Viktor Emmanúel 3.

Konungur Ítalíu frá 1900–1946
(Endurbeint frá Viktor Emmanúel III)

Viktor Emmanúel 3. (11. nóvember 1869 – 28. desember 1947) var konungur Ítalíu frá þeim 29. júlí árið 1900 þar til hann sagði af sér 9. maí 1946. Hann gerði auk þess tilkall til krúna Eþíópíu og Albaníu en hlaut ekki alþjóðlega viðurkenningu sem handhafi þeirra titla. Á langri valdatíð hans (nærri því 46 árum) sem hófst með morðinu á föður hans Úmbertó 1. barðist Ítalía í tveimur heimsstyrjöldum. Valdatími hans spannaði auk þess fæðingu, þróun og hrun ítalsks fasisma.

Skjaldarmerki Savojaættin Konungur Ítalíu
Savojaættin
Viktor Emmanúel 3.
Viktor Emmanúel 3.
Ríkisár 29. júlí 1900 – 9. maí 1946
SkírnarnafnVittorio Emanuele Ferdinando Maria Gennaro di Savoia
Fæddur11. nóvember 1869
 Napólí, Ítalíu
Dáinn28. desember 1947 (78 ára)
 Alexandría, Egyptalandi
GröfVicoforte-klaustur, Ítalíu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Úmbertó 1.
Móðir Margrét af Savoja
DrottningElena af Svartfjallalandi
Börn

Viktor Emmanúel steig af stóli árið 1946 og eftirlét krúnuna syni sínum, Úmbertó 2. í þeirri von að nýr konungur gæti unnið stuðning almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort rétt væri að leysa upp konungsembættið og gera Ítalíu að lýðveldi. Ítalir kusu að endingu að leysa upp konungveldið. Viktor Emmanúel fór í útlegð til Alexandríu í Egyptalandi, lést þar næsta ár og var grafinn þar uns líki hans var skilað til Ítalíu árið 2017.

Ítalir kölluðu Viktor Emmanúel Il Re soldato (Dátakonunginn) þar sem hann leiddi þjóðina í báðum heimsstyrjöldunum, og Il Re vittorioso (konunginn sigursæla) vegna sigurs Ítala í fyrri heimsstyrjöldinni.[1] Hann var einnig kallaður Sciaboletta („litla sverð“) vegna þess hve smávaxinn hann var.

Æviágrip

breyta

Viktor Emmanúel fæddist 11. nóvember árið 1869 í Napólí. Árið 1894 kvæntist hann Elenu, prinsessu Svartfjallalands. Í júlí árið 1900 var Viktor Emmanúel settur á valdastól eftir að anarkisti drap föður hans. Miðað við forvera sína hélt konungurinn sig við mjög við stjórnarskrárbundið hlutverk sitt á fyrstu árum sínum í embættinu. Viktor Emmanúel var lítið fyrir ys og þys ítalskra stjórnmála en pólitískur óstöðugleiki neyddi hann tíu sinnum til að grípa in í þau á milli 1900 og 1922.

Fyrri heimsstyrjöldin

breyta
 
Viktor Emmanúel (til vinstri) ásamt Alberti 1. konungi Belgíu á norðurvígstöðvunum. Hér sést vel hve smávaxinn Viktor Emmanúel var.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst var Ítalía hlutlaus í fyrstu þrátt fyrir að hafa verið í varnarbandalagi ásamt Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi fáum árum áður. Árið 1915 skrifuðu ítölsk stjórnvöld hins vegar undir leynisáttmála um að berjast gegn Miðveldunum ásamt bandamönnum. Flestir ítalskir stjórnmálamenn voru á móti inngöngu í stríðið og neyddu Antonio Salandra forsætisráðherra til að segja af sér. Viktor Emmanúel neitaði að samþykkja afsögn hans og tók sjálfur þá ákvörðun að Ítalía skyldi ganga inn í styrjöldina, sem var stjórnarskrárbundinn réttur hans.

Sigur bandamanna árið 1918 gerði Ítölum kleift að innlima landsvæði eins og Trento, Bolzano, Istríu og Trieste en ekki Dalmatíu, sem kom í veg fyrir að þeir næðu fullri stjórn yfir Adríahafi. Skilmálar friðarins urðu því óvinsælir í Ítalíu og þótti mörgum landið hafa verið lítilsvirt.

Millistríðsárin og uppgangur fasisma

breyta

Efnahagskreppan sem fylgdi í kjölfar heimsstyrjaldarinnar hleypti eldi í æðar öfgamanna í verkamannastéttum Ítalíu. Þetta olli miklum pólitískum óstöðugleika í landinu og gerði Benito Mussolini kleift að rísa til valda. Árið 1922 gerðu Mussolini og um 10.000 stuðningsmenn hans atlögu á Róm. Pietro Badoglio hershöfðingi tilkynnti konungnum að herinn væri trúr honum og gæti sigrað uppreisnarseggina án erfiðis. Luigi Facta forsætisráðherra lét undirbúa frumvarp til að koma á herlögum. Að endingu neitaði Viktor Emmanúel hins vegar að undirrita frumvarpið og bauð Mussolini þess í stað til Rómar til að taka við embætti forsætisráðherra. Konungurinn hélt því seinna fram að hann hefði óttast að borgarastyrjöld myndi brjótast út ef hann beitti hervaldi gegn fasistunum.[2]

 
Viktor Emmanúel ásamt Benito Mussolini árið 1923.

Viktor Emmanúel gerði næstu árin ekkert til að hafa hemil á valdníðslu Mussolini og mótmælti ekki árin 1925–26 er Mussolini hætti alfarið öllum lýðræðistilburðum.[3][4] Seinna árið setti Mussolini lög þess efnis að hann væri eingöngu ábyrgur gagnvart konungnum en ekki þinginu.

Á valdatíma Mussolini var Viktor Emmanúel gerður að keisara Eþíópíu eftir innrás Ítala í Eþíópíu 1936 og konungi Albaníu eftir innrásina í Albaníu 1939. Þjóðabandalagið fordæmdi báðar innrásirnar og veitti Viktor Emmanúel aldrei alþjóðlega viðurkenningu sem handhafa þessara titla.

Seinni heimsstyrjöldin

breyta

Árið 1940 ákvað Mussolini að leiða Ítalíu inn í seinni heimsstyrjöldina ásamt Þýskalandi. Ítalir guldu afhroð nánast frá byrjun. Vinsældir bæði Mussolini og konungsins döluðu mjög í stríðinu vegna ófara hersins. Loks þann 25. júlí 1943 bar miðstjórn fasistaflokksins fram vantrauststillögu á hendur Mussolini og bað konunginn að leysa hann frá störfum. Næsta kvöld bað Mussolini konunginn um fund á ættarsetri hans. Þegar Mussolini reyndi að segja konungnum frá vantrauststillögunni greip Viktor Emmanúel fram í og tilkynnti honum að hann væri leystur úr embætti og að við honum tæki Pietro Badoglio. Hann fyrirskipaði síðan handtöku Mussolini og afsalaði sér keisaratign Eþíópíu og konungstign Albaníu.

Viktor Emmanúel tilkynnti þann 8. september árið 1943 að Ítalía hefði samið um vopnahlé við Bandamenn. Þjóðverjar höfðu átt von á þessu og flýttu sér að afvopna ítalska bandamenn sína og taka við beinni stjórn Balkanskaga, Frakklands og Tylftareyja. Konungurinn óttaðist að Þjóðverjar myndu hertaka Róm sjálfa og flúði því suður til Brindisi ásamt ríkisstjórn sinni. Hann hlaut nokkra gagnrýni fyrir að yfirgefa höfuðborgina og þótti koma illa út í samanburði við Georg 6. Bretlandskonung og Elísabetu drottningu, sem höfðu verið áfram í London á meðan loftárásir Þjóðverja stóðu sem hæst, og við Píus 12. páfa sem blandaði geði og lék við almenning Rómar eftir sprengjuárásir á borgina.

Viktor Emmanúel gerði sér grein fyrir því að mannorð hans væri flekkað vegna daðurs hans við fasistastjórnina og eftirlét syni sínum, Úmbertó krónprinsi, því flest völd krúnunnar í apríl 1944. Með þessu móti lét Viktor Emmanúel af flestum völdum sínum án þess að segja af sér sem konungur. Valdfærslan var gerð formleg eftir að Róm var frelsuð undan hernámi Þjóðverja.

Þjóðaratkvæðagreiðslan 1946

breyta

Ári eftir lok styrjaldarinnar neyddi almenningsálit ríkisstjórnina til að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð konungsvaldisins. Viktor Emmanúel sagði formlega af sér þann 9. maí og eftirlét Úmbertó krúnuna í því skyni að vinna konungsvaldinu nýja stuðningsmenn. Þetta mistókst og mánuði síðar kusu 52 prósent kjósenda að gera Ítalíu að lýðveldi. Þar með leið ítalska konungdæmið undir lok. Eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar voru gerð að lögum neyddust allir karlkynsmeðlimir Savojaættar til að yfirgefa landið og snúa aldrei aftur. Viktor Emmanúel fór í útlegð til Egyptalands og dó næsta ár í Alexandríu. Hann var grafinn þar á bak við altari í Dómkirkju Heilagrar Katrínar til ársins 2017, en þá var líki hans skilað til Ítalíu og það jarðsett í grafhýsi nærri Tórínó.[5]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Romano Bracalini, re "vittorioso". La vita, il regno e l'esilio di Vittorio Emanuele III[óvirkur tengill].
  2. L'Italia in camicia nera, Milano, Rizzoli, 1976.
  3. P. Ortoleva, M. Revelli, Storia dell'età contemporanea, Milano 1998, bls. 123.
  4. G. Candeloro, Storia dell'Italia moderna: Il Fascismo e le sue guerre, bindi 9, bls. 92.
  5. Remains of exiled Italian king return to Italy. Reuters, 17. desember 2017. Sótt 18. desember 2017.


Fyrirrennari:
Úmbertó 1.
Konungur Ítalíu
(1900 – 1946)
Eftirmaður:
Úmbertó 2.
Fyrirrennari:
Haile Selassie
Keisari Eþíópíu
(óviðurkenndur)
(1936 – 1941)
Eftirmaður:
Haile Selassie
Fyrirrennari:
Zog 1.
Konungur Albaníu
(óviðurkenndur)
(1939 – 1943)
Eftirmaður:
Enginn