Savojaættin

Savojaættin (ítalska: Casa Savoia) er aðalsætt kennd við héraðið Savoja í norðvesturhluta Ítalíu og suðausturhluta Frakklands. Upphaf ættarinnar er rakið til greifans Húmberts 1. (1003 – 1047/8). Greifarnir af Savoja náðu yfirráðum yfir mikilvægum fjallvegum yfir Alpafjöll. Sonur Húmberts, Ottó af Savoja, giftist Adelaide af Tórínó og eignaðist þannig bæina Tórínó, Susa, Ivrea, Pinerolo og Caraglio í Fjallalandi. 1416 var Savoja gert að hertogadæmi. Frakkar lögðu Fjallaland undir sig 1494 og landlaus ættin settist þá að í Tórínó. 1553 hóf Emmanúel Filibert hertogi að ná löndum ættarinnar aftur á sitt vald. Efnahagslegur uppgangur varð í löndum ættarinnar á 17. öld með þróun iðnaðar í Tórínó og verslunar í Nice. Í kjölfar Spænska erfðastríðsins fékk ættin Konungsríkið Sardiníu og varð við það konungsætt. Við sameiningu Ítalíu 1861 lét ættin eftir lönd sín í Frakklandi en varð þess í stað konungar Ítalíu.

Skjaldarmerki Savojaættarinnar

Í kjölfar Síðari heimsstyrjaldar var ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu að gera Ítalíu að lýðveldi. Í stjórnarskrá Ítalíu var auk þess lagt bann við því að afkomendur síðasta konungsins, Húmberts 2. í beinan karllegg stigju fæti á ítalska jörð. Banninu var aflétt 2002 en um leið hafnaði Viktor Emmanúel, prins af Napólí öllu tilkalli til krúnunnar samkvæmt samkomulagi við ítalska ríkið.

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist