Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar
Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar (stundum kallað Viðeyjarstjórnin) var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem sat við völd á Íslandi frá 1991 til 1995. Viðeyjarstjórnin fékk nafn sitt af því að Davíð Oddsson bauð Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra til stjórnarmyndunarviðræðna út í Viðey að loknum Alþingiskosningum 20. apríl 1991. Þegar Steingrímur Hermannsson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 23. apríl 1991 fékk Davíð Oddsson stjórnarmyndunarumboðið. Viðeyjarstjórnin tók við völdum 30. apríl 1991.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra. Salome Þorkelsdóttir var forseti Alþingis. Viðeyjarstjórnin sat eitt kjörtímabil.
Ýmsir töluðu um nýja viðreisnarstjórn þegar Viðeyjarstjórnin var mynduð þar sem sömu flokkar áttu hlut að máli í bæði skiptin.
Verk
breytaÍsland gerðist aðili að EES í tíð Viðeyjarstjórnarinnar. Stjórnarskrá Lýðveldisins var breytt með þeim hætti að mannréttindi voru betur fest í sessi. Stjórnsýslulög með andmælarétti og jafnræðisreglu samþykkt. Virðisaukaskattur á matvælum var lækkaður úr 24,5% í 14%. Ísland gerðist aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
Íslensk skip hófu að veiða á fjarlægum miðum, úthafsveiðar, í umtalsverðu magni á nýjan leik.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES)
breytaJacques Delors, þáverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hélt ræðu í Brussel þann 17. janúar 1989 og bauð EFTA löndunum upp á viðræður um stofnun evrópsks efnahagssvæðis [1] . Grunnhugmynd þessa efnahagssvæðis var fjórfrelsið svokallaða; frjáls flutningur vöru, fólks, þjónustu og fjármagns.
Árið 1989 var starfandi á Íslandi samsteypustjórn Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Borgaraflokksins og Framsóknarflokksins undir forystu Steingríms Hermannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Alþýðuflokkurinn, undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra, var mjög hlynntur viðræðunum en skiptar skoðanir voru hins vegar í hinum flokkunum. Þeir flokkar höfðu efasemdir varðandi meint framsal á fullveldi og frjálst flæði fjármagns og fólks til landsins sem myndi fylgja aðild að þessu samstarfi. Miklar umræður urðu um málið á Alþingi en að lokum var samþykkt að hefja aðildarviðræður í byrjun árs 1990.[2] Þessum viðræðum lauk árið 1991 og var samningurinn að endingu samþykktur á Alþingi árið 1993.[3] Þessi ferill gekk hins vegar ekki þrautalaust fyrir sig á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn var upphaflega á móti EES-viðræðunum og taldi betri kost að hefja tvíhliða viðræður við Evrópusambandið um tollamál til að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs. Þáverandi formaður flokksins, Þorsteinn Pálsson, viðurkenndi þó síðar að sú stefna hefði verið sett fram af tveimur ástæðum; annars vegar til að verja hagsmuni sjávarútvegs og hins vegar sem pólitískt herbragð í stjórnarandstöðu til að gera stjórnarflokkunum erfitt fyrir þar sem þeir væru klofnir í afstöðu sinni til málsins.[4]
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars árið 1991 var Davíð Oddsson kosinn nýr formaður flokksins eftir harða kosningabaráttu við Þorstein Pálsson. Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins kvað við nýjan tón í Evrópumálum. Í ályktuninni sagði að Íslendingar ættu ekki að útiloka inngöngu í Evrópusambandið fyrirfram. Í henni var ekki talað um tvíhliða viðræður við ESB heldur kveðið á um að halda skyldi áfram viðræðum um EES ef hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir væru tryggðar sem og að Íslendingar héldu óskoruðu fullveldi yfir auðlindum[5] Með þessu var Sjálfstæðisflokkurinn greinilega að byggja brú yfir til Jóns Baldvins og Alþýðuflokksins sem stóð í ströngu við marga af þingmönnum samstarfsflokka sinna í ríkisstjórninni. Þar á meðal við forsætisráðherrann sjálfan Steingrím Hermannsson sem ætíð var tortrygginn gagnvart samningnum.[6] Því skal þó haldið til haga að Davíð Oddsson sagði hins vegar skýrt að þótt að flokkurinn væri orðinn jákvæður gagnvart EES þá þýddi það ekki að full aðild að Evrópusambandinu væri á dagskrá næstu árin eða áratugina.[7]
Frambjóðendur flokksins töluðu þó varlega í kosningabaráttunni og Björn Bjarnason sagði meðal annars á opnum pólitískum fundi að ekki væri hægt að útiloka fulla aðild að ESB í framtíðinni ,,svo framarlega sem yfirráð héldust yfir auðlindum til lands og sjávar“[8] Á meðan tóku Framsóknarflokkur og Alþýðubandalagið í kosningabaráttunni mun neikvæðari afstöðu gagnvart Evrópusamstarfi en þeir höfðu gert í ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn flaggaði meðal annars slagorðinu ,,X-B, ekki EB“ í kosningabaráttunni[9] og jafnvel þótt Alþýðubandalagið hefði ekki lagst gegn viðræðum um EES samninginn í ríkisstjórn þá hafði flokkurinn gert mikla fyrirvara við hann, einkum varðandi skerðingu á fullveldi landsins. Þetta og ýmis önnur ummæli í kosningabaráttunni gerðu Alþýðuflokksmenn tortryggna að hægt væri að koma samningnum í gegnum þingið.[10] Ríkisstjórnin hélt naumlega velli en Sjálfstæðisflokkurinn var samt ótvíræður sigurvegari kosninganna árið 1991[11]. Flokkurinn fékk rúmlega 38% atkvæða og 26 þingmenn kjörna. Fljótlega kom í ljós að Alþýðuflokkurinn treysti ekki hinum stjórnarflokkunum til að klára EES-dæmið. Jón Baldvin þáði þvi boð Davíðs Oddssonar að koma út í Viðey og hefja formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þær viðræður gengu hratt og örugglega fyrir sig og þann 30. apríl 1991 tók hin svokallaða Viðeyjarstjórn við völdum. Það má þvi færa sterk rök fyrir því að það hafi verið deilur um EES-samninginn sem gerðu útslagið að hin nýja ríkisstjórn tók við völdum.
Frelsi í útflutningi sjávarafurða
breytaEftir mistök í sölu og markaðssetningar íslenskra sjávarafurða á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, var sett á stofn Fiskimálanefnd sem hafði mikil áhrif á útflutning á fjórða áratug aldarinnar. Þá var útflutningur vissra afurða sett í hendur fyrirtækja sem ýmist voru í eigu ríkisins eða framleiðenda sem höfðu einkarétt á útflutningi, eins og Síldarútvegsnefnd og Sölusamband Íslenskra Fiskframleiðenda, SÍF, sem seldi saltfisk. Samtök framleiðenda eins og Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna, SH, og Sjávarafurðadeild Sambandsins sem seldu frosinn fisk fyrir eigendur í sameignarfélögum. Þá Samlag skreiðarframleiðenda sem seldi skreið fyrir sína félagsmenn. Öll þessi samtök höfðu það markmið að auka vörugæði og leita bestu mögulegu markaða fyrir sjávarafurðir sem haldið var fram að væri í hæsta gæðaflokki. En lengi var það ríkið sem veitti útflutningsleyfi og gat þar með heft útflutning. Smátt og smátt linuðust tök þeirra sem höfðu sérréttindi í útflutningi, [12]
Þegar komið er að tímabili Viðeyjarstjórnarinnar voru fleiri aðilar, sérstaklega framleiðendur eins og Samherji, farnir að selja sínar vörur milliliðalaust. Með aðild að EES varð sókn á markaði Evrópu auðveldari, og fjaraði undan stóru sölusamtökunum. Síldarútvegsnefnd lokaði 1998, SÍF, SH og Sjávarafurðadeild voru ekki lengur með föst tök á seljendum, og liðu þau undir lok sem slík. Kristján Hjaltason, sérfræðingur í sölumálum sjávarafurða segir „ Í krafti magnsins gátu þau náð mjög sterkri samningsstöðu á mikilvægustu mörkuðunum. Þetta er sjaldan hægt í dag, en því miður hefur valdið oft flust frá íslenskum seljendum til kaupenda erlendis“.[13]
Áhrif EES á útflutning
breytaEES-samningurinn átti að greiða fyrir viðskiptum við Evrópu og gefa íslenskum útflutningi greiðari aðgang að Evrópumörkuðum.
Til skamms tíma hafði samningurinn lítil áhrif á mikilvægusta útflutningsatvinnuveginn, sjávarútveg, og útflutning frosinna sjávarafurða.
Á árunum fyrir EES var mög stór hluti frosins fisks seldur til Bandaríkjanna. Hér erum við að tala um vörutegundirnar blokk þorskflök, önnur fryst þorskflök, önnur fryst ýsuflök, blokkfryst ufsaflök og önnur fryst ufsaflök. Á árinu 1990 fengust 32% tekna útflutnings og fór 28% magns þessara afurða til Bandaríkjanna, meðan 64% magns þessara afurða fór Evrópu, nánar tiltekið Bretlands, Frakklands og Þýskalands og fengust 62% tekna.
Eftir EES, árið 1998 var útflutningur þessara afurða til Bandaríkjanna 36% magns sem gaf 39% tekna meðan samsvarandi útflutningur til Evrópu var 55% magns og 54% tekna.
Á tímabilinu minnkaði hlutfall Evrópumarkaða af útflutningstekjum sjávarútvegs um 8%, meðan hlutfall Bandaríkjamarkaðar af útflutningstekjum jókst um 7%.
Langtímaáhrif EES-samningsins
breytaTil lengri tíma hefur EES-samningurinn enguð að síður haft gríðarleg áhrif , bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Hann hefur stuðlað að aukinni alþjóðavæðingu, bættri neytendavernd og efnahagslegum framförum en einnig skapað áskoranir, svo sem aukna samkeppni og aðlögun að erlendu regluverki.[15]
Frjálst flæði vinnuafls
breytaÞessi þróun endurspeglar aukna alþjóðavæðingu íslensks samfélags og vinnumarkaðar frá því að EES-samningurinn tók gildi, sem hefur auðveldað frjálst flæði vinnuafls milli aðildarríkja. En þessi breyting tók töluverðan tíma. Fjöldi erlendra ríkisborgara hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 1994. Þá voru 3.500 erlendir ríkisborgar búsettir á Íslandi sem samsvaraði um 1,3% af heildarmannfjölda landsins. Til samanburðar voru 63.528 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi, sem samsvarar 16,6% af heildarmannfjölda landsins þann 1. janúar 2024.[16] Þessi fjölgun erlendra ríkisborgara hefur haft veruleg áhrif á íslenskan vinnumarkað. Erlendir ríkisborgarar hafa mætt aukinni eftirspurn eftir vinnuafli í ýmsum atvinnugreinum, sérstaklega í ferðaþjónustu, byggingariðnaði og fiskvinnslu.
Ráðherrar og ráðuneyti
breytaHeimildir
breyta- ↑ European Commission President, Jacques Delors. E.F.T.A., 1989. Black and White. EFTA 40 Years. [CD-ROM]. [Brussels]: European Free Trade Association, [s.d.]. https://www.cvce.eu/en/collections/unit-content/-/unit/02bb76df-d066-4c08-a58a-d4686a3e68ff/346d8b19-175c-4c8b-9df8-5b4c81f74833/Resources#b9c06b95-db97-4774-a700-e8aea5172233_en&overlay
- ↑ Ferill málsins á Alþingi. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/116/1/?ltg=116&mnr=1
- ↑ https://www.althingi.is/lagas/131b/1993002.html
- ↑ Baldur Þórhallsson, „Evrópustefna íslenskra stjórnvalda: Stefnumótun, átök og afleiðingar.“ Í Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007, ritstj. Valur Ingimundarson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag), bls.81
- ↑ Ólafur Þ. Stephensen, Áfangi á Evrópuför - Evrópskt efnhagssvæði og íslensk stjórnmál (Reykjavík, 1996) bls.160
- ↑ Dagur B. Eggertsson, Steingrímur Hermannsson 3. bindi, bls.342–343
- ↑ Morgunblaðið, „Innganga í ESB er ekki á dagsskrá,“ 16. apríl 1991.
- ↑ Morgunblaðið, „Grundvallarágreiningur í ríkisstjórn um ýmis samningsatriði,“ 13.apríl 1991.
- ↑ Dagur B. Eggertsson, Steingrímur Hermannsson 3. bindi, bls.342–343.
- ↑ Eiríkur Bergmann, Sjálfstæð þjóð, Forlagið 2001 bls.117
- ↑ https://www.althingi.is/thingmenn/althingiskosningar/kosningar-og-kosningaurslit/kosningar-fra-1919/althingiskosningar-1991/
- ↑ Helgi Skúli Kjartansson, Halldór Bjarnason,Guðmundur Jónsson, Líftaug Landsins, seinna bindi, 2017. Bls.401
- ↑ Kristján Hjaltason, Mikil áhrif sölusamtaka á árangur sjávarútvegsins https://factsofseafood.com/mikil-ahrif-solusamtaka-a-arangur-sjavarutvegsins/,2022
- ↑ Hagtíðindi 1991, Útfluttar vörur eftir vöruflokkum (Hagstofuflokkun) og löndum janúar-desember 1990, s 23-24,Hagtíðindi 1999 Útfluttar vörur eftir vöruflokkum (Hagstofuflokkun) og löndum janúar-desember, s 30-31
- ↑ Hagfræðisstofnun Háskóla Íslands. ,,Áhrif samningsins um Evrópskt efnahagssvæði á íslenskt efnahagslíf". Skýrsla unnin fyrir utanríkisráðuneytið 2018
- ↑ „Hagstofa Íslands. ,,Mannfjöldi Íslands í lok árs 2024"“.