Vladímír Zhírínovskíj

Rússneskur stjórnmálamaður
(Endurbeint frá Vladimir Zhirinovsky)

Vladímír Volfovítsj Zhírínovskíj (25. apríl 1946 – 6. apríl 2022), einnig þekktur undir gælunafninu Zhírík, var rússneskur stjórnmálamaður. Frá falli Sovétríkjanna og stofnun rússneska sambandsríkisins var Zhírínovskíj helsti leiðtogi öfgahægrimanna og öfgaþjóðernissinna í rússneskum stjórnmálum. Hann bauð sig margsinnis fram til embættis forseta Rússlands og var lengi leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins á rússnesku ríkisdúmunni.

Vladímír Zhírínovskíj
Владимир Жириновский́
Fæddur25. apríl 1946
Dáinn6. apríl 2022 (75 ára)
ÞjóðerniRússneskur
MenntunRíkisháskóli Moskvu
FlokkurFrjálslyndi lýðræðisflokkurinn
MakiGalína Lebedeva (g. 1971)
Börn3
Undirskrift

Zhírínovskíj var þekktur fyrir herskáa orðræðu gegn Vesturlöndum og fyrir ögrandi ummæli gegn ýmsum ríkjum. Meðal annars stakk hann upp á því að réttast væri að breyta Íslandi í fanganýlendu fyrir alla Evrópu.[1] Þrátt fyrir að vera stjórnarandstæðingur að nafninu til var Zhírínovskíj í seinni tíð talinn eiginlegur bandamaður Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og studdi stjórnarstefnu Pútíns í flestum málefnum.

Æviágrip

breyta

Vladímír Zhírínovskíj fæddist árið 1946 í Almaty í þáverandi kasaska sovétlýðveldinu. Móðir hans var rússnesk en faðir hans var úkraínskur Gyðingur. Zhírínovskíj gerði jafnan lítið úr ætterni föður síns og var vanur að segja: „Móðir mín var rússnesk en faðir minn var lögfræðingur.“[2] Eftir að upplýsingar um faðerni Zhírínovskíj voru gerðar opinberar á tíunda áratugnum hafnaði hann því í sjö ár að hann væri kominn af Gyðingaættum. Zhírínovskíj hafði þá lengi lofað Hitler og sagt Gyðinga sjálfa bera ábyrgð á Helförinni.[3]

Zhírínovskíj bauð sig fram til forseta Rússlands í fyrsta skipti árið 1991 og hlaut þar um sex milljónir atkvæða og lenti í þriðja sæti, sem gerði hann að þekktum stjórnmálamanni í Rússlandi.[4] Hann átti eftir að bjóða sig fram í öllum forsetakosningum Rússlands það sem hann átti eftir ólifað að undanskildu árinu 2004, en náði aldrei eins góðum árangri og við fyrstu atrennu sína.

Árið 1990 stofnaði Zhírínovskíj Frjálslynda lýðræðisflokkinn.[2] Í aðdraganda þingkosninga sem haldnar voru í Rússlandi árið 1993 fór hann yfir stefnu flokksins og sagði hana vera „þjóðernissósíalisma“ (þ.e. blöndu af þjóðernishyggju og sósíalisma) en gerði greinamun á henni og á „Hitlerisma.“ Zhírínovskíj varð talsmaður þess að Rússar endurheimtu öll landsvæði sem áður hefðu heyrt undir Rússaveldi, meðal annars Eystrasaltslöndin, Úkraínu og Hvíta-Rússland.[5][6] Hann sagðist hafa metnað til að færa landamæri Rússlands aftur í það horf sem þau voru árið 1865, þegar Rússland réði yfir svæðum á borð við Finnlandi, Póllandi og Alaska, auk þess sem Zhírínovskíj sagðist vilja að Rússland innlimaði japönsku eyjuna Hokkaidō.[1]

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vann óvæntan sigur í þingkosningunum 1993. Flokkurinn hlaut um fjórðung atkvæða og varð stærsti flokkurinn á rússnesku ríkisdúmunni.[7] Zhírínovskíj varð þannig um skeið einn sýnilegasti rússneski stjórnarandstæðingurinn á forsetatíð Borisar Jeltsín.[2]

Zhírínovskíj sagðist vilja bæta úr glæpavandamáli í Rússlandi með því að gera landið að gamaldags „lögregluríki“. Þannig yrði landinu stjórnað af þeirri festu sem myndi tryggja „sannkallað lýðræði.“ Hann sagðist vilja að rússneski herinn teldi til sín 3,5 milljónir hermanna og lögreglusveitir yrðu skipaðar tveimur milljónum manna. Zhírínovskíj sá fyrir sér heimsskipan þar sem heiminum yrði skipt í þrenn áhrifasvæði þar sem aðeins Rússland, Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið fengju að hafa starfræka heri og rússneska, enska og franska yrðu einu opinberu mál heimsins. Þá yrðu rúblan, Bandaríkjadalurinn og evran einu gjaldmiðlarnir.[8] Zhírínovskíj stakk jafnframt upp á því að Kína yrði skipt upp í sex ríki til að draga úr hættu sem hann sagði stafa af landinu. Meðal annarra ummæla sem Zhírínovskíj lét falla var að nauðsynlegt kynni að vera að varpa kjarnorkusprengjum á Japan og drekkja Þýskalandi í geislavirkum úrgangi.[9]

Á fyrsta áratugi 21. aldar var Zhírínovskíj um skeið varaforseti rússneska þingsins. Hann vakti athygli í því embætti árið 2005 þegar hann lenti í slagsmálum við þingmann í öðrum flokki í beinni sjónvarpsútsendingu.[10]

Í seinni tíð gagnrýndi Zhírínovskíj hinsegin fólk í auknum mæli og studdi við lagasetningar stjórnar Vladímírs Pútín sem bönnuðu „áróður samkynhneigðra.“ Þegar austurríski hinsegin söngvarinn Conchita Wurst vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2014 lýsti Zhírínovskíj því yfir að niðurstaða keppninnar markaði „endalok Evrópu.“[11]

Zhírínovskíj lést í apríl árið 2022. Hann hafði smitast af Covid-19 árið áður en hélt því fram að hann hefði látið sprauta sig átta sinnum á móti veikinni. Í desember árið áður hafði Zhírínovskíj spáð fyrir það nánast upp á dag hvenær Rússar myndu hefja innrás í Úkraínu.[12][13]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Ísland verður fangelsi fyrir Evrópu“. Dagblaðið Vísir. 15. desember 1993. bls. 4.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Lýðskrumari, loddari eða bjargvættur þjóðarinnar?“. Morgunblaðið. 14. desember 1993. bls. 37.
  3. „Stjórnmálamaðurinn Zhirinovsky: Faðir minn var gyðingur“. Fréttablaðið. 20. júlí 2001. bls. 22.
  4. „Breytt Evrópa“. Morgunblaðið. 5. apríl 1992. bls. 6-7.
  5. Dagur Þorleifsson (2. febrúar 1994). „„Þjóðernissósíalismi" Zhírínovskíjs“. Tíminn. bls. 8.
  6. „Óvinirnir fá að sjá blóð en ekki rósir“. Dagblaðið Vísir. 18. desember 1993. bls. 54.
  7. „Vopnin snerust í höndum Jeltsíns“. Tíminn. 14. desember 1993. bls. 5.
  8. Davíð Logi Sigurðsson (29. september 2003). „Heiminum verði skipt í þrennt“. Morgunblaðið. bls. 12.
  9. Davíð Logi Sigurðsson (11. desember 2003). „Umdeildir menn I“. Morgunblaðið. bls. 42.
  10. „Handalögmál á rússneska þinginu“. mbl.is. 30. mars 2005. Sótt 13. apríl 2022.
  11. Friðrika Benónýsdóttir (12. maí 2014). „Fordómalaus í einn dag“. Vísir. Sótt 14. apríl 2022.
  12. „Zhírínovskí látinn“. mbl.is. 6. apríl 2022. Sótt 13. apríl 2022.
  13. Ensor, Josie (22. febrúar 2022). „How the Kremlin's 'jester' appeared to predict the date of Russia entering Ukraine months ago“. The Telegraph. Sótt 13. janúar 2023.