Vísitala atvinnufrelsis

Vísitala atvinnufrelsis (e. Index of Economic Freedom) er vísitala, sem nokkrir hagfræðingar undir forystu Miltons Friedmans og James Gwartneys hafa smíðað til að mæla atvinnufrelsi í ólíkum löndum. Að verkinu stendur fjöldi rannsóknastofnana um heim allan undir forystu Fraser Institute í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada. Smám saman hafa höfundar vísitölunnar endurbætt mælinguna og fært hana út. Vísitalan var síðast gefin út 2006 og þá unnið úr tölum frá 2004. Á Íslandi sér Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, um söfnun upplýsinga og kynningu á vísitölunni.

Samsetning

breyta

Vísitala atvinnufrelsis er sett saman úr mælingum á fimm sviðum: 1) umfangi ríkisins, 2) réttaröryggi og friðhelgi eignarréttar, 3) aðgangi að traustum peningum, 4) frelsi til alþjóðlegra viðskipta, 5) reglum um lánamarkað, vinnumarkað og rekstur fyrirtækja. Gefin eru stig frá 0 upp í 10.

Helstu niðurstöður

breyta

Atvinnufrelsi hefur aukist í heiminum. Það var að meðaltali 5,1 árið 1980, en er 6,5 eftir síðustu mælingu (2004). Í þeim 102 löndum, þar sem atvinnufrelsi var mælt 1980, hefur það aukist í 98 þeirra á þessu tímabili, en minnkað í fjórum. Atvinnulíf er frjálsast í eftirfarandi löndum samkvæmt þessari mælingu:

Atvinnulíf er ófrjálsast í Simbabve, Myanmar (Búrma), Vestur-Kongó, Austur-Kongó, Venesúela, Gíneu-Bissá, Alsír, Búrúndí, Rúanda og Miðafríkulýðveldinu. Tölur eru þó ekki tiltækar um nokkur önnur lönd, sem sennilega búa við mjög mikið ófrelsi í atvinnumálum, svo sem Norður-Kóreu og Kúbu.

Atvinnufrelsi á Íslandi

breyta

Ísland er eitt þeirra ríkja, þar sem atvinnufrelsi hefur aukist hvað mest síðustu þrjátíu árin. Það hefur farið úr 64. í níunda sæti meðal landa heims. Atvinnufrelsi á Íslandi var:

  • 1970 6,3 (26. af 54 löndum)
  • 1975 4,7 (53. af 72 löndum)
  • 1980 5,1 (64. af 105 löndum)
  • 1985 5,3 (61. af 111 löndum)
  • 1990 6,6 (26. af 113 löndum)
  • 1995 7,4 (17. af 123 löndum)
  • 2000 7,7 (12. af 123 löndum)
  • 2004 7,9 (9. af 130 löndum)

Sennilega hefur atvinnufrelsi aukist enn meir síðan, m. a. vegna skattalækkana og einkavæðingar ríkisfyrirtækja á 10. áratug 20. aldar.

Samband atvinnufrelsis og lífskjara

breyta

Sterkt samband kemur við þessa mælingu í ljós milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara almennings.

  • Í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er frjálsast, er meðallandsframleiðsla á mann (per-capita GDP) 24.402 Bandaríkjadalir. Í þeim fjórðungi, þar sem atvinnulíf er ófrjálsast, er hún aðeins 2.998 Bandaríkjadalir.
  • Sterkt samband er líka milli atvinnufrelsis og hagvaxtar. Í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er frjálsast, er hagvöxtur 2,1%. Í þeim fjórðungi, þar sem atvinnulíf er ófrjálsast, er hann -0,2%, þ. e. landsframleiðsla á mann minnkar.
  • Fleira má nefna. Í frjálsasta fjórðungnum er atvinnuleysi 5,9%, en í hinum ófrjálsasta 12,9% að meðaltali.
  • Í frjálsasta fjórðungnum er meðalaldur 77,8 ár, en í hinum ófrjálsasta 55 ár.
  • Í frjálsasta fjórðungnum er atvinnuþátttaka barna 0,3% vinnu, en í hinum ófrjálsasta 19,3%.
  • Í frjálsasta fjórðungnum eru meðaltekjur 10% fátækasta hluta þjóðarinnar 6.519 Bandaríkjadalir, en í ófrjálsasta fjórðungnum 826 Bandaríkjadalir.
  • Í frjálsasta fjórðungnum eru lýðræði og mannréttindi virt mun meir en í hinum ófrjálsasta. Á mælikvarða frá 1 upp í 7, þar sem 1 merkir mesta vernd réttinda og 7 hina minnstu, er í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er frjálsast, meðaltalið 1,8, en í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er ófrjálsast, er þetta meðaltal 4,6.

Tenglar

breyta