Viðarlundin

Almenningsgarður og skógræktarreitur í Þórshöfn í Færeyjum.

Viðarlundin (íslenska: Viðarlundurinn), einnig kölluð Plantasjan (danska: Plantagen), er stærsti almenningsgarður Þórshafnar og elsti, stærsti og mest sótti skógur í Færeyjum. Garðurinn er einnig nefndur Viðarlundin í Havn eða Viðarlundin í Gundadali til þess að greina hann frá Viðarlundinum á Debesartrøð og Viðarlundinum í Niðara Hoydali, sem einnig eru í Þórshöfn. Þess má geta að orðið lund er kvenkyns á færeysku og fallbeygist sem slíkt. Skógræktarreitir í Færeyjum eru gjarnan kallaðir viðarlundir.[1]

Viðarlundin á bæjaruppdrætti af Þórshöfn.
Minnisvarði teirra sjólátnu.

Garðurinn var stofnaður árið 1903, og kom óskin um að rækta skóg við Þórshöfn líklega frá Jóannesi Paturssyni, þingmanni og kóngsbónda á Kirkjubæ.[2] Garðurinn var stækkaður árin 1969 og 1979.[2] Þann 21. desember 1988 gekk mikið óveður yfir Færeyjar, sem felldi mörg tré í skóginum og víðar á eyjunum.[3]

Fjallað er um garðinn í vinsælu dægurlagi frá 1957, Eitt sunnukvøld í Plantasjuni, eftir Simme Jacobsen.

Staðhættir, gróðurfar og dýraríki

breyta

Viðarlundin þekur um 7,7 ha í grunnum dal á milli Varðagøtu, Gundadalsvegs og Hoydalsvegs, rétt fyrir ofan miðbæ Þórshafnar. Listasafn Færeyja er staðsett í norðurhluta garðsins, og má finna fjölda listaverka um garðinn. Bæjarlækurinn Havnará rennur um smástíflur og tjarnir niður dalinn. Í henni er urriði.[2]

Viðarlundin er mesta trjásafn Færeyja. Sitkagreni og stafafura eru þar ríkjandi, en einnig vaxa þar alaskaösp, beyki, fagursýprus, japanslerki, ásamt ýmsum tegundum af elri, reyni, víði og þini. Þetta eru helst trjátegundir frá vesturströnd Norður-Ameríku og norðurhluta Evrópu sem einnig þekkjast í skógrækt á Íslandi. Athyglisverður er þó fjöldinn af trjátegundum frá suðurodda Suður-Ameríku, en í Viðarlundinum má finna nokkra apahrelli og fjöldan allan af lenjum — þar á meðal fjallalenju, grænlenju og hvítlenju.[2]

Í Viðarlundinum er fjölbreytt fuglalíf. Til algengra tegunda teljast glókollur, músarrindill, glóbrystingur, gráspör, stari, svartþröstur, bjargdúfa, tyrkjadúfa, svartkráka, stokkönd, sílamáfur og silfurmáfur.

Minnisvarðinn

breyta

Á hæð í miðjum garðinum stendur minnisvarði um drukknaða sjómenn (á færeysku: minnisvarði teirra sjólátnu). Minnisvarðinn mótast af bronsstyttu af sjómanni í hefðbundnum sjóklæðum, sem stendur á háum stólpa úr höggnu basaltgrjóti. Lögun stólpans minnir í senn á akkeri skips og Þórshamarinn, sem er merki Þórshafnar. Minnisvarði þessi sést víða að og er eitt helsta kennileiti bæjarins.

Minnisvarðinn var vígður 22. júlí 1956 af Jákupi Joensen prófasti, og var gerður af norska myndhöggvaranum Kåre Orud(no).[4] Haldin var hugmyndasamkeppni um hönnun minnisvarðans árið 1949, en Sigurjón Ólafsson hlaut önnur verðlaun. Alls bárust dómnefndinni 72 hugmyndir, og voru fyrstu verðlaun 2.500 danskar krónur. Formaður dómnefndarinnar var Per Palle Storm(en; no; nn), norskur myndhöggvari.[5] Stálpinn var hlaðinn af Jacobi Simonsen múrara, og var verkið sett upp af byggingarfélaginu Lamhauge & Waagstein. Veggskildirnir voru gerðir af Føroya mekaniska grótídnaði.[6] Verkið kostaði 113.000 danskar krónur.[4]

Á allraheilagramessu hvert ár er haldinn minningardagur þeirra sem farist hafa á sjó (minningardagur teirra sjólátnu(fo)), og er þá haldin minningarathöfn við minnisvarðann í Viðarlundinum ásamt við aðra minnisvarða í Færeyjum.

Á veggskildi við minnisvarðann stendur:

Føroya fólk setti kumlið
eftir landsmenn sínar,
ið fórust á sjónum bardagaárini 1939–1945,
teimum til tøkk og áminning

Þetta merkir:

„Færeyja fólk reisti kuml
eftir landsmenn sína,
er fórust á sjó styrjaldarárin 1939–1945
þeim til þakkar og minningar.

Minnisvarði teirra sjólátnu.

Myndir frá Viðarlundinum í Þórshöfn

breyta

Heimildir

breyta
  • Andrias Højgaard; Jóhannes Jóhansen; Søren Ødum, ritstjórar (1989). „Træplanting í Føroyum í eina øld“. Umhvørvisstovan (www.us.fo). Fróðskaparritið, serrit nr. XIV. Tórshavn: Skógfriðingarnevndin, Foroya Fróðskaparfelag. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 6. febrúar 2020. Sótt 5. desember 2019.

Tilvísanir

breyta
  1. viðarlund. www.sprotin.fo (á færeysku). Orðabókagrunnurin. Sótt 5. desember 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Martin Reimers. „Tórshavn Byskov“. www.dendrologi.dk (á dönsku). Sótt 5. desember 2019.
  3. Dokumentarurin: »Jólaódnin«, heimildarmynd um óveðrið 21. desember 1988. Kringvarp Føroya, 19. desember 2013.
  4. 4,0 4,1 „Minnisvarðin í viðarlundini 50 ár“. www.folkakirkjan.fo (á færeysku). Fólkakirkjan. 30. október 2006. Sótt 5. desember 2019.
  5. „Minnisvarði í Þórshöfn um færeyska sjómenn, sem fórust á stríðsárunum“. www.timarit.is. Alþýðublaðið. 3. september 1949. Sótt 5. desember 2019.
  6. „Ymisk grótarbeiði í Føroyum“. www.fgv.fo (á færeysku). Føroya Grótvirki. Sótt 5. desember 2019.