Vísindasaga

(Endurbeint frá Saga vísinda)

Vísindasaga er saga vísindanna og vísindalegrar þekkingar frá fornöld til okkar samtíma. Elstu vísindarit heims eru rit um stjörnufræði, stærðfræði og læknisfræði frá Mesópótamíu og Egyptalandi hinu forna frá um 3000 til 1200 f.o.t. Vísindaleg þekking Mið-Austurlanda hafði áhrif á náttúruspeki Forn-Grikkja í fornöld þar sem reynt var að finna náttúrulegar orsakir atburða í efnisheiminum. Grikkir og Rómverjar þróuðu klassíska heimspeki og urðu fyrstir til að rita um margar greinar náttúruvísinda og hugvísinda eins og náttúrufræði, siðfræði, rökfræði, mælskufræði, bókmenntafræði og fagurfræði. Evklíðsk rúmfræði var þróuð af Grikkjum. Á Indlandi og í Kína þróaðist líka þekking á stjörnufræði, stærðfræði, málfræði og stjórnmálafræði. Tugakerfisútreikningar voru þróaðir á Indlandi á miðöldum. Eftir fall Rómaveldis voru grísk heimspeki- og vísindarit í hávegum höfð í löndum múslima þaðan sem þau bárust aftur til Evrópu eftir 1000. Á gullöld Íslams urðu framfarir í efnafræði og læknisfræði og algebra var fundin upp. Á sama tíma urðu til ný rannsóknartæki í Kína, eins og baugahnöttur og kompás. Endurreisnin í Evrópu markast af enduruppgötvun heimspekirita klassískrar fornaldar. Á þeim tíma urðu framfarir á sviði verkfræði, og rúmfræði og einfaldar vélar voru notuð til að þróa nýja tækni í arkitektúr, skipasmíði og hernaði. Fyrsta eiginlega listasagan var skrifuð á Endurreisnartímanum.

Hlutföll sólar, tungls og jarðar úr riti Aristarkosar frá Samos.

Á 16. og 17. öld átti vísindabyltingin sér stað í Evrópu, meðal annars vegna nýrra rannsóknartækja, sjónaukans og smásjárinnar, sem veittu innsýn í hvort tveggja himingeiminn og lífríkið. Sólmiðjukenningin og landkönnun Evrópubúa á Landafundatímabilinu urðu til þess að grafa undan hefðbundinni trúarlegri heimsmynd almennings. Hin nýju vísindi, eins og þau voru kölluð, lögðu áherslu á kerfisbundnar athuganir með tilraunum og hugmyndin um vísindalega aðferð varð til. Þekking á virkni mannslíkamans jókst verulega á 17. og 18. öld og grunnur var lagður að vísindalegri næringarfræði. Undir lok 17. aldar lagði Isaac Newton grunninn að nútímaeðlisfræði með því að skilgreina sígilda aflfræði á stærðfræðilegum grunni. Með upplýsingunni á 18. öld urðu framfarir á sviði efnafræði, líffræði, verkfræði, jarðfræði, landfræði og hagfræði. Vísindaleg flokkun lífríkisins á grundvelli flokkunar Linneusar varð ásamt landafundunum upphaf kerfisbundinna rannsókna á lífríki heimsins og innbyrðis tengslum lífvera. Á 19. öld olli hagnýting gufuafls og rafmagns tæknibyltingu sem breytti daglegu lífi fólks um allan heim. Í kjölfarið á róttækum samfélagsbreytingum og þéttbýlisvæðingu 19. aldar þróuðust félagsvísindin og menntavísindi tóku framförum samhliða þróun menntakerfa. Rannsóknir á hlutverkum örvera í lífríkinu ollu byltingu í hjúkrun, matvælafræði og faraldursfræði. Á sama tíma jókst þekking á þróun lífvera og jarðsögunni. Á 20. öld urðu miklar framfarir á sviðum skammtaeðlisfræði, sameindalíffræði og erfðafræði, og tölvunarfræði varð til með tilkomu tölvutækninnar. Vísindarannsóknir urðu á þessum tíma sífellt umfangsmeiri, tæknivæddari og fjármagnsfrekari, og áhrif þeirra á daglegt líf fólks með þróun nýrrar tækni, lyfja, lækningaaðferða, gerviefna, samskiptaleiða, menntunar og afþreyingar, vel sýnileg hvert sem litið er.

Tengt efni

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.