Robert Cecil, vísigreifi af Chelwood

Breskur stjórnmálamaður (1864-1958)
(Endurbeint frá Robert Cecil)

Edgar Algernon Robert Gascoyne-Cecil, fyrsti vísigreifinn Cecil af Chelwood (14. september 1864 – 24. nóvember 1958), var breskur lögfræðingur og stjórnmálamaður. Hann var einn af helstu hönnuðum Þjóðabandalagsins og vann lengi að því að efla starfsemi þess. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín með bandalaginu árið 1937.

Robert Cecil, vísigreifi af Chelwood
Cecil lávarður árið 1931.
Fæddur14. september 1864
Dáinn24. nóvember 1958 (94 ára)
MenntunEton-skóli
University College, Oxford
FlokkurÍhaldsflokkurinn
MakiLafði Eleanor Lambton (1868-1959)
ForeldrarRobert Gascoyne-Cecil, markgreifi af Salisbury & Georgina Gascoyne-Cecil, markgreifaynja af Salisbury
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1937)

Æviágrip

breyta

Robert Cecil var sonur Roberts Gascoyne-Cecil, þriðja markgreifans af Salisbury, sem var þrívegis forsætisráðherra Bretlands fyrir Íhaldsflokkinn.[1] Cecil gekk í heimavistarskóla þar til hann var 13 ára en gekk síðan í fjögur ár í Eton-skóla og nam lögfræði við Oxford-háskóla.[1] Þar fékk hann orð á sig sem fær rökræðumaður. Eftir námslok varð hann árið 1886 einkaritari föður síns, sem var þá forsætisráðherra, en gerðist strax næsta ár lögfræðingur í Inner Temple í London.[1] Árið 1889 kvæntist Cecil Eleanor Lambton. Hjónin eignuðust engin börn.[1]

Cecil var kjörinn á neðri deild breska þingsins í þingkosningum árið 1906.[1] Snemma á stjórnmálaferli sínum varð Cecil þekktur fyrir stuðning sinn við fríverslun. Cecil var 50 ára þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út og var því of gamall til að gegna almennri herþjónustu. Í staðinn vann hann fyrir Rauða krossinn á stríðsárunum og árið 1915 varð hann varautanríkisráðherra. Næsta ár gekk hann í breska leyndarráðið og varð hafnarbannsráðherra í ríkisstjórninni.[1]

Á stríðsárunum varð Cecil æ áhugasamari um að koma á fót alþjóðastofnun til að halda friðinn eftir stríðslok. Árið 1917 fékk hann utanríkisráðherrann Arthur Balfour til liðs við sig til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann fékk einnig stuðning Woodrows Wilson Bandaríkjaforseta og eftir stríðið var Þjóðabandalagið stofnað árið 1919.[1] Cecil var aðlaður árið 1923 sem Cecil vísigreifi af Chelwood og gekk í kjölfarið á lávarðadeild breska þingsins. Frá 1923-24 var hann innsiglisstjóri og árin 1924-27 kanslari hertogadæmisins Lancaster.[1]

Árið 1923 varð Cecil forseti sambands Þjóðabandalagsins og gegndi þeirri stöðu þar til bandalagið var leyst upp árið 1946. Árið 1923 stofnaði Cecil bresku samtökin Þjóðabandalagssambandið (e. League of Nations Union), sem hann leiddi jafnframt til ársins 1945. Ásamt Frakkanum Pierre Cot stofnaði hann Alheimsfriðarsamkomuna (fr. Rassemblement universel pour la paix), sem hann var jafnframt forseti fyrir.[2] Cecil hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1937.[2] Árið 1938 mótmælti Cecil München-sáttmálanum, sem viðurkenndi tilkall Þjóðverja til Súdetahéraðanna í Tékkóslóvakíu.

Eftir seinni heimsstyrjöldina sótti Cecil síðasta fund Þjóðabandalagsins í Genf og lauk síðustu ræðu sinni með orðunum: „Þjóðabandalagið er dautt; lifi Sameinuðu þjóðirnar!“.[3]

Eftir upplausn Þjóðabandalagsins settist Cecil að mestu í helgan stein. Hann hélt áfram að sækja fundi lávarðadeildarinnar og talaði stundum fyrir alþjóðlegum friðarverkefnum sem heiðursforseti Félags Sameinuðu þjóðanna. Cecil hélt síðustu ræðu sína á lávarðadeildinni í apríl 1953, þar sem hann ítrekaði stuðning sinn við heimsfriðinn.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 „Edgar Algernon Robert Gascoyne-Cecil, 1st and last Viscount Cecil of Chelwood“. thepeerage.com. Sótt 3. apríl 2020.
  2. 2,0 2,1 „The Nobel Peace Prize 1937“. nobelprize.org. Sótt 3. apríl 2020.
  3. „The end of the League of Nations“. Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Genf. Sótt 3. apríl 2020.
  4. „The International Situation - HL deb“. api.parliament.uk. 23. apríl 1953. Sótt 3. apríl 2020.