 45 ára gamall.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Willem Schouten“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. október 2011.