Suzhou

stórborg á austurhluta Jiangsu-héraðs í Kína

Suzhou (kínverska:苏州; rómönskun: Sūzhōu; einnig þekkt sem Soo-chow) er stórborg á austurhluta Jiangsu-héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína. Í þessari vatnaborg við suðurhluta Jangtsefljóts voru árið 2020 um 5,9 milljónir íbúar í borginni sjálfri, en á stjórnsýslusvæðinu öllu bjuggu um 12.7 milljónir.[1]

Suzhou við Tai vatn í Jiangsu-héraði Kína. Árið 2020 bjuggu í vatnaborginni 7,4 milljónir manna, en um 12.7 milljónir á öllu stjórnsýslusvæði borgarinnar.
Suzhou við Tai vatn í Jiangsu -héraði Kína. Árið 2020 bjuggu í vatnaborginni 5,9 milljónir manna, en um 12.7 milljónir á öllu stjórnsýslusvæði borgarinnar.
Kort er sýnir staðsetningu Suzhou borgar í Jiangsu héraði í Kína.
Kort er sýnir staðsetningu Suzhou borgar í Jiangsu héraði í Kína.
Kort af Jiangsu héraði er sýnir staðsetningu Suzhou borgar.
Kort af Jiangsu héraði er sýnir staðsetningu Suzhou borgar (rauðmerkt).

Suzhou situr á fremur flatri, láglendri sléttu milli Tai-vatns í vestri og stórborgarinnar Sjanghæ í austri. Borgin þekur 8.657 ferkílómetra svæði með ám, vötnum og sjávarföllum, sem eru 36,6% af heildarflatarmálinu. Hún er staðsett á suðurhluta Miklaskurðar, manngerðra skipa- og áveituskurða í Austur Kína; er tengir saman tvö helstu fljót Kína: Gulafljót og Jangtsefljót, auk annarra fljóta og vatna.

Umkringd skurðum á öllum fjórum hliðum og skorin þvert með minni síkjum, stjórnar borgin Jangtse óshólmasvæðinu norðan og norðaustur af Tai-vatni. Suzhou er staður mikillar fegurðar, með vötnum, ám, tjörnum, frægum görðum og röð fallegra hæða meðfram austurströnd vatnsins. Borgin liggur einnig í miðju eins gjöfulasta landbúnaðarhéraðs Kína.

Allt frá 10. öld hefur Suzhou verið mikilvæg miðstöð iðnaðar og utanríkisviðskipta. Síðan efnahagsumbætur hófust í Kína árið 1978, hefur Suzhou verið ört vaxandi stórborg hagvaxtar og aukinnar velmegunar.

 
„Pan-hliðið“ var lengi eini inngangur hins forna borgarmúrs sem byggður var árið 514 f.Kr. og umkringdi og verndaði Suzhou. Nafngiftin kemur frá trédreka á hliðinu sem átti að fæla frá Yue konungsríkið í suðri.

Á tíma Zhouveldisins (9. öld f.Kr.– 207 e.Kr) var byggð þekkt sem „Gusu“ nefnd eftir nærliggjandi Gusu-fjalli, höfuðborg Wu-ríkis. Það var líka kallað Wu. Árið 514 f.Kr. stofnaði Helü konungur af Wu nýja höfuðborg skammt frá Helü borg. Á tímabili stríðsríkjanna hélt Helü-borg áfram að þjóna sem staðbundið aðsetur ríkisstjórnarinnar. Frá þeim svæðum sem það stjórnaði varð staðurinn þekktur sem Wuxian ( „Wu sýsla“) og Wujun („Wu stjórnsetrið“).

Á valdatíma Qin (221 f.Kr.–206 e.Kr.) var staðurinn þekktur sem Kuaiji.

Nafnið „Suzhou“ var fyrst opinberlega notað fyrir borgina árið 589 e.Kr. á tíma Sui-veldisins (581–618). Su (蘇 eða 苏) í nafni þess eru nafnhvörf frá gamla þéttbýlisnafninu „Gusu“. Nafnið Zhou (州) vísar til héraðs eða sýslu (sbr. Guizhou), en var oft notað sem samheiti yfir höfuðborg slíks svæðis (sbr. Guangzhou, Hangzhou o.s.frv.).

Vagga Wu menningar

breyta
 
Skrásetning hins mikla sagnfræðings“ eftir Sima Qian (145 f.Kr.- 91 f.Kr.) geymir mikilvægar heimildir um stofnun Wu-ríkisins á 11. öld f.Kr.

Suzhou er ein vagga Wu menningar og einn af elstu þéttbýlisstöðum við Jangtsefljót. Wu vísar til þess svæðis í Kína sem miðast við Tai-vatn á Jiangnan svæðinu er liggur suður af Jangtse.

Á svokölluðu vor- og hausttímabili í sögu Kína (770–476 f.Kr.) bjuggu staðbundnir Baiyue ættbálkar sem nefndir voru „Gou Wu“ á landsvæði núverandi nútímaborgar Suzhou. Þessir ættbálkar mynduðu þorp við hæðirnar fyrir ofan votlendið umhverfis Tai-vatn.

Fornum sagnfræðirit Sima Qian sagnfræðings (145 f.Kr.- 91 f.Kr.) greina frá því að Taibo frændi konungs Zhouveldisins hafi stofnað Wu-ríkið í nærliggjandi Wuxi á 11. öld f.Kr. Taibo siðað heimamenn og bætti landbúnað þeirra og áveitustjórn. Wu hirðin flutti síðar til Gusu þar sem nútíma Suzhou liggur. Wu-ríkið stóð frá 12. öld f.Kr.– 473 f.Kr.[2]

Árið 514 f.Kr. flutti Helü konungur af Wu hirð sína til svæðisins og nefni byggðina Helü eftir sjálfum sér. Ráðherra hans Wu Zixu (og nú kínversk goðsögn) tók þátt í skipulagningu þess sem síðar varð grunnur að Suzhou borg. Árið 473 f.Kr. var Wu ríki sigrað og innlimað inn í Yue-ríki er lá í suðaustri. Árið 306 f.Kr. var Yue-ríki innlimað af Chu-lénsríki Zhouveldisins. Leifar hins forna konungsríkis má sjá í dag í hinum 2.500 ára gamla borgarmúr og Pan-hliði hans í Suzhou borg.

Á svokölluðu „tímabili stríðsríkjanna“ (475–221 f.Kr.) var Suzhou aðsetur Wu-sýslu. Eftir landvinninga Qin-veldisins (221–206 f.Kr.) árið 222 f.Kr. var staðurinn höfuðstaður Kuaiji stjórnarsetursins.

Á tíma Sui-veldisins

breyta
 
Garður hins auðmjúka embættismanns. Þar var fyrst garður á tíma Suður-Songveldisins (1131-1162) en honum var ýmist eytt eða breytt. Árið 1513, ákvað Wang Xiancheng, sendiherra og skáld Mingveldisins hógvær starfslok sín og byggði upp garðinn. Sonur hans tapaði honum síðar í veðmáli. Garðurinn er á heimsminjaskrá UNESCO.[3]

Nafnið „Suzhou“ var fyrst opinberlega notað fyrir borgina árið 589 e.Kr. þegar Sui-veldið (581–618) lagði undir sig suðurhluta Kína. Borgarnafnið eru nafnhvörf frá gamla þéttbýlisnafninu „Gusu“ frá tíma Zhouveldisins (9. öld f.Kr.– 207 e.Kr), nefnd eftir nærliggjandi Gusu-fjalli.

Með byggingu Miklaskurðar (umfangsmiklir manngerðir skipa- og áveituskurðir í Austur Kína) varð Suzhou stjórnsýslu- og viðskiptamiðstöð fyrir svæði sem þróaðist hratt yfir í stærsta hrísgrjónafgangssvæði Kína. Að sama skapi jókst hernaðarlegt mikilvægi borgarinnar. Áframhaldandi uppbygging Miklaskurðar á tímum Songveldisins (960–1279) og Júanveldisins (1206–1368) ýtti enn undir framþróun Suzhou.

Árið 1356 gerði Zhang Shicheng (1354 – 1367) konungur Wu-ríkisins, Suzhou að höfuðborg sinni. Árið 1367 tók keppinautur hans, Zhu Yuanzhang, borgina eftir 10 mánaða umsátur. Zhu, sem síðar lýsti sjálfan sig sem fyrsta keisara Mingveldisins, reif gömlu borgarmúrana í miðri Suzhou borg og lagði á þunga skatta á volduga fjölskyldur borgarinnar og héraðsins. En þrátt fyrir skattaáþján og útlegð margra þekktra borgara, varð Suzhou fljótt aftur borg velmegunar.

Á 13. öld heimsótti feneyski ferðamaðurinn Marco Polo borgina og tjáði sig um glæsileika hennar. Wusong-fljót og Suzhou-skurðurinn veittu borginni beinan aðgang að sjónum og um tíma var Suzhou höfn fyrir erlendar siglingar, þar til framburður Jangtsefljótsins og áveitu- og uppgræðsluframkvæmdir hindruðu aðgengi.

Velmegunarár á tíma Ming- og Tjingveldanna

breyta

Á tímum Mingveldisins (1368–1644) og fyrri hluta Tjingveldisins (1644–1912) náði Suzhou borg hámarki velmegunar. Borgin var efnahagslega sterk og uppspretta mikilla skatttekna. Þar voru heimili margra auðugra landeigendafjölskyldna sem byggðu marga merka einkagarða í borginni. Borgin varð einnig miðstöð fræða og lista. Uppsprettur auðs borgarinnar voru silkiiðnaður og útsaumur. Hann varð mikilvæg undirstaða fjármála- og bankaviðskipta borgarinnar. Árið 1880 er talið að íbúafjöldi Suzhou hafi verið um hálf milljón.

Velmegun Suzhou borgar. Hsu Yang (1712–1777), fæddur í Suzhou og síðar hirðmálari Qianlong Kínakeisara (1733–1735), skóp þessa 12 metra löngu málverkarollu árið 1759. Auk listræns gildis er verkið talið ómetanlegur vitnisburður um ástand lands og borgar, ásamt lýsingu daglegs kínversks lífs þess tíma. Myndarolluna má skoða líkt og þú værir á ferð um borgina og umhverfi hennar. Á þessum tíma voru kínverskir listamenn þegar farnir að móta vestræna víðmynd, þar sem smáatriði myndverka sýna líf í kínverskum borgum af mikilli nákvæmni. Í heild sýnir þetta málverk Hsu Yang meira en 4.800 manns, 2.000 byggingar og 400 skip og báta.

Hlutar úr myndarollu Hsu Yang:

19. og 20 öldin

breyta
 
Siglt á vatnaleið í Gusu hverfi. Í Suzhou eru vötn, ár, tjarnir, og skipgengir skurðir mjög áberandi.

Suzhou borg var fyrst opnuð fyrir utanríkisviðskipti með svokölluðum Shimonoseki-sáttmála sem undirritaður var árið 1895 milli Japanska keisaradæmisins og Tjingveldisins í Kína, friðarsamnings er batt enda á fyrra kínverska-japanska stríðið og veitti erlendum ríkjum bestu viðskiptakjör. Þetta var þó án teljandi árangurs fyrir utanríkisviðskipti borgarinnar.[4] Útlendingar opnuðu evrópskan og kínverskan skóla árið 1900 og Suzhou járnbrautarstöðin, með tengingu við Sjanghæ opnaði árið 1906. Rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina voru 7000 silkivefstólar í notkun í borginni. Efnahagur varð þó fyrir neikvæðum áhrifum af erlendri samkeppni og silkiiðnaðurinn, sem að mestu byggði á litlum handverksstæðum, fór mjög hallorka. Um það leyti voru stofnaðar nokkrar nútímaverksmiðjur sem framleiddu satín og bómullarefni. Stórt raforkuver var byggt en lítið var þó um nútímaiðnað í borginni.

Allt fram á upphaf 20. aldar var stór hluti borgarinnar myndaður af eyjum tengdum með ám, lækjum og skurðum við nærliggjandi sveitir. Áður en borgarmúrarnir voru rifnir lágu þeir í um 16 kílómetra hring, þar sem fjögur stór úthverfi stóðu utan þeirra.

Japanir réðust inn í borgina árið 1937 og hernámu allt til stríðsloka árið 1945. Afleiðing stríðsins var mikil eyðilegging borgarinnar og hinna merkilegu garða hennar. Endurreisn þeirra hófst snemma á fimmta áratug síðustu aldar.

Samtímaborgin

breyta
 
Silkiiðnaður í Suzhou hefur verið borginni mikilvægur í gegnum söguna.

Silki- og bómullariðnaðurinn, sem lengi var meginstoð hagkerfis borgarinnar, hefur nú verið nútímavæddur verulega. Eftir níunda áratug síðustu aldar hafa verið byggðar verksmiðjur sem framleiða málmvinnsluvörur, vélar, ýmis efni, lyf, rafeindatæki og unnin matvæli. Nýr mikilvægur hátækniiðnaðargarður fjármagnaður af innlendum fjárfestum og frá Singapúr, hefur verið byggður upp í austurútjaðri borgarinnar.[5]

Fyrsta járnbraut Suzhou sem tengir borgina við Sjanghæ og Nanjing í norðvestri, var opnuð árið 1908. Árið 1936 var byggð ný járnbrautarlína er tengir aðaljárnbrautina milli Sjanghæ og Hangzhou við Jiaxing (í norðurhluta Zhejiang). Einnig eru nú hraðbrautir og hraðbrautir til Kunshan og Changshu á Jangtse óshólmasvæðinu, auk Nanjing, Sjanghæ og Hangzhou. Að auki er enn mikil umferð um vatnaleiðir svæðisins.

Suzhou borg er mikil miðstöð fræða; Suzhou háskóli (áður Dongwu háskóli) og Listaskóli Suzhou voru stofnaðir snemma á 20. öld og síðar voru fleiri háskólar og framhaldsskólar stofnaðir.

Borgin státar af meira en 150 stórkostlegum görðum með hofum, skálum og klettaskúlptúrum. Fjöldi þeirra sem eru frá 11. til 19. aldar var árið 1997 tilnefndur sameiginlega á heimsminjaskrá UNESCO. Þessir merkilegu og fallegu garðar, ásamt öðrum menningar- og sögustöðum Suzhou og nærliggjandi Tai-vatn gera svæðið að vinsælum ferðamannastað.

Stjórnsýsla

breyta

Suzhou borg nær yfir svæði sem telur 8.657 ferkílómetra. Ár, vötn og sjávarföll taka um 36,6% af heildarflatarmáli borgarinnar. Í lok árs 2020 þegar kínverska manntalið var síðast framkvæmt, var íbúafjöldi miðborgarkjarnans 5.892.892 og íbúar á stjórnsýslusvæðinu öllu voru 12.748.262. Undir Suzhou eru fjórar borgir á sýslustigi: Zhangjiagang, Changshu, Taicang og Kunshan, og síðan sex hverfi: Wujiang, Wuzhong, Xiangcheng, Gusu, Suzhou iðnaðargarðurinn og Suzhou hátæknisvæðið (Huqiu hverfi).[6]

Miðborgarhluti Suzhou er óformlega kallaður „gamli bærinn“. Hann er í dag Gusu-hverfið. Í því er mikilvægur þjóðsögu- og menningararfur Kína fólginn í byggingum, görðum, brúm, síkjum o.s.frv. sem njóta minja- og menningarverndar.[7]

Suzhou iðnaðargarðurinn er austan við gamla bæinn og Suzhou hátækni þróunarsvæðið er í Huqiu hverfi í vesturhlutanum.

 
Stjórnsýsluskipting Suzhou-borgar í hverfi og undirborgir
Stjórnsýsla Suzhou
Undirskipting Kínverska Fólksfjöldi 2020 Stærð (km2)
Miðborg
Gusu 姑苏区 2.058.010 372
Hverfi
Huqiu hverfi 虎丘区 832.499 258
Wuzhong hverfi 吴中区 1.388.972 672
Xiangcheng hverfi 相城区 891.055 416
Wujiang hverfi 吴江区 1.545.023 1.093
Undirborgir
Changshu borg 常熟市 1.677.050 1.094
Taicang borg 太仓市 831.113 620
Kunshan borg 昆山市 2.092.496 865
Zhangjiagang borg 张家港市 1.432.044 772
Alls: 12.748.252 8.488
Óformlegar stjórnsýsludeildir – Suzhou iðngarðurinn & Suzhou Nýhverfið

Veðurfar

breyta
 
Snjóföl í „Garði meistara netanna“ sem upphaflega var byggður á 12. öld, er eitt margra kennileita Suzhou. Veturinn þykir kjörinn tími til að heimsækja garðinn þegar ferðamenn eru færri.

Suzhou hefur fjögurra árstíða rakt heittemprað loftslag undir áhrifum monsúnvinda, með heitum, rökum sumrum og svölum, skýjuðum, rökum vetrum með einstaka snjókomu. Sumur og vetur eru löng en vor og haust stutt.[8] Almennt má segja að veðrið sé milt og rakt með fjórum mismunandi árstíðum. Gott þykir að heimsækja borgina milli janúar og apríl því þá er veðrið ekki of kalt. Blóm eru í fullum blóma fram í júní.[9]

Norðvestanvindar sem blása á veturna frá Síberíu geta valdið því næturkólnun þannig að hiti fer niður fyrir frostmark á nóttunni og jafnvel snjóar. Sunnan- eða suðvestanvindar á sumrin geta ýtt hitastigi yfir 35 °C. Heitasti hiti sem mælst hefur í borginni síðan 1951 var 41,0 °C þann 7. ágúst 2013, og lægsti hitinn var -9,8 °C þann 16. janúar 1958.

Hér að neðan má sjá að árið 2020 var ársmeðalhiti um 17,9 °C og meðal ársúrkoma um 1.570 mm.

Veðurfar í Suzhou borg árið 2020
Mánuður Jan. Feb. Mar. Apr. Maí Jún. Júl. Ágú. Sep. Okt. Nóv. Des. Árið
Meðalhiti (°C) 6,5 8,9 12,6 15,9 23,0 25,7 26,5 30,9 24,5 18,7 14,8 6,5 17,9
Meðalúrkoma (mm) 113,4 58,3 120,6 40,3 63,4 316,7 475,4 77,5 129,7 70,2 91,4 12,7 1.569,6
Sólarstundir 50,9 135,9 145,1 211,0 143,5 92,4 63,2 230,7 142,1 157,3 141,2 134,2 1.647,5
Heimild: Hagstofa Suzhou: „Suzhou Statistical Yearbook 2021“[10]

Efnahagur borgarinnar

breyta
 
„Hliðið að Austurlöndum“ situr við vesturbakka Jinji vatns í Suzhou iðnaðargarðinum.
 
Listskúlptúrinn „Samlyndi“ í Suzhou iðngarðinum.
 
Ein hundraða verslana „Brúðkaupskjólamarkaðar Huqiu hverfis“ þar sem 1200 verksmiðjur og fjölskylduverkstæði framleiða brúðkaups- og kvöldkjóla.
 
Umskipun gáma í höfninni í Taicang einni undirborga Suzhou. Höfnin er í austurhluta Taicang og suður af Jangtse við Austur-Kínahaf.
 
Menningar- og listamiðstöð Suzhou sem opnaði árið 2007, situr austan Jinji vatns í Suzhou iðngarðinum. Hún hefur 138.000 fermetra gólfflöt.

Almennt

breyta

Allt frá tímum Tangveldisins (618 – 907) hefur efnahagslíf Suzhou byggst á textíliðnaði, einkum silki, og viðskiptum sem hafa byggt af mikilvægum vatnaleiðum – Jangtsefljóti og Miklaskurði. Eftir valdatöku kommúnista árið 1949, fór Sucsou á braut iðnvæðingar. Málmvinnsla, vélasmíði, hljóðfæragerð, rafeinda- og efnaiðnaður varð umfangsmikill þáttur í atvinnulífi borgarinnar. Fyrir var hefðbundinn iðnaður á borð við handverk, lakkvörur, húsgagnagerð í Ming-stíl, jaði- og tréskurður, aðallega til útflutnings. Eftir miklar niðursveiflur 20. aldar og fremur hæga framþróun hófst verulegur hagvöxtur borgarinnar um síðustu aldamót og varð hún fljótt ein af leiðandi borgum í Austur Kína.[11]

Í dag er Suzhou mjög þróað efnahagssvæði í Kína. Borgin er iðnaðar- og verslunarmiðstöð Jiangsu-héraðs, auk þess að vera mikilvæg fjármála-, menningar-, lista-, mennta- og samgöngumiðstöð. Þjónustugeiri borgarinnar einkum ferðaþjónusta, er mjög þróaður og vex að sama skapi.

Efnahagsþróun borgarinnar hefur verið mjög hröð síðustu áratugi eftir að Kína var opnað fyrir meira viðskiptafrelsi. Þannig tólffaldast landsframleiðsla borgarinnar milli áranna 1995 og 2012. Efnahagslegur styrkur Suzhou fór fram úr héraðshöfuðborginni Nanjing fyrir mörgum árum.[12]

Góð staðsetning borgarinnar í nálægð við Sjanghæ, lágur rekstrarkostnaður og hagstætt starfsumhverfi fyrirtækja hafa breytt borginni í miðstöð viðskipta og erlendrar fjárfestingar.[13] Samkvæmt matsrannsókn á samkeppnishæfni 291 kínverskra borga árið 2021 var Suzhou talin meðal þeirra 10 efstu.[14]

Erlend fjárfesting

breyta

Borgin hefur notið erlendrar fjárfestinga, byggt og en með tiltölulega lágan rekstrarkostnað. Til að auka samkeppnishæfni borgarinnar frekar frekar hafa borgaryfirvöld beitt sér í einföldun regluumhverfis fyrirtækja, hvatt til ráðningar erlendra sérfræðinga, fjárfestinga í rannsókn og þróun og víðtækra aðgerða til að laða að erlenda fjárfestingu.[15]

Hvatt hefur verið til erlendrar fjárfestingar í framleiðslu (t.d. lyfja, rafeindavöru, bíla) og þjónustu (t.d. banka, flutninga, og rannsóknarþjónustu). Meðal slíkra aðgerða borgaryfirvalda er ívilnandi skattastefna fyrir áhættufjármagn í fyrirtækjum er starfa innan Suzhou iðnaðargarðsins.[16]

Suzhou borg hefur þannig laðað að sér meira en 17.000 fyrirtæki með erlendu fjármagni, frá 115 löndum og svæðum.[17]

Áhersla á nýsköpun

breyta

Þá hefur borgin hvatt til nýsköpunar og stafrænnar tækni og veitt margvíslegan stuðning við háþróaðan framleiðsluiðnað á borð við líflæknisfræði, geimiðnað, hátæknibúnað, sjónfjarskipti, þróun nýrra efna og endurnýjanlegra orkugjafa.[18][19] Í lok árs 2021 voru Suzhou 111.555 nýsköpunarfyrirtæki í hátækni er nutu viðurkenningar Vísinda- og tækniráðuneytis Kína.[20] Borgin þykir fremst allra kínverskra borga á héraðsstigi hvað varðar þróun stafræns hagkerfis.[20]

Sérstök þróunarsvæði

breyta

Mikil uppsveifla í iðnaði hófst árið 1990 með stofnun hátækniiðnaðarsvæðis (Suzhou National New & Hi-Tech Industrial Development Zone) árið 1992. Annar iðnaðargarður, (Suzhou Industrial Park) var stofnaður árið 1994 vestur af gömlu borginni, á svæði 288 ferkílómetra landsvæði í samvinnu við fjárfesta frá Singapúr. Iðnaðarframleiðsla borgarinnar jókst í framhaldinu verulega.[21]

Undanfarna tvo áratugi hafa þessi iðnaðar- og fríverslunarsvæði laðað að sér yfir 5.000 erlend fjárfestingarverkefni, þar á meðal 156 verkefni fjárfest af 92 Fortune Global 500 fyrirtækjum. Þar á meðal nokkur heimsþekkt vörumerki eins og Bosch, Siemens, Samsung, BD, Wyeth, Philips, Fijutsu og Johnson & Johnson. Á sama tíma hafa 309 kínversk fyrirtæki verið hvött til erlendrar fjárfestingar í 53 löndum og svæðum.[22][23]

Á þessum þróunarsvæðum hafa en 500 innlend og erlend fyrirtæki sett upp rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar. Yfir 30 mennta- og rannsóknastofnanir er starfræktar þar í samvinnu við erlenda háskóla.[24]

Menntun og vísindi

breyta
 
Soochow háskólinn er opinber háskóli stofnaður af meþódistum árið 1900. Hann er einn fremsti háskóli Kína. Eingöngu efstu 5% nemenda á viðurkenndu inntökuprófi Kína komast þar að.
 
Háskólabærinn við Dushu-vatn“ sem var stofnað 2002 í Suzhou iðngarðinum, nær yfir 11 ferkílómetrar svæði. Þar eru nú 11 æðri menntastofnanir.
 
Duke Kunshan háskólinn (DKU) er kínversk-amerískur háskóli stofnaður árið 2013. DKU er samstarf Duke háskólans í Bandaríkjunum og Wuhan háskólans í Hubei héraði.

Almennt

breyta

Í aldir hefur Suzhou borg verið þekkt fyrir öflugar menntastofnanir. Frá stofnun alþýðulýðveldsins, og sérstaklega eftir innleiðingu stefnu um umbætur og opnun hagkerfis Kína, hafa stjórnvöld á öllum stigum lagt mikla áherslu á uppbyggingu menntunar. Menntakerfi Suzhou hefur þróast verulega fram á veg á síðustu árum. Gerðar eru meiri kröfur og menntakerfið er alþjóðlegra.[25]

Árið 2020 voru í borginni 1.749 skólar mismunandi gerðar og á ólíkum stigum. Þar á meðal eru 26 háskólar og framhaldsskólar. Alls voru þá um 2.1 milljón háskóla- framhaldsskólanemar. Á hverju ári útskriftast 465.000 nemendur, þar af 65.000 háskólamenntaðir. Fjöldi fastráðinna kennara er 130.000.[26]

Grunnskólakerfi Suzhou er alþjóðavænt. Borgin hefur 53 alþjóðlega skóla, þar á meðal 18 opinbera skóla með alþjóðlegum bekkjum, 31 alþjóðlega einkaskóla og 4 skóla fyrir börn erlendra starfsmanna, einn skóla fyrir börn taívanskra kaupsýslumanna; og 26 alþjóðleg samvinnuverkefni menntastofnana.[27]

Háskólaborgin

breyta

Suzhou hefur mikinn fjölda framhaldsskóla, háskóla og rannsóknarstofnanir. Þekktasti háskólinn er Soochow háskólinn sem er talinn lykilháskóli á landsvísu og þátttakandi í svokölluðu „211 verkefni“ úrvalsháskóla Kína.

„Háskólabærinn við Dushu-vatn“ (e. Dushu Lake Higher Education Town), sem stofnaður var árið 2002 í Suzhou iðngarðinum, nær yfir 11 ferkílómetrar svæði. Hann telur 11 æðri menntastofnanir, þar á meðal Xi'an Jiaotong-Liverpool háskólann, Vísinda- og tækniháskóla Kína, Xi'an Jiaotong háskólann, Nanjing háskólann, Suðausturháskólann, Renmin háskólann í Kína, Soochow háskólann, Sichuan háskólann, Wuhan háskólann, Raforkuháskóla Norður Kína, og útibú Þjóðarháskóla Singapúr. Að auki eru þar ýmsar rannsóknarstofnanir og framhaldsskólar. Nú eru 68.000 nemendur í háskólahverfinu, þar af um 13.000 framhaldsnemar, og meira en 3.000 kennarar.[28]

„Alþjóðamenntagarður Suzhou borgar“ (e. Suzhou International Education Park) sem staðsettur er í Wuzhong hverfinu, er þjálfunarstöð meira en 10 verkmennta- og framhaldsskóla og háskóla.

Í ofangreindir upptalingu eru ónefndir ýmsir framhaldsskólar og háskólar á héraðsstigi, eins og Changshu Tækniháskólinn, Shazhou tæknifagstofnunin, Kunshan framhaldsskóli Jiangsu á sviði hljóðvarps og sjónvarps, og svo framvegis. Að auki eru ýmsir framhaldsskólar, háskólar og háskólasvæði í byggingu.[29]

Vísindi og rannsóknir

breyta

Í borginni er sterk áhersla á vísindi, tækni og rannsóknir og þátt þeirra í samkeppnishæfni svæðisins. Það segir nokkra sögu að árið 2019 voru 104 vísinda-og fræðimenn frá Suzhou borg innan Kínversku vísindaakademíunnar og Kínverska verkfræðiakademíunnar.[30]

Í borginni eru 127 rannsóknarmiðstöðvar á sviði verkfræði og 741 fyrirtækjatæknimiðstöðvar. Alls eru þar 9.772 hátæknifyrirtæki.[31] Sem stendur eru tveir Nóbelsverðlaunahafar frá Suzhou - Li Zhengdao og Chu Diwen.[32]

Minjar og áhugaverðir staðir

breyta

Suzhou er fjölsótt ferðamannaborg. Vatnaborgin með síkjum og mörgum vatnaleiðum dregur að, sem og fjöldi stórkostlegra garða með hofum, skálum og klettaskúlptúrum. Fjöldi annarra menningar- og sögustaða ásamt nærliggjandi Tai-vatni gera svæðið að vinsælum ferðamannastað.

Klassískir garðar Suzhou

breyta
 
Garður hvíldar og íhugunar er í bænum Tongli í útjaðri Suzhou. Ren Lansheng, brottrekinn embættismaður vildi sýna íhygli og dyggð og byggði garðinn árið 1885.

Suzhou garðarnir vísa til garða og bygginga, sem upphaflega voru flestir einkagarðar. Þeir fyrstu eiga rætur í svokölluðu vor- og hausttímabili í sögu Kína þegar Suzhou varð höfuðborg Wu konungsríkisins (514 f.Kr.). Garðarnir þróuðust síðar á tímum Songveldisins (960–1279), döfnuðu á valdatíma Ming (1368–1644) og blómstruðu á tíma Tjingveldisins (1644–1912). Undir lok Tjingveldisins hafði Suzhou meira en 170 slíka garða. Meira en 60 eru vel varðveittir og 19 eru opnir almenningi. Þeir ná yfir lítil en vel hönnuð svæði sem byggja á listrænum hugmyndum um tengingu manns við náttúruna. Hið takmarkaða rými garðanna er úthugsað, hannað og skreytt og virðast taka breytingum við hvert fótmál.[33]

Árið 1997 fóru garðarnir sameiginlega á heimsminjaskrá UNESCO en þar voru níu þeirra tilgreindir sérstaklega.

Hin forna borg

breyta
 
Tonggui brúin yfir skipaskurðinn við Shentang götu. Ferðamönnum er þar boðið í siglingar á síkjunum og skurðum.

Gamla Suzhou borgin sem þekur 14,2 ferkílómetra svæði, var ein stærsta borgin til forna sunnan Jangtse -fljóts. Sá hluti Miklaskurðar (umfangsmiklir skipa- og áveituskurðir Austur Kína) sem liggur um Suzhou, inniheldur tíu borgarhlið og yfir 20 steinbrýr með sögulegum svæðum sem hafa verið vel varðveitt, auk mustera og skála. Alls eru 24 vatnaleiðir við Miklaskurð.

Rætur byggingarsögunnar má rekja allt til 514 f.Kr. Í meira en 2.500 ár hefur borgarsvæðið lítið breyst. Enn er þar sama heildarumgjörðin með vatnaleiðum, vegum og brúm. Tvær best vernduðu húsaraðirnar með einkenni vatnsborgar eru hin 1.200 ára gamla Shantang gata og hinn 800 ára gamli Pingjiang vegur.[34]

Tai vatnið

breyta

Tai vatnið er vinsæll ferðamannastaður. Það er stórt grunnt stöðuvatn sem liggur á mörkum héraðanna Jiangsu og Zhejiang. Það er um 2.250 ferkílómetrar að stærð, með 90 eyjum og meðaldýpi þess eru 2 metrar. Þrír fjórðu vatnsins tilheyrir Suzhou. Vatnið er tengt Miklaskurði.

Sögu og listasöfn

breyta
 
Suzhou safnið sem hinn frægi arkitekt I.M. Pei hannaði fyrir fæðingarborg sína. Alls heimsóttu 2.340.000 gestir þetta sögu- og listasafn árið 2018.
 
Óperu- og leikhússafn Suzhou er staðsett í leikhúsi frá tímum Mingveldisins í Gusu hverfi.

Suzhou safnið er staðbundið sögu- og listasafn sem hefur að geyma forna kínverska list, málverk, skrautskrift og handsmíðað handverk. Safnið var stofnað árið 1960 en flutti 2006 í núverandi húsakynni sem arkitektinn I.M. Pei hannaði fyrir fæðingarborg sína. Safnið nær yfir meira en 8.000 fermetra svæði. Hönnun nýju safnbyggingarinnar byggir á hefðbundnum byggingarstíl Suzhou, sem setur safnið á milli húsagarða. Aðalgarður safnsins þykir nútímalega túlkun á byggingarstíl „Garðs hins auðmjúka embættismanns“.[35]

Silkasafnið í Suzhou skjalfestir mikilvæga sögu silkiframleiðslu og útsaums í borginni frá um 2000 f.Kr. Þar má finna gamla vefstóla með sýnikennslu, sýnishorn af fornu silkimynstri og útskýringu á silkirækt.

Óperu- og leikhússafn Suzhou er staðsett í leikhúsi frá tímum Mingveldisins í Gusu hverfi borgarinnar. Þar eru sýningarsalir með gömlum hljóðfærum, handafrituðum bókum, textum, grímum og búningum. Safnið sýnir 500 ára sögu Kunqu, elstu form kínverskrar óperu.

Hof og pagóður

breyta
 
„Tígrahæða-pagóðan“ er eitt helsta tákn Suzhou. Goðsögn segir að þar hafi Helü konungur Wu ríkisins æft sverðburð. Eftir dauða hans hafi birtist þar hvítt tígrisdýr sem gaf hæðinni nafnið „Tígrahæð“.

Af mörgum frægum búddista og taóistum í Suzhou borg er Hansan hofið frægast. Það er staðsett í vesturhluta Suzhou. Frægð þess er að miklu leyti að þakka skáldinu Zhang Ji, sem orti ljóð um hofið á 8. öld, sem varð hluti af þekktu „Safni þrjúhundruð ljóða Tangveldisins“. Hofið var stofnað árið 502, en núverandi bygging þess er frá 19. öld. Í hofinu er stór steypt bronsbjalla og bjölluturn.[36]

„Tígrahæða-pagóðan“ er eitt helsta tákn Suzhou, átthyrnd, sjö hæða, 54 metra há múrsteinspagóða, sem var byggð á árunum 959 til 961, á Tígrahæð. Pagóðan hallar líkt og Skakka turninn í Písa, toppur hennar víkur frá lóðréttu um 2,3 metra.

„Pan-hliðið“ eða Panmen hliðið er sögulegt kennileiti við suðvesturhorni hinna fornu borgar Suzhou. Það var upphaflega byggt á svokölluðu vor- og hausttímabili í Wu fylki og er áætlað að það sé um 2.500 ára gamalt. Auk hliðsins eru tvö kennileiti: Ruiguang pagóðan, sem er elsta pagóðan borgarinnar byggð með einföldum búddískum útskurði árið 247; og brú sem kölluð er „Wu hliðið“ og var lengi hæsta brú borgarinnar.

Svæðið er hluti af hinum forna borgarmúr sem fyrst var byggður árið 514 f.Kr. Nafngiftin kemur upphaflega frá trédreka sem hékk á hliðinu sem átti að fæla frá Yue konungsríkið í suðri. Hliðið var eini inngangurinn að múrnum sem umkringdi og verndaði Suzhou.[37]

Samgöngur

breyta
 
Sporvagnastöð Hátæknigarðisins í Suzhou.

Samgöngur í stórborginni Suzhou eru flóknar og fjölbreyttar. Vegna nauðsyn þess að vernda fornminjar í elsta hluta borgarinnar eru viðgerðir og uppbygging samgöngumannvirkja erfiðar og umferð því þar þung. Á álagstímum og á frídögum er umferðin borginni ofviða; einkabílum fjölgar ört, auk þess sem borgin er mikil umferðar- og iðnaðarmiðstöð. Umferðarteppur eru því tíðar. Til að létta á umferðarþrýstingi hefur Suzhou skipulagt upphækkaðar hraðbrautir umhverfis borgina.

Samgöngur í þéttbýli Suzhou samanstanda af mörgu, þar á meðal rútum, leigubílum og járnbrautum. Borgaryfirvöld hafa hvatt íbúa til að nýta sér almenningssamgöngukerfið með niðurgreiðslum fargjalda og þeir forðist álagstíma eins og kostur er.[38]

Með Miklaskurði til Peking og Hangzhou sem liggur í gegnum borgina frá norðri til suðurs, og Sjanghæ -Nanjing járnbrautina, Peking -Sjanghæ hraðbrautina og Sjanghæ-Nanjing hraðbrautina sem liggja frá austri til vesturs. Nálægir eru fimm alþjóðaflugvellir.[39]

Vatnasamgöngur

breyta
 
Suzhou höfn telst stærsta höfn Jiangsu-héraðs og ein stærsta höfn í heims.

Samgöngur á vatni eru borginni mikilvægir. Meira en 2.700 kílómetrar af skipgengum vatnaleiðum mynda vatna- og landflutningsæð borgarinnar. Margar litlar skipgengar ár liggja í gegnum þéttbýlið og sumar eru einnig nýttar sem skemmtiferðaleiðir ferðamanna. Peking-Hangzhou skurðurinn, sem er hluti Miklaskurðar, liggur við borgina.[40] Suzhou hefur samtals 3.681 brýr í þéttbýli, þar af 27 sérstaklega stórar brýr, 125 brýr, 520 meðalstórar brýr og 3.009 litlar brýr.[41]

Suzhou-höfn er innanlandshöfn fyrir bæði vatnaleiðir sem og hafið. Suzhou-höfn er samheiti þriggja hafna umhverfis borgina. Þær eru staðsettar í Zhangjiagang, Changshu og Taicang, við neðri hluta Jangtsefljótsins. Þetta hafnarsamlag telst stærsta höfn Jiangsu-héraðs, ein stærsta höfn meginlands Kína og með þeim stærri í heiminum. Höfnin tengist með siglingaleiðum til meira en 400 innlendra og erlendra hafna.

Reglubundnar ferjusiglingar frá Suzhou-höfn eru til Hangzhou hafnar og Qingdao hafnar í Kína. Einnig sigla ferjur til Shimonoseki hafnar í Japan og til Busan hafnar í Suður-Kóreu.

Járnbrautir

breyta
 
CRH2 EMU háhraðalest á aðaljárnbrautarstöðinni í Suzhou. Þær ná allt að 250 km/klst hraða.
 
Kunshan lestarstöðin í Suzhou.

Með fjórum aðallestarstöðvum eru járnbrautartengingar borgarinnar mjög vel þróaðar. Aðallestarstöð Suzhou nálægt miðbænum, er meðal fjölförnustu farþegastöðva Kína. Í gegnum borgina liggja þrjár samhliða járnbrautir milli Sjanghæ - Nanjing: Peking-Sjanghæ járnbrautarlestirnar (sem eru aðallega „hefðbundnar lestir“ til ýmissa borga Kína) og SjanghæNanjing háhraðalestir með mjög tíða þjónustu. Frá Suzhou tekur aðeins um 25 mínútur að komast til Sjanghæ með hraðlest og innan við klukkustund til Nanjing.

Á Norðurlestarstöð borgarinnar, nokkrum kílómetrum norðar, er Peking–Sjanghæ háhraðalestin sem opnuð var árið 2011.

Aðrar stöðvar á Peking – Sjanghæ járnbrautinni og Sjanghæ–Nanjing borgarlestabrautinni þjóna stöðum innan Suzhou-héraðsborgar, eins og Kunshan.

Í norðurhluta Suzhou, Zhangjiagang, Changshu og Taicang, opnaði háhraðalest árið 2020 sem liggur þvert yfir Jangtsefljót frá Nantong til Sjanghæ.

Borgarlestir

breyta
 
Hraðvagn leið 1. Til að draga úr umferðarþunga var 2008 líkt og í fleiri borgum, ákveðið að byggja upp „Borgarlínur“, hraðvagnakerfi strætisvagna (BRT).

Borgarlestarkerfi Suzhou er með fimm línur í rekstri sem ná yfir 211 kílómetra. Með þeim fóru 410 milljónir farþegar árið 2021.

Verið er að leggja fjórar nýjar og á smíði þeirra að ljúka árið 2024. Þá mun þetta lestarkerfið samanstanda af níu sjálfstæðum lestarlínum sem spanna 353 kílómetra og 280 stöðvar. Samkvæmt langtímáætlun borgaryfirvalda eiga 21 borgarlestir að þjóna borginni árið 2035.

Sporvagnar

breyta
 
Suzhou sporvagninn í Nýhverfi Suzhou. Áætlanir eru um mikla uppbyggingu sporvagnakerfis í borginni.

Árið 2014 opnaði nýtt sporvagnakerfi Suzhou. Nú eru tvær sporvagnslínur í gangi í Nýhverfi Suzhou. Fyrirhugað er að byggja 6 sporvagnalínur á næstu árum.[42]

Strætisvagnr og hraðvagnakerfi

breyta
 
Strætivagn á leið 2 í Shinkansen, Suzhou.

Suzhou hefur öflugt strætisvagnakerfi sem liggur til allra borgarhluta. Fargjöld eru fast gjald, venjulega 1 Yuan fyrir rútur sem er ekki loftkældar og 2 Yuan fyrir loftkældar rútur. Til að draga enn úr umferðarþunga í borginni var árið 2008 opnað nýtt hraðvagnakerfi (BRT) sem er 25 kílómetra hraðflutningakerfi strætisvagna. Í dag eru 5 slíkar borgarlínur reknar á sérætluðum akreinum fyrir þessa strætisvagna.[43]

Þjóðvegir

breyta
 
Huchang hraðbrautin tengir Sjanghæ og Jiangsu hérað. Sjanghæ hlutinn er númeraður S26 en Jiangsu hlutinn númeraður S58.

Nanjing–Sjanghæ hraðbrautin tengir Suzhou við Sjanghæ, að öðrum kosti eru Yangtze Riverine hraðbrautin og Suzhou–Jiaxing–Hangzhou hraðbrautin. Árið 2005 var ytri þjóðvegahringurinn um Suzhou fullgerður, sem tengir undirborgirnar Taicang, Kunshan og Changshu. „Þjóðvegur 312 Kína“ liggur einnig í gegnum borgina.

Flugsamgöngur

breyta

Þrátt fyrir að vera fjölmenn borg og mikilvægur ferðamannastaður hefur Suzhou ekki eigin alþjóðaflugvöll.

Þrír flugvellir þjóna Suzhou borg, Sunan Shuofang alþjóðaflugvöllurinn (sem er sameign Wuxi og Suzhou), Sjanghæ Hongqiao alþjóðaflugvöllurinn (klukkutíma akstur eða 86 kílómetrar) og Sjanghæ Pudong alþjóðaflugvöllurinn (tveggja tíma akstur eða 120 kílómetrar).[44] Aðrir nálægir flugvellir eru Lukou alþjóðaflugvöllurinn í Nanjing borg í Jiangsu héraði, og Xiaoshan alþjóðaflugvölluinn í Hangzhou höfuðborg Zhejiang héraðs.

Tengt efni

breyta


Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Suzhou“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. júlí 2022.
  • „Britannica: Suzhou“. The Editors of Encyclopaedia. 29. ágúst 2013. Sótt 27. júlí 2022.

Tilvísanir

breyta
  1. Bulletin of the Seventh National Population Census of Jiangsu Province (18. maí 2021). „Seventh National Population Census of the People's Republic of China“. Jiangsu Provincial Bureau of Statistics. Sótt 27. júlí 2022.
  2. „吴国“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 21. ágúst 2022
  3. Suzhou Municipal People's Government (29. júlí 2021). „The Humble Administrator's Garden“. Suzhou Municipal People's Government. Sótt 30. júlí 2022.
  4. „Suzhou | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 29. júlí 2022.
  5. „Suzhou | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 29. júlí 2022.
  6. Suzhou Municipal People's Government (17. júní 2021). „Administrative Division“. Suzhou Municipal People's Government. Sótt 29. júlí 2022.
  7. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 30. júlí 2022
  8. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 31. júlí 2022
  9. Travel China Guide (7. apríl 2021). „Suzhou Weather“. Travel China Guide. Sótt 30. júlí 2022.
  10. Suzhou Statistical Office - Suzhou Statistical Yearbook 2021 (2021). „Table 1-3 Meteorological and hydrological conditions by region (2020)“. Suzhou Statistical Office. Sótt 30. júlí 2022.
  11. „Szucsou“, Wikipédia (ungverska), 19. nóvember 2021, sótt 31. júlí 2022
  12. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 31. júlí 2022
  13. Dorcas Wong (10. desember 2020). „Suzhou City Profile: Investment Stronghold and Innovation Trailblazer“. China Briefing. Sótt 30. júlí 2022.
  14. 刘明. „Shanghai tops city competitiveness rankings“. global.chinadaily.com.cn. Sótt 25. ágúst 2022.
  15. Dorcas Wong (10. desember 2020). „Suzhou City Profile: Investment Stronghold and Innovation Trailblazer“. China Briefing. Sótt 30. júlí 2022.
  16. Zoey Zhang (9. mars 2021). „Investing in Suzhou Industrial Park: A Brief Profile“. China Briefing. Sótt 30. júlí 2022.
  17. Dorcas Wong (10. desember 2020). „Suzhou City Profile: Investment Stronghold and Innovation Trailblazer“. China Briefing. Sótt 30. júlí 2022.
  18. Suzhou Bureau of Commerce (22. september 2021). „Advantages: Industries“. Suzhou Bureau of Commerce. Sótt 30. júlí 2022.
  19. Suzhou Municipal People's Government (14. mars 2022). „Suzhou's 2021 GDP exceeds 2.2 trillion yuan“. Suzhou Municipal People's Government. Sótt 30. júlí 2022.
  20. 20,0 20,1 Shi Jing - China Daily (11. janúar 2022). „Jiangsu cities see record industrial growth“. The State Council of the People's Republic of China. Sótt 26. ágúst 2022.
  21. Suzhou Industrial Park Administrative Committee (4. september 2019). „Sino-Singapore cooperation“. Suzhou Industrial Park Administrative Committee. Sótt 30. júlí 2022.
  22. Zoey Zhang (9. mars 2021). „Investing in Suzhou Industrial Park: A Brief Profile“. China Briefing. Sótt 30. júlí 2022.
  23. Suzhou Municipal People's Government (2. ágúst 2021). „Directory of Fortune 500 Investment in Suzhou“. Suzhou Municipal People's Government. Sótt 30. júlí 2022.
  24. Zoey Zhang (9. mars 2021). „Investing in Suzhou Industrial Park: A Brief Profile“. China Briefing. Sótt 30. júlí 2022.
  25. Suzhou Education Bureau (28. nóvember 2019). „Welcome to study in Suzhou!“. Suzhou Education Bureau. Sótt 1. ágúst 2022.
  26. Suzhou Municipal People's Government (23. júní 2021). „Education“. Suzhou Municipal People's Government. Sótt 1. ágúst 2022.
  27. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  28. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  29. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  30. Suzhou Education Bureau (28. nóvember 2019). „Welcome to study in Suzhou!“. Suzhou Education Bureau. Sótt 1. ágúst 2022.
  31. Suzhou Municipal People's Government (23. júní 2021). „Scientific and Technological Innovation“. Suzhou Municipal People's Government. Sótt 1. ágúst 2022.
  32. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  33. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 2. ágúst 2022
  34. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 2. ágúst 2022
  35. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 2. ágúst 2022
  36. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 2. ágúst 2022
  37. „盘门“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 28. júní 2022, sótt 2. ágúst 2022
  38. „苏州交通“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 16. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  39. Suzhou Bureau of Commerce (22. september 2021). „Location“. Suzhou Bureau of Commerce. Sótt 30. júlí 2022.
  40. „京杭大运河“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 14. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  41. „苏州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. júlí 2022, sótt 2. ágúst 2022
  42. „苏州交通“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 16. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  43. „苏州交通“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 16. júlí 2022, sótt 1. ágúst 2022
  44. Travel China Guide (6. júní 2021). „Suzhou Transportation - Getting There“. Travel China Guide. Sótt 30. júlí 2022.