Gínea-Bissá (portúgalska: Guiné-Bissau; fúlamál: 𞤘𞤭𞤲𞤫 𞤄𞤭𞤧𞤢𞥄𞤱𞤮 Gine-Bisaawo; mandinkamál: ߖߌ߬ߣߍ߫ ߓߌߛߊߥߏ߫ Gine-Bisawo), opinberlega Lýðveldið Gínea-Bissá (República da Guiné-Bissau), er land í Vestur-Afríku. Það á strönd að Atlantshafi í vestri og landamæri að Senegal í norðri og Gíneu í suðri og austri. Það er eitt af minnstu löndum álfunnar og nær yfir rúmlega 36 þúsund ferkílómetra. Íbúar voru um 2 milljónir árið 2023.

Lýðveldið Gínea-Bissá
República da Guiné-Bissau
Fáni Gíneu-Bissá Skjaldarmerki Gíneu-Bissá
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unidade, Luta, Progresso (portúgalska)
Eining, barátta, framfarir
Þjóðsöngur:
Esta é a Nossa Pátria Bem Amada
Staðsetning Gíneu-Bissá
Höfuðborg Bissá
Opinbert tungumál portúgalska
Stjórnarfar Forsetaþingræði

Forseti Umaro Sissoco Embaló
Forsætisráðherra Rui Duarte de Barros
Sjálfstæði frá Portúgal
 • Yfirlýst 24. september 1973 
 • Viðurkennt 10. september 1974 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
134. sæti
36.125 km²
22,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
150. sæti
2.078.820
46,9/km²
VLF (KMJ) áætl. 2023
 • Samtals 6 millj. dala (168. sæti)
 • Á mann 3.088 dalir (165. sæti)
VÞL (2021) 0.483 (175. sæti)
Gjaldmiðill CFA-franki
Tímabelti UTC
Þjóðarlén .gw
Landsnúmer +245

Gínea-Bissá var áður hluti af konungsríkinu Kaabu og síðar Malíveldinu. Portúgalska heimsveldið hóf að leggja landið undir sig á 16. öld, en stjórn þeirra þar var takmörkuð fram á fyrri hluta 20. aldar. Síðasta innfædda konungsríkið á meginlandinu sem gafst upp var ríki Papela sem João Teixeira Pinto og Abdul Injai tókst að sigra árið 1915. Bissagoseyjar undan ströndinni voru lagðar undir portúgölsku nýlenduna árið 1936. Nýlenda Portúgala nefndist Portúgalska Gínea, en við sjálfstæði var nafni höfuðborgarinnar Bissá bætt við nafnið til að koma í veg fyrir rugling við Gíneu, sem áður hét Franska Gínea. Eftir sjálfstæði hefur pólitískur óstöðugleiki einkennt sögu landsins. Núverandi forseti er Umaro Sissoco Embaló sem var kosinn árið 2019.[1]

Aðeins 2% íbúa tala opinbert tungumál landsins, portúgölsku, sem fyrsta mál og um 33% sem annað mál. Hin eiginlega þjóðtunga landsins er crioulo sem er kreólamál byggt á portúgölsku. Um 54% íbúa tala crioulo sem fyrsta mál samkvæmt rannsókn frá 2012, og um 40% sem annað mál. Um helmingur íbúa eru múslimar, um 20% aðhyllast kristni og um 15% aðhyllast hefðbundin afrísk trúarbrögð, en engin ein trúarbrögð eru ríkjandi í landinu. Gínea-Bissá er með fátækustu ríkjum heims.

Gínea-Bissá er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Afríkusambandinu, Efnahagsbandalagi Vestur-Afríkuríkja, Samtökum um íslamska samvinnu, Samtökum portúgölskumælandi ríkja, Samtökum frönskumælandi ríkja, Samtökum um frið og samvinnu í Suður-Atlantshafi, og var aðili að Rómanska bandalaginu.

Landfræði

breyta
 
Sjaldgæfir saltvatnsflóðhestar á eyjunni Orango.
 
Caravela, Bissagos-eyjum.
 
Dæmigert landslag í Gíneu-Bissá.

Gínea-Bissá á landamæri að Senegal í norðri og Gíneu í suðri og austri,[2] og strönd að Atlantshafi í vestri.[2] Landið er að mestu milli 11. og 13. breiddargráðu norður (lítið svæði er sunnan við 11. gráðu) og 11. og 15. lengdargráðu vestur.[3]

Landið er 36.125 km2 að stærð og er því stærra en Taívan eða Belgía. Hæsti punktur landsins er 300 metrar yfir sjávarmáli. Landið er að mestu láglend strandslétta með fenjaskóga og blandaða skóglenda gresju í austri.[4] Veðurfar skiptist í regntímabil og þurrkatímabil þegar þurrir harmattanvindar blása frá Sahara. Bijagos-eyjaklasinn liggur undan strönd meginlandsins.[5]

Stjórnmál

breyta
 
Forsetahöllin í Gíneu-Bissá.

Gínea-Bissá er lýðveldi sem býr við forsetaþingræði og fulltrúalýðræði.[6] Áður fyrr var landið sósíalískt flokksræði Afríska flokksins fyrir sjálfstæði Gíneu og Grænhöfða, en fjölflokkakerfi var komið á árið 1991.[6] Forseti Gíneu-Bissá er þjóðhöfðingi, en forsætisráðherra Gíneu-Bissá er stjórnarleiðtogi. Jose Mario Vaz var fyrsti forsetinn sem náði að sitja fullt fimm ára kjörtímabil árið 2019.[7]

Þing Gíneu-Bissá kemur saman í einni deild. Þar sitja 102 þingmenn sem eru kjörnir til fjögurra ára í senn. Hæstiréttur Gíneu-Bissá er skipaður níu dómurum sem eru tilnefndir af dómstólaráði.[8]

Tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir eru Afríski flokkurinn fyrir sjálfstæði Gíneu og Grænhöfða (PAIGC) og Félagslegi umbótaflokkurinn (PRS). Auk þeirra eru yfir 20 smáflokkar.[9]

Héruð

breyta
 
Héruð Gíneu-Bissá.

Gínea-Bissá skiptist í átta héruð (regiões) og eitt sjálfstætt stjórnsýsluumdæmi í höfuðborginni, Bissá. Héruðin skiptast síðan í 37 umdæmi.

Efnahagslíf

breyta
 
Hlutur helstu útflutningsvara Gíneu-Bissá árið 2019.

Verg landsframleiðsla á mann í Gíneu-Bissá og vísitala um þróun lífsgæða, eru með því lægsta sem gerist í heiminum. Yfir tveir þriðju íbúa eru undir fátæktarmörkum.[10] Helsta undirstaða efnahagslífsins er landbúnaður. Fiskur, kasjúhnetur og bambarajarðhnetur eru helstu útflutningsafurðirnar.[11]

Langt tímabil sem einkennst hefur af pólitískum óstöðugleika hefur valdið niðursveiflu í efnahagslífinu, versnandi samfélagsaðstæðum og auknu ójafnvægi. Það tekur að jafnaði lengur að skrá nýtt fyrirtæki í Gíneu-Bissá (233 daga, eða 33 vikur) en í nokkru öðru landi heims fyrir utan Súrínam.[12]

Eftir margra ára efnahagskreppu og óstöðugleika, tók landið upp CFA-franka árið 1997.[13] Borgarastyrjöldin í Gíneu-Bissá 1998 til 1999 og valdaránið 2003 höfðu í för með sér efnahagslega niðursveiflu, og mikið af innviðum samfélagsins var í rúst. Eftir að helstu stjórnmálaflokkar landsins undirrituðu stöðugleikasamþykkt, sem var forsenda þess að landið fengi uppbyggingarstyrki frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hefur efnahagslífið aðeins tekið við sér.[14] Síðustu ár hefur fjárfesting í innviðum viðhaldið hagvexti, en jafnframt aukið opinberar skuldir, sem eru yfir 70% af landsframleiðslu.[15]

Um 2005 hófu eiturlyfjasmyglarar frá Rómönsku Ameríku að nota Gíneu-Bissá og nærliggjandi Vestur-Afríkuríki sem umskipunarhöfn fyrir kókaínsendingar til Evrópu.[16] Landið hefur verið nefnt sem dæmi um ríki þar sem stjórnkerfið gæti fallið í hendurnar á eiturlyfjahringum, eða orðið svokallað eiturlyfjaríki.[17]

Íbúar

breyta

Trúarbrögð

breyta

Gögn um trúarbrögð í landinu sýna misvísandi tölur. Samkvæmt mati CIA World Factbook frá 2008 eru 45,1% íbúa múslimar, 22,1% kristnir, 14,9% aðhyllast afrísk trúarbrögð, 2% engin, og 15,9% gefa ekkert upp.[18] Könnun frá Pew Research frá 2010 sýndi að stærsti trúarhópurinn væru múslimar (45,1%), en 19,7% aðhylltust kristni, 30,9% alþýðutrú og 4,3% annað.[19][20]

Samkvæmt annarri Pew-skýrslu um aðild að trúfélögum múslima er ekkert trúfélag ríkjandi í Gíneu-Bissá. Samkvæmt skýrslunni gilti það sama um önnur lönd í Afríku sunnan Sahara, eins og Tansaníu, Úganda, Líberíu, Nígeríu og Kamerún. Annars staðar í heiminum var ýmist ríkjandi afstaða „bara íslam“, blanda af súnní og sjía eða aðallega súnní. (s. 30).[21] Skýrslan staðhæfði líka að löndin sem lýstu því yfir að ekkert trúfélag væri ríkjandi væru aðallega lönd í Afríku sunnan Sahara.[22] Önnur Pew-skýrsla, The Future of World Religions, spáði því að hlutfall múslima myndi aukast í Gíneu-Bissá milli 2010 og 2050.[23]

Margir landsmenn stunda blendingstrú með þáttum úr bæði íslam og kristni ásamt hefðbundnum afrískum trúarbrögðum.[4][24] Múslimar eru flestir í norðri og austri en kristnir eru flestir í suðri og við ströndina. Flestir kristnir íbúar landsins eru rómversk-kaþólskir.[25]

Tilvísanir

breyta
  1. „Guinea-Bissau: Swearing-in of new President unlikely to bring stability, says UN representative“. UN News (enska). 14. febrúar 2020. Sótt 23. september 2020.
  2. 2,0 2,1 „Guinea-Bissau Maps & Facts“. WorldAtlas. Sótt 26. janúar 2021.
  3. „Coordinates of Guinea-Bissau“. GeoDatos. 2021. Sótt 25. febrúar 2021.
  4. 4,0 4,1 "Guinea-Bissau" Geymt 28 desember 2010 í Wayback Machine, CIA the World Factbook, Cia.gov. Sótt 5. febrúar 2012.
  5. Nossiter, Adam (4. nóvember 2009) "Bijagós, a Tranquil Haven in a Troubled Land", The New York Times, 8. nóvember 2009
  6. 6,0 6,1 „Guinea-Bissau (09/03)“. U.S. Department of State. Sótt 26. janúar 2021.
  7. Johannes Beck (28.11.2019). „Opinion: Guinea-Bissau votes out its president“. DW. Sótt 9.5.2024.
  8. „Field Listing: Judicial branch“. CIA World Factbook. Sótt 9.5.2024.
  9. Guinea-Bissau Political Parties Geymt 9 maí 2013 í Wayback Machine. Nationsencyclopedia.com. Retrieved 22 June 2013.
  10. „World Bank profile“. World Bank.org. 31. maí 2013. Sótt 22. júní 2013.„Geymd eintak“. Afritað af uppruna á 11 nóvember 2012. Sótt 10 maí 2024.
  11. „Guinea-Bissau country profile“. BBC News. 2. mars 2020. Sótt 26. janúar 2021.
  12. The Economist (2007). Pocket World in Figures (2008. útgáfa). London: Profile Books. ISBN 978-1861978448.
  13. CFA Franc and Guinea-Bissau Geymt 26 október 2012 í Wayback Machine. Uemoa.int. Retrieved 22 June 2013.
  14. „Guinea-Bissau and the IMF“. Imf.org. 13. maí 2013. Sótt 22. júní 2013.„Geymd eintak“. Afritað af uppruna á 16 október 2012. Sótt 10 maí 2024.
  15. „Guinea-Bissau Economic Outlook“. African Development Bank Group. Sótt 10.5.2024.
  16. „Guinea-Bissau:A narco-state?“. Time. 29. október 2009. Sótt 22. júní 2013.„Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29 október 2012. Sótt 10 maí 2024.
  17. Isabelle King (13.04.2022). „Africa's Narco-State: An Attempted Coup and Drug Trafficking in Guinea-Bissau“. Harvard International Review.
  18. „Africa: Guinea-Bissau“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 22 október 2020. Sótt 1. janúar 2020.
  19. „Tolerance and Tension: Islam and Christianity in Sub-Saharan Africa“. Pew Research Center. 15. apríl 2010.
  20. „Tolerance and Tension: Islam and Christianity in Sub-Saharan Africa“ (PDF). Pew Forum on Religious & Public life. apríl 2010. bls. 20. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 30. apríl 2018. Sótt 25. apríl 2018.
  21. „The World's Muslims: Unity and Diversity“ (PDF). Pew Research Center. 9. ágúst 2012. bls. 28–30. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. október 2012.
  22. „The World's Muslims: Unity and Diversity“ (PDF). Pew Research Center. 9. ágúst 2012. bls. 29. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. október 2012.
  23. „Religions in Guinea Bissau“. Global Religious Futures. Pew-Templeton. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. janúar 2018. Sótt 25. nóvember 2021.
  24. "Guinea-Bissau" Geymt 16 apríl 2009 í Wayback Machine, Encyclopædia Britannica
  25. Guinea-Bissau: Society & Culture Complete Report an All-Inclusive Profile Combining All of Our Society and Culture Reports (2nd. útgáfa). Petaluma: World Trade Press. 2010. bls. 7. ISBN 978-1607804666.
   Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.