Háskólinn á Bifröst

(Endurbeint frá Samvinnuskólinn)

Háskólinn á Bifröst áður Samvinnuskólinn eða Samvinnuskólinn Bifröst er íslenskur háskóli staðsettur í Norðurárdal í Borgarbyggð, inn af Borgarfirði. Í kringum skólann hefur myndast lítið þorp, Bifröst, þar sem búa um 200 manns.

Háskólinn á Bifröst
Merki skólans
Stofnaður: 1918
Gerð: Sjálfseignarstofnun
Rektor: Margrét Jónsdóttir Njarðvík
Nemendafjöldi: 937
Staðsetning: Bifröst, Ísland
Vefsíða
Bifröst.

Skólinn var stofnaður árið 1918 undir nafninu Samvinnuskólinn og var þá staðsettur í Reykjavík. Skólinn var rekinn af Sambandi íslenskra samvinnufélaga og var ætlaður fyrir meðlimi samvinnuhreyfingarinnar. Fyrsti skólastjórinn var Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann var mótaður eftir fyrirmynd Ruskin College, Oxford í Englandi, þar sem Jónas hafði sjálfur numið. Skólinn flutti árið 1955 í land Hreðarvatns í Norðurárdalnum. Það var svo árið 1988 að skólinn var gerður formlega að skóla á háskólastigi. Skólinn hefur gengið í gegnum nokkrar nafnabreytingar, en hann hefur, auk fyrsta nafnsins (Samvinnuskólinn) og þess núverandi (Háskólinn á Bifröst) heitið Samvinnuháskólinn og Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Skólinn hefur verið sjálfseignarstofnun síðan árið 1990 en fyrir það var hann deild innan SÍS.

Núverandi rektor er Margrét Jónsdóttir Njarðvík en hún tók við embætti árið 2020 þegar Vilhjálmur Egilsson lét af störfum þegar hann hafði gegnt embættinu í sjö ár, frá árinu 2013. Við skólann stunda rúmlega 900 manns nám og býr um 10% þeirra á stúdentagörðum í þorpinu. Skólanum er skipt upp í tvær deildir; félagsvísinda- og lagadeild og viðskiptadeild. Þar að auki er til staðar Háskólagátt, sem er hugsuð sem undurbúningur undir nám í grunndeildum háskólans. Skólinn útskrifar nemendur með eftirtaldar gráður: BS, BA, MS, MA og ML.

Samvinnuskólinn frá stofnun til 1990

breyta

Árið 1912 hefjast fyrirlestraferðir og námskeið Sigurðar Jónssonar í Ystafelli fyrir samvinnufélögin og þann 12. ágúst 1918 samþykkir stjórn SÍS að halda skóla fyrir samvinnumenn og er Jónas Jónsson frá Hriflu ráðinn skólastjóri og hefst skólahaldið í Reykjavík 3. desember 1918. Skólinn var tveggja ára námsbraut þar til að framhaldsdeild tók til starfa árið 1950. Vorið 1955 lætur Jónas Jónsson af störfum skólastjóra og Guðmundur Sveinsson tekur við og þá um sumarið er skólinn er fluttur frá Reykjavík að Bifröst í Borgarfirði og verður þar heimavistarskóli. Árið 1973 tók Framhaldsdeild til starfa í Reykjavík og var það námsbraut til stúdentsprófs. Árið 1977 var skólanum falið að sjá um starfsfræðslunámskeið fyrir samvinnuhreyfinguna. Árið 1986 verður Samvinnuskólaprófið stúdentspróf og verður þá tveggja ára námsbraut skólans miðuð við tvö síðari ár framhaldsskólastigs. Árið 1988 verður skólinn sérskóli á háskólastigi og í ársbyrjun 1990 verður skólinn sjálfseignarstofnun undir nafninu Samvinnuháskólinn. Námið í Samvinnuskólanum var tengt menntahugsjón lýðháskólahreyfingar og Grundtvigs og áhrifum frá Ruskin College í Oxford en aðlagað að þörfum Íslendinga fyrir verslunarnám og félagsmálafræðslu í samvinnuanda.[1]

Skólastjórnar og rektorar Bifrastar frá upphafi

breyta

Jónas Jónsson frá Hriflu 1918 - 1955
Guðmundur Sveinsson 1955 - 1974
Haukur Ingibergsson 1974 - 1981
dr. Jón Sigurðsson 1981 - 1991
Vésteinn Benediktsson 1991 - 1995
Jónas Guðmundsson 1995 - 1999
Runólfur Ágústsson 1999 - 2006
Bryndís Hlöðversdóttir 2006 - 2007
dr. Ágúst Einarsson 2007 - 2010
Magnús Árni Magnússon 2010 - 2011
Bryndís Hlöðversdóttir 2011 - 2013
dr. Vilhjálmur Egilsson 2013 - 2020
Margrét Jónsdóttir Njarðvík 2020 -

Tilvísanir

breyta
  1. Jón Sigurðsson, Bifrastarævintýrið og Jónasarskólinn : skerfur og saga Samvinnuskólans og Samvinnuháskólans frá upphafi til 1998, Samvinnuháskólinn á Bifröst, 1999

Tenglar

breyta