Vísindaheimspeki
Vísindaheimspeki er undirgrein heimspekinnar, sem rannsakar heimspekilegan grundvöll og heimspekilegar afleiðingar vísindanna, þar á meðal formlegra vísinda, náttúruvísindann og félagsvísindanna. Vísindaheimspeki er nátengd þekkingarfræði og málspeki ásamt því að skarast við greinar frumspeki og verufræði sem er sú grein sem snýr að því að fjalla um tilveru hlutanna. Vísindaheimspeki leitast við að svara spurningunni um hvað það er sem einkennir vísindi og hvað gerir eitt að vísindum en annað ekki. Vísindaheimspekin fer ofan í það hvernig tilraunir og athuganir ásamt gerð kenninga hafa leitt vísindamenn þeim kenningum og staðreyndum sem við lifum við og notum í dag.
Markmið vísindaheimspekinnar
breytaVísindaheimspeki leitast við að skýra hluti á borð við:
- eðli vísindalegra fullyrðinga, hugtaka og niðurstaðna og hvernig þær verða til
- tegundir raka sem notast er við til þess að komast að niðurstöðum og til að setja fram vísindalega aðferð, þar á meðal takmörk hennar
- hvernig skuli ákvarða gildi upplýsinga (þ.e. hlutlægni)
- hvernig vísindin útskýra, spá fyrir um og hagnýta náttúruna
- þýðingu vísindalegra aðferða og módela fyrir samfélagið í heild, þar á meðal fyrir þau sjálf
Afleiðsla
breytaAfleiðsla kallast það þegar dregin er ályktun af almennari forsendum og ályktunin er nauðsynleg afleiðing þeirra. Það er að segja, ef forsendurnar eru sannar, þá verður niðurstaðan að vera sönn líka ef röksemdafærslan er á annað borð gild (röksemdafærsla er ógild ef allar forsendurnar geta verið sannar en niðurstaðan ósönn). Þvert á við um aðleiðslu, þá virkar afleiðsla frá því almenna yfir á það einstaka. Almenna hluti eins og það að menn eru dauðlegir er því hægt að heimfæra upp á einstaklinginn með þessum hætti:
- Allir menn eru dauðlegir
- Jón er maður
- Þess vegna er Jón dauðlegur
- öll a eru b
- c er a
- Þess vegna er c b
Gallinn á afleiðslunni er þó sá að hún gefur okkur engar nýjar upplýsingar, til að hún virki þarf maður að vita bæði það almenna og það einstaka.
Aðleiðsla
breytaAðleiðsla[1][2] er röksemdafærsla þar sem alhæft er út frá takmörkuðum vitnisburði. Í aðleiðslu styðja forsendurnar niðurstöðuna en tryggja hana ekki.
Eftirfarandi er dæmi um aðleiðslu:
- Allar krákur sem hafa sést eru svartar.
- Þar af leiðandi
- eru allar krákur svartar.
Dæmið sýnir glögglega eðli aðleiðslu: dregin er almenn ályktun út frá hinu einstaka. En þar sem ályktað er út fyrir forsendurnar er niðurstaðan ekki örugg. Ef við erum ekki viss um að hafa séð hverja einustu kráku í heiminum – sem er ómögulegt í framkvæmd – þá er alltaf mögulegt að til sé ein sem er öðruvísi á litinn. (Það mætti bæta því við skilgreiningu á kráku að hún sé svört; en ef tveir „krákulegir“ fuglar væru nákvæmlega eins fyrir utan litinn, þá myndum við segja að önnur krákan væri svört en hin væri nýtt og sjaldgæft afbrigði til dæmis blárrar kráku – við myndum samt sem áður segja að hvort tveggja væri afbrigði kráku.)
Afmörkunarvandinn
breytaAfmörkunarvandinn er vandi innan vísindaheimspeki sem leitast við að aðgreina raunveruleg vísindi frá gervivísindum (einnig kallað hjáfræði). Algengt viðmið til að kanna þetta notast við kenninguna um hrekjanleika sem Karl Popper setti fram um miðja 20. öld. Ef kenning er sögð vera hrekjanleg þá er ekki verið að segja að hún sé ósönn heldur er verið að benda á að kenningin inniheldur staðhæfingar sem hægt er að meta og rannsaka gagnvart reynslu meðal annars. Hrekjanleg kenning er sem sagt á þann veg að við gætum komist að því ekki allar staðhæfingar hennar standast nákvæma skoðun. Karl Popper taldi að þær vísindalegu kenningar sem ekki væru hrekjanlegar, væru í raun ekki vísindalegar kenningar heldur einungis gervivísindi.[3] Minnihluti vísindamanna, eða um 11%, telur afmörkunarvandann þó vera leystan og er hann því einn áleitnasti vandinn innan vísindaheimspekinnar.[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ Orðið „Vísindaheimspeki“ á Orðabanka íslenskrar málstöðvar
- ↑ Orðið „Vísindaheimspeki“ á Orðabanka íslenskrar málstöðvar
- ↑ Okasha, Samir (2002). Philosophy of Science: A Very Short Introduction, bls. 13.
- ↑ Laudan L. (1983) The Demise of the Demarcation Problem. Úr: Cohen R.S., Laudan L. (eds) Physics, Philosophy and Psychoanalysis. Boston Studies in the Philosophy of Science, vol 76. Springer, Dordrecht.[1]
Tenglar
breyta- Vísindaheimspekingar á Wikipedia
- „Hvað er vísindaheimspeki?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig geta vísindamenn verið áreiðanlegir ef þeir breyta kenningum ár frá ári? Og það síðustu 400 ár!“. Vísindavefurinn.
- „Hvað eru vísindi?“. Vísindavefurinn.
- „Skoða vísindin hlutina þverfaglega til að leita svara í samsvörun?“. Vísindavefurinn.