Luigi Facta
Luigi Facta (16. nóvember 1861 – 5. nóvember 1930) var ítalskur stjórnmálamaður, lögfræðingur og síðasti forsætisráðherra Ítalíu fyrir upphaf einræðisstjórnar Benito Mussolini.
Luigi Facta | |
---|---|
Forsætisráðherra Ítalíu | |
Í embætti 26. febrúar 1922 – 29. október 1922 | |
Þjóðhöfðingi | Viktor Emmanúel 3. |
Forveri | Ivanoe Bonomi |
Eftirmaður | Benito Mussolini |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 16. nóvember 1861 Pinerolo, Ítalíu |
Látinn | 5. nóvember 1930 (68 ára) Pinerolo, Ítalíu |
Þjóðerni | Ítalskur |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn (1922–1926) |
Æviágrip
breytaFacta fæddist í Pinerolo í Piedmont á Ítalíu. Hann nam lögfræði og vann síðar sem lögmaður og blaðamaður. Hann hóf feril í stjórnmálum árið 1892 þegar hann var kjörinn á neðri deild ítalska þingsins fyrir Pinerolo. Hann hélt sæti sínu þar í þrjátíu ár. Facta var meðlimur í Frjálslynda flokknum og var undirritari dómsmála- og innanríkisdeilda samsteypustjórnarinnar í þorra þess tíma sem hann sat á þingi. Hann var jafnframt fjármálaráðherra Ítalíu frá 1910 til 1914 og frá 1920 til 1921. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út studdi Facta hlutleysi Ítalíu en studdi síðan stríðið eftir að Ítalía hóf þátttöku í því. Sonur hans var drepinn í styrjöldinni og Facta sagðist stoltur af því að gefa son sinn þjóðinni.
Forsætisráðherra Ítalíu
breytaFacta var útnefndur forsætisráðherra í febrúar 1922. Ítalía var þá í miðju pólitískra óeirða vegna fasistauppreisnar Benito Mussolini. Þegar Mussolini og svartstakkar hans hófu gönguna til Rómar vildi Facta bregðast við með því að lýsa yfir herlögum og senda herinn til að stöðva Mussolini. Undirskrift konungsins þurfti til þess að slík yfirlýsing gæti tekið gildi. Viktor Emmanúel 3. konungur neitaði að undirrita yfirlýsinguna en Facta neitaði alltaf að greina frá ástæðum konungsins fyrir því. Næsta dag sagði Facta af sér ásamt stjórn sinni til að sýna fram á að þau væru ósammála ákvörðun konungsins. Konungurinn bauð síðan Mussolini að koma til Rómar og mynda nýja ríkisstjórn.
Seinni æviár, dauði og eftirmæli
breytaÁrið 1924 útnefndi Viktor Emmanúel 3. konungur Facta í sæti á öldungadeild ítalska þingsins.
Facta lést í Pinerolo árið 1930. Almenningur taldi hann almennt hafa verið of veikburða og tryggan konungnum til að beita sér með virkari hætti til að stöðva Mussolini og uppgang fasismans.[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ Carsten, Francis L. (1982). The rise of fascism (2nd ed., 1st paperback printing.. útgáfa). Berkeley: University of California Press. bls. 62. ISBN 9780520046436.
Fyrirrennari: Ivanoe Bonomi |
|
Eftirmaður: Benito Mussolini |