Rannveig Guðmundsdóttir
Rannveig Guðmundsdóttir (f. 15. september 1940) er fyrrverandi alþingismaður. Rannveig var félagsmálaráðherra frá árinu 1994-1995 og forseti Norðurlandaráðs árið 2005.
Rannveig fæddist á Ísafirði og foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Kristján Guðmundsson skipstjóri og Sigurjóna Guðmundína Jónasdóttir húsmóðir. Eiginmaður Rannveigar er Sverrir Jónsson tæknifræðingur og eiga þau þrjú börn, Sigurjónu, Eyjólf Orra og Jón Einar. Rannveig er tengdamóðir söngvarans Kristjáns Jóhannssonar.
Nám og störf
breytaRannveig lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar árið 1956. Hún sótti námskeið í tölvufræðum í Ósló og Reykjavík frá 1970-1972.
Rannveig starfaði hjá Pósti og síma á Ísafirði frá 1956–1962. Hún vann við skrifstofu- og verslunarstörf 1962-1963 og 1967-1968 og hjá tölvudeild Loftleiða frá 1972-1976. Hún var bæjarfulltrúi í Kópavogi frá 1978-1988, þar af forseti bæjarstjórnar í þrjú ár og formaður bæjarráðs í eitt ár. Hún var aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra frá 1988-1989. Hún var alþingismaður frá 1989-2007, fyrst sem þingmaður Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi en síðar Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Rannveg gegndi embætti félagsmálaráðherra frá 1994-1995.
Rannveig sat í félagsmálaráði Kópavogs frá 1978-1986 og var formaður ráðsins frá 1982-1986. Hún var formaður stjórnar Örva, vinnustofu fyrir fatlaða frá 1982–1986, sat í stjórn launanefndar sveitarfélaga frá 1986-1988 og í stjórn Sparisjóðs Kópavogs frá 1981–1988, var formaður húsnæðismálastjórnar frá 1987-1989. Hún var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1989 og 1996 og sat í sóknarnefnd Digraneskirkju um tíma.[1]
Tilvísun
breyta- ↑ Alþingi, Æviágrip - Rannveig Guðmundsdóttir (skoðað 29. júní 2019)