Robert Gascoyne-Cecil, markgreifi af Salisbury

(Endurbeint frá Salisbury lávarður)

Robert Arthur Talbot Gascoyne-Cecil, 3. markgreifinn af Salisbury (3. febrúar 1830 – 22. ágúst 1903), kallaður Robert Cecil lávarður fyrir 1865 og Cranborne markgreifi frá júní 1865 til apríl 1868, var breskur stjórnmálamaður úr röðum Íhaldsflokksins sem var þrisvar forsætisráðherra Bretlands, í alls rúmlega þrettán ár. Hann var síðasti forsætisráðherrann sem fór fyrir heilli ríkisstjórn úr lávarðadeild breska þingsins.

Markgreifinn af Salisbury
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
23. júní 1885 – 28. janúar 1886
ÞjóðhöfðingiViktoría
ForveriWilliam Ewart Gladstone
EftirmaðurWilliam Ewart Gladstone
Í embætti
25. júlí 1886 – 11. ágúst 1892
ÞjóðhöfðingiViktoría
ForveriWilliam Ewart Gladstone
EftirmaðurWilliam Ewart Gladstone
Í embætti
25. júní 1895 – 11. júlí 1902
ÞjóðhöfðingiViktoría
Játvarður 7.
ForveriJarlinn af Rosebery
EftirmaðurArthur Balfour
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. febrúar 1830
Hatfield, Hertfordshire, Bretlandi
Látinn22. ágúst 1903 (73 ára) Hatfield, Hertfordshire, Bretlandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiGeorgina Alderson (gift 1857; látin 1899)
BörnBeatrix, Gwendolen, Fanny, James, William, Robert, Edward, Hugh
Undirskrift

Sagnfræðingum kemur saman um að Salisbury hafi verið hæfur leiðtogi í utanríkismálum. Salisbury var hluti af landeignaraðlinum og kjörorð hans í stjórnmálum voru: „Allt sem gerist er til hins verra, og því er það okkur í hag að eins fátt gerist og hægt er.“[1]

Æviágrip

breyta

Robert Arthur Talbot Gascoyne-Cecil fæddist í Hatfield þann 3. febrúar 1830. Hann hlaut sína fyrstu skólamenntun í Eton en útskrifaðist síðar úr Christ Church College í Oxford.[2] Hann var ekki elsti sonur foreldra sinna og átti því ekki von á að erfa aðalsnafnbót og eignir föður síns. Eftir að hafa lokið námi fór Cecil á heimshornaflakk og kom meðal annars til Ástralíu, þar sem hann vann í gullgreftri.[2] Þegar Cecil sneri heim kvæntist hann Georginu Anderson í óþökk foreldra sinna.

Cecil var kjörinn á þing fyrir Stamford-kjördæmi árið 1853, þá 23 ára gamall. Árið 1865 lést eldri bróðir hans og því varð Cecil fyrstur í erfðaröðinni að jarlstigninni Salisbury. Árið 1866 gaf Derby lávarður Cecil sæti í ríkisstjórn sinni sem ríkisritari fyrir Indland. Tveimur árum síðar lést faðir hans og Robert Cecil varð þar með markgreifi af Salisbury. Sem slíkur hlaut hann einnig sæti á lávarðadeild breska þingsins, en hann var tregur til að yfirgefa neðri deildina þar sem honum fannst öll raunveruleg stjórnmálaumræða fara þar fram.[2] Salisbury sagði af sér sem Indlandsmálaráðherra árið 1867 þegar ríkisstjórnin samþykkti lög sem gáfu körlum úr verkamannastétt kosningarétt. Salisbury varð Indlandsmálaráðherra á ný í ríkisstjórn Benjamins Disraeli árið 1874. Hungursneyð geisaði í Indlandi á meðan Salisbury gegndi því embætti en hann þótti sýna af sér hæfileika og dugnað með viðbrögðum sínum við hamförunum þótt hann ynni sér litla hylli eða vinsældir heima fyrir með þeim.[2] Hann var útnefndur utanríkisráðherra árið 1878 og lék lykilhlutverk á Berlínarfundinum sama ár.

Eftir ósigur Íhaldsmanna í þingkosningum árið 1880 og dauða Disraeli næsta ár gerðist Salisbury leiðtogi Íhaldsmanna á lávarðadeildinni. Hann varð forsætisráðherra árið 1885 þegar William Ewart Gladstone, formaður Frjálslyndra, sagði af sér vegna misheppnaðrar tilraunar sinnar til að koma á írskri heimastjórn. Þegar Gladstone hafði lýst yfir stuðningi við írska heimastjórn hafði Salisbury lýst yfir andstöðu við frumvarpið, gengið í bandalag við Frjálslynda sambandssinna (klofning úr Frjálslynda flokknum) og unnið sigur í kosningunum árið 1886. Salisbury og Gladstone skiptust á því að fara með forsætisráðherraembættið mestallan níunda áratuginn og jafnan fór þá Salisbury einnig fyrir utanríkisráðuneytinu.[2]

Salisbury var forsætisráðherra þar til Gladstone og Frjálslyndir mynduðu nýja stjórn með stuðningi írskra þjóðernissinna árið 1892 þrátt fyrir að sambandssinnar hefðu fengið flest atkvæði og flest þingsæti í kosningum þess árs. Frjálslyndir töpuðu þingkosningum árið 1895 og Salisbury varð enn á ný forsætisráðherra. Á síðustu ráðherratíð sinni leiddi hann Breta til stríðs gegn Búum og vann annan kosningasigur árið 1900.

Salisbury dró sig að mestu úr stjórnmálalífinu vegna hrakandi heilsu árið 1902 og eftirlét frænda sínum, Arthur Balfour, forsætisráðherrastólinn. Salisbury lést ári síðar, árið 1903.

Tilvísanir

breyta
  1. Andrew Roberts (2012). Salisbury: Victorian Titan. Faber & Faber. bls. 328.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Salisbury lávarður“, Svava, 3. tbl. (01.10.1903), bls. 100 – 107.


Fyrirrennari:
William Ewart Gladstone
Forsætisráðherra Bretlands
(23. júní 188528. janúar 1886)
Eftirmaður:
William Ewart Gladstone
Fyrirrennari:
William Ewart Gladstone
Forsætisráðherra Bretlands
(25. júlí 188611. ágúst 1892)
Eftirmaður:
William Ewart Gladstone
Fyrirrennari:
Jarlinn af Rosebery
Forsætisráðherra Bretlands
(25. júní 189511. júlí 1902)
Eftirmaður:
Arthur Balfour